Starfsmannastefna

RB lítur svo á að þekking, færni, geta og vilji starfsfólks sé ein stærsta auðlind fyrirtækisins.

RB leggur áherslu á að hæfni starfsfólks fái að njóta sín sem best og að það sé til mikils að vinna að starfa hjá RB fyrir starfsferilinn og eigin starfsgleði. 

Til að ná markmiðum sínum leggur RB áherslu á að skapa starfsumhverfi sem tryggir að:

  • Stefna og markmið fyrirtækisins sé öllum starfsmönnum ljós.
  • Innan RB sé öflug liðsheild skipuð einstaklingum með fjölbreytta reynslu og hæfni þar sem nýsköpun og frumkvæði eru undirstaðan.
  • Laun og önnur starfskjör séu samkeppnishæf og í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til starfsmanna og frammistöðu hvers og eins.
  • Hver starfsmaður sé metinn að eigin verðleikum, óháð kyni, aldri, trúarbrögðum, kynhneigð, kynþætti eða öðrum þáttum sem geta aðgreint starfsfólk. Jafnrétti er eðlilegur hluti af starfsemi og starfsháttum fyrirtækisins.
  • Lögð er áhersla á símenntun, sjálfsnám, fræðslu og þjálfun sem gerir starfsmenn betur í stakk búna til að takast á við ögrandi viðfangsefni í síbreytilegu umhverfi.
  • Hverjum starfsmanni er sköpuð vinnuaðstaða í samræmi við hlutverk og þarfir. Aðbúnaður allur miðar að því að tryggja öryggi og vellíðan á vinnustað.
  • Stjórnun sé hvetjandi og sinnt með markvissum og nútímalegum hætti, byggt á bestu þekktu aðferðum og rannsóknum.

Jafnréttisstefna

Stefna RB í málum sem tengjast einelti og kynferðislegri áreitni

Markmið jafnréttisstefnu er að stuðla að jafnrétti kynjanna í samræmi við lög nr. 10 frá 18. mars 2008 “Um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla”.

Konum og körlum á að greiða jöfn laun og skulu þau njóta sömu kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf. Engu skiptir hvort um er að ræða föst laun, yfirvinnu, aukagreiðslur, orlof, lífeyri, laun í veikindum eða annað sem meta má til fjár.

Sérhver staða, starf og verkefni skal standa opið jafnt konum sem körlum.

Taka skal jafnt tillit til kynjanna varðandi framhaldsmenntun, endurmenntun og starfsþjálfun og skal vera jafnræði varðandi tíma sem í fer, fjárhagslega fyrirgreiðslu og vilyrði um aðstöðu eða kjör að því loknu.

Gera skal nauðsynlegar ráðstafarnir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu. Leitast skal við að hafa sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma, þannig að tekið sé tillit fjölskylduaðstæðna starfsmanna, þar með talið að þeim sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- eða foreldraorlof.

RB hefur hlotið Jafnlaunavottun. Tilgangur jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og miða að auknu jafnrétti kynjanna. Með þessu er markmiðið að auka almenna starfsánægju starfsmanna með gegnsærra og réttlátara launakerfi.

Hér að neðan má sjá jafnlaunastefnu RB.

Jafnlaunastefna RB.pdf

Allir starfsmenn RB eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu og starfsumhverfi þeirra einkennist af öryggi og vellíðan.

Einelti og/eða kynferðisleg áreitni sem á sér stað gagnvart starfsfólki, viðskiptavinum og öðrum aðilum sem tengjast RB með einum eða öðrum hætti verður ekki liðin.

Til viðbótar við hluta starfsmannastefnu RB þar sem segir: „RB leitast við að tryggja öryggi starfsfólks á vinnustað sem og heilsusamlegt starfsumhverfi. Það er eindregin stefna RB að einelti, kynferðisleg áreitni eða önnur samskipti sem gera lítið úr, eða eru meiðandi fyrir samstarfsfólk eru ekki liðin á vinnustaðnum“ hefur verið mörkuð viðbótar stefna gegn einelti og kynferðislegri áreitni og eru helstu markmið hennar eftirfarandi:

Að skapa öllu starfsfólki RB starfsumhverfi sem laust er við einelti og kynferðislega áreitni.

Að gera allt starfsfólk meðvitað um að kynferðisleg áreitni er móðgandi, auðmýkjandi og í óþökk þolandans og verður ekki liðið innan RB, í hvaða mynd sem hún birtist.

Að gera allt starfsfólk meðvitað um að einelti veldur angist og mikilli vanlíðan þolandans og verður ekki liðin innan RB, í hvaða mynd sem það birtist.

Að gera sýnilegar þær mismunandi boðleiðir sem starfsfólk getur nýtt sér við að leggja fram kvörtun um einelti eða kynferðislega áreitni eða til að leita sér ráðgjafar og aðstoðar.

Að skýra hvernig RB mun bregðast við komi fram kvörtun vegna eineltis eða kynferðislegrar áreitni.

Ávallt 100%

Ástríða

Við höfum ástríðu fyrir því sem við gerum og leyfum sköpunargleðinni ávallt að njóta sín.

Gildin okkar