Fréttir

Nýir þátttakendur á fjármálamarkaði

Nýir þátttakendur á fjármálamarkaði

Friðrik Þór Snorrason

Forstjóri RB

12.09.2017

Á næsta ári taka gildi innan ESB ný lög um greiðsluþjónustu (e. PSD2) sem munu koma til með að hafa byltingarkennd áhrif á markaðinn. Fyrirhugað er að innleiða tilskipunina í íslensk lög á komandi ári. Með nýju lögunum, PSD2, er verið að aðgreina á milli framleiðslu og dreifingu fjármálaþjónustu.

Í raun er verið að opna markaðinn með svipuðu móti og gert var með fjarskiptamarkaðinn á tíunda áratug síðustu aldar. Opnun fjarskipta-markaðarins hafði gríðarleg áhrif á vöruframboð og verð fjarskiptaþjónustu innan Evrópu. Þannig minnkaði markaðshlutdeild gömlu ríkisreknu símafyrirtækjanna víðast hvar um helming eða meira og einingarverð að meðaltali um meir en 60%.

Opnun fjarskiptamarkaðarins

Þótt það sé óráðlegt að heimfæra þróunina á fjarskiptamarkaði beint yfir á fjármálamarkaðinn þar sem mun meiri samkeppni hefur ríkt á fjármálamarkaði en var við opnun fjarskiptamarkaðarins og sölu ríkissímafyrirtækja til einkaaðila. Þá spá sérfræðingar því að breytingin verði mjög mikil. Þannig eigi þátttakendum í greiðslumiðlun eftir að fjölga og það sem meira er vert er að þeir muni byggja viðskiptamódel sín á allt öðrum tekjugrunni en bankar og kortafyrirtæki geri í dag. Í stað þess að treysta á tekjur af færslugjöldum, kortalánum og yfirdráttarvöxtum munu nýjir þátttakendur byggja viðskiptamódel sín á vinnslu og notkun gagna (t.d. í formi tekna af auglýsingum sem birtast með reikningsyfirlitum). Því má búast við að færslu- og þóknunargjöld banka verði undir miklum þrýstingi til lækkunar á komandi árum og hafa sérfræðingar spáð því að þau gætu lækkað um 40% upp í 80%, en þessar tekjur eru um 20-25% af tekjum viðskiptabanka í dag innan Evrópu.

Fjórar sviðsmyndir

Til að gera sér grein fyrir því hverjir eru líklegir þátttakendur á fjármálamarkaði þá er gott að skoða það út frá tveimur víddum. Í fyrsta lagi, hvort að þátttakendur á markaðinum verði fyrst og fremst innlendir aðilar eða hvort að markaðurinn færist nær því að verða einn sameiginlegur markaður fyrir greiðsluþjónustu innan EES. Í öðru lagi hvort að þátttakendur á markaði verði áfram fyrst og fremst hefðbundin fjármálafyrirtæki, þ.e. bankar og færsluhirðar, eða hvort að nýir aðilar, t.d. fjártæknifyrirtæki, tæknifyrirtæki og jafnvel verslunarfyrirtæki, skapi sér stöðu á greiðslumarkaðnum eftir að PSD2 tilskipunin tekur gildi .

Út frá þessum tveimur víddum má sjá fyrir sér fjórar mismunandi sviðsmyndir:

  1. Óbreyttur markaður þar sem núverandi þáttakendur, bankar og sparisjóðir, verða áfram allsráðandi í greiðsluþjónustu.
  2. Opinn innlendur markaður þar sem nýir innlendir þátttakendur, sprota- og fjártæknifyrirtæki (t.d. Netgíró, Meninga), fjarskiptafyrirtæki eða jafnvel verslunarkeðjur byrja að marka sér stöðu á markaðnum.
  3. Opinn alþjóðlegur markaður þar sem erlend fjártæknifyrirtæki, tæknifyrirtæki og netverslanir byrja að bjóða greiðsluþjónustu hér á landi.
  4. Stórir alþjóðlegir bankar verða allsráðandi á markaði hér á landi sem erlendis.
Með tilkomu PDSD2 löggjafar hérlendis er líklegt að nýir þátttakendur á íslenska greiðslumarkaðnum verði til að byrja með fyrst og fremst innlendir. Íslensk sprotafyrirtæki, fjarskiptafyrirtæki og verslunarkeðjur munu eflaust prófa sig áfram með nýstárlegar PSD2 tengdar þjónustur. Þegar fram í sækir er hins vegar líklegt að erlend stórfyrirtæki komi til með að bjóða þjónustu sína á Íslandi. Til lengri tíma litið stendur íslenskum fjármálafyrirtækjum mun meiri ógn af erlendum stórfyrirtækjum á borð við Amazon Pay, PayPal, AliPay eða ApplePay en nýjum innlendum samkeppnisaðilum. Tæknirisarnir eru sérfræðingar í að nýta gögn og ljóst er að þau munu nýta fjárhagsgögn sem PSD2 veitir aðgengi að til að samtvinna við gnógt annarra gagna sem þau búa yfir til að selja aðra þjónustu til neytenda og fyrirtækja. Því gæti reynst erfitt fyrir íslensk fjármála- og fjártæknifyrirtæki að keppa við netrisana á jafnréttisgrunni.

Rannsóknir hafa einnig sýnt að neytendur treysta ágætlega sumum þessara fyrirtækja til að veita þeim ýmis konar fjármálaþjónustu. Í nýlegri könnun Accenture og University College Dublin kom fram að 53% neytenda myndu treysta þriðja aðila til að framkvæma greiðslur af innlánareikningi sínum, líkt og PSD2 mun gera mögulegt . Það er hefðbundnum bönkum ákveðin huggun að 76% neytenda nefndu fyrst að þeir treystu öðrum banka en þeirra eigin banka best til að veitar sér slíka þjónustu. Þegar neytendur voru hins vegar beðnir um að tilgreina hverjum þeir myndu treysta næst best tilgreindu 40% aðspurðra netverslunarfyrirtæki á borð við Amazon sem sinn annan valkost. 19% nefndu fjártæknifyrirtæki á borð við PayPal en hefðbundnar verslanir og fjarskiptafyrirtæki nutu ekki mikils traust. Ef niðurstöðurnar eru greindar eftir aldri sést að yngri einstaklingar eru frekar tilbúnir til að nýta þjónustu nýrra þjónustuveitenda en þeir eldri.

Í næsta pistli verður fjallað um PSD2, nýja reglugerð um persónuvernd og aðgengi þriðju aðila að fjárhagsgögnum.  

Pistillinn er sá þriðji í röðinni, fyrri pistla má sjá hér.

1) PSD2: More a „Future of Banking“ than a Payment Directive – Part 1, Sopra Banking Software, 2016

2) Seizing the Opportunities Unlocked by the EU’s Revised Payment Services Directive, Accenture Payment Services, 2016 og PSD2: More a „Future of Banking“ than a Payment Directive – Part 2, Sopra Banking Software

3) Norska fyrirtækið Evry gaf út áægta greiningu á því hvernig PSD2 gæti opnað markaði fyrir þriðju aðila, https://www.evry.com/en/news/articles/psd2-the-directive-that-will-change-banking-as-we-know-it/.

4) https://www.accenture.com/t00010101T000000__w__/gb-en/_acnmedia/PDF-29/Accenture-UK-Banking-PSD2-Consumer-Reactions.pdf