Viðburðir

Hugvekja um nýsköpun í fjármálastarfsemi

Hugvekja um nýsköpun í fjármálastarfsemi
01.04.2016

Skráðu þig á spennandi morgunverðarfund fimmtudaginn 14. apríl milli klukkan 8:45 og 10:15.

Um er að ræða “hugvekju” um það hvernig fjármálastarfsemi er að breytast með tilliti til nýsköpunar.

Undanfarin ár hafa nýir aðilar, svokölluð Fintech nýsköpunarfyrirtæki, verið að ryðja sér rúms á fjármálamarkaði sem hingað til hefur verið stjórnað af hefðbundnum fjármálafyrirtækjum svo sem bönkum og tryggingarfélögum. Fintech fyrirtæki einblína oft á hluta kökunnar og bjóða upp á sérhæfða starfssemi með gott og nútímalegt notendaviðmót, oftast í gegnum síma.

Hvernig mun þetta þróast á næstu árum? Munu Fintech fyrirtækin halda áfram að næla sér í bita af kökunni og hvernig munu fjármálafyrirtæki bregðast við?

Hugvekjan verður í öruggri stjórn Aðalgeirs Þorgrímssonar forstöðumanns Vörustýringar hjá RB en hugvekjurnar verða í höndum þeirra Stefáns Þórs Helgasonar hjá KPMG, Gunnars Helga Gunnsteinssonar hjá Memento og Arnars Jónssonar hjá Memento. Stefán mun fjalla almennt um hvernig umhverfið hefur verið að breytast og þeir félagar hjá Memento, Gunnar og Arnar, munu segja frá því af hverju nokkrir strákar út í bæ fóru að þróa greiðslulausn sem síðar skilaði sér í samstarfsverkefni við Íslandsbanka um þróun appsins Kass.

Í báðum hugvekjunum verður boðið upp á spurningar og svör.

Stefán Þór Helgason er ráðgjafi í nýsköpun hjá KPMG en hann hefur mikla reynslu úr nýsköpunargeiranum en áður starfaði hann hjá Klak Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetri.  Þar var hann meðal annars verkefnastjóri Gulleggins, Startup Energy Reykjavík, Startup Reykjavík, ClimateLaunchpad, Startup weekend Reykjavík og Snilldarlausna Marel.

Arnar Jónsson er CEO hjá Memento og einn af stofnendum fyrirtækisins en fyrirtækið er í samstarfi við Íslandsbanka um greiðsluappið Kass. Arnar hefur reynslu úr sjávarútvegi og nýsköpunarheiminum en hann vann áður hjá Markó Partners og íslenska sjávarklasanum.

Gunnar Helgi Gunnsteinsson er COO hjá Memento og einn af stofnendum fyrirtækisins.  Gunnar hefur mikla reynslu úr upplýsingatækni og hefur m.a. unnið hjá Mannviti og Landsvirkjun.

Fundurinn verður haldinn í höfuðstöðvum RB í Höfðatorgi, Katrínartúni 2, á 4. Hæð.

Fundurinn er opinn öllum - AÐGANGUR ÓKEYPIS.

UPPBÓKAÐ ER Á FUNDINN!

Vegna mikillar þátttöku urðum við að loka fyrir skráningu.

Takk fyrir frábær viðbrögð!