Yfirlit

Fréttir, blogg og viðburðir

Fréttir
15.01.2020

Brynjar Már, nýr mannauðsstjóri RB

Brynjar Már Brynjólfsson hefur hafið störf sem mannauðsstjóri Reiknistofu bankanna (RB). Brynjar starfaði frá árinu 2015 hjá Origo, fyrst sem ráðgjafi á Viðskiptalausnasviði sem verkefnastjóri umbóta og svo sem mannauðsráðgjafi og staðgengill mannauðsstjóra. Helstu verkefni hans undanfarin ár hjá Origo hafa verið stjórnendaráðgjöf, umsjón með stefnumótun fyrirtækisins og verkefnastjórnun ýmissa verkefna þvert á svið fyrirtækisins.

Fréttir
16.09.2019

Vertonet heimsækir RB

Vertonet stendur fyrir opnunarviðburði fimmtudaginn 19. september nk. hjá RB, frá kl 17:00 -19:00. Yfirskrift fundarins er:

Þín leið: markmið og árangur.

Skráning

Fréttir
10.09.2019

Haustviðburður RB í samstarfi við Syndis

UPPSELT ER Á VIÐBURÐINN!

Þökkum frábærar móttökur og hlökkum til að sjá alla sem skráðu sig 9. október.

______________________________________________________________________

Fréttir
21.08.2019

Vilt þú læra meira um Docker?

UPPSELT ER Á VIÐBURÐINN.

ÞÖKKUM FRÁBÆRAR VIÐTÖKUR, ERUM BÚIN AÐ FLYTJA VIÐBURÐINN Í SILFURBERG Í HÖRPU.

Gámar (e. containers) eru sífellt meira notaðir við að þróa og dreifa hugbúnaði. Ekki að ástæðulausu þar sem því getur fylgt mikil hagræðing, allt að tíföldun í uppfærsluhraða og 50% minni rekstrartruflanir.


Ef þú vilt læra um Docker, Kubernetes og gáma, er þetta frábært tækifæri til að læra af sérfræðingum frá Docker sem heimsækja okkur 6. september.


Fréttir
01.06.2019

Mánaðarmótavinnslur klárast á næstu klukkustundum

Tafir hafa í dag orðið á keyrslum hjá RB vegna mikils álags á kerfum en mánaðarmótin maí/júní eru stærstu mánaðarmótakeyrslur ársins, m.a. vegna launagreiðslna, endurgreiðslna frá skattinum og greiðslna frá Tryggingastofnun Gert er ráð fyrir að öllum keyrslum verði lokið innan nokkurra klukkustunda.

 

Fréttir
22.05.2019

Sjóvá semur við RB

Sjóvá hefur samið við Reiknistofu bankanna um rekstur á tækniinnviðum og notendaþjónustu. RB mun taka við rekstri allra upplýsingatæknikerfa og sinna almennri tækni- og vettvangsþjónustu við starfsfólk hjá Sjóvá. Að auki hefur Sjóvá samið við Deloitte á Íslandi um grunnrekstur SAP kerfa.

Fréttir
21.05.2019

RB hlýtur jafnlaunavottun

RB hefur hlotið jafnlaunavottun frá vottunarstofunni iCert, sem er staðfesting þess að jafnlaunakerfi RB samræmist kröfum jafnlaunastaðalsins, ÍST85:2012. Tilgangur jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og miða að auknu launajafnrétti kynjanna. Með þessu er markmiðið að auka almenna starfsánægju starfsmanna með gegnsærra og réttlátara launakerfi. Fyrirtæki með 150 – 249 starfsmenn þurfa ekki að klára vottun fyrr en í lok árs 2020 en það var RB mikilvægt að klára þessi mál sem allra fyrst.

Fréttir
25.03.2019

Bilun í búnaði hjá RB, unnið að lagfæringu  

Bilun kom upp í morgun í kerfum hjá RB sem gerir það að verkum að færslur birtast ekki á reikningsyfirlitum hjá Landsbankanum og Íslandsbanka. Staða reikninga í netbönkum, öppum og hraðbönkum er engu að síður rétt. Viðskiptavinir eru beðnir um að gæta að því að endurtaka ekki greiðslur og/eða millifærslur þó þær sjáist ekki á yfirliti.

 

Fréttir
14.02.2019

Viðhald í greiðslukerfum RB / Maintenance on RB‘s payment system

Vegna viðhalds hjá RB verða greiðslukerfi Landsbankans og Íslandsbanka ekki aðgengileg frá kl. 00:30 í kvöld (15.02.2019).

Fréttir
31.01.2019

Truflanir í heimildargjöf debetkorta í dag

Truflanir urðu í heimildagjöf debetkorta hjá RB um kl 15 í dag. Einhver dæmi eru um að færslur hafi farið oftar en einu sinni út af reikningi.  RB hefur hafið vinnu við leiðréttingar sem áætlað er að ljúki fyrir lok dags 1. febrúar.

Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa valdið. 

Nánari upplýsingar veita þjónustuver bankanna.

Fréttir
18.01.2019

Fréttatilkynning: Arion banki semur við RB um innleiðingu á nýjum grunnkerfum

RB og Arion banki skrifuðu í dag undir samning um innleiðingu á nýjum grunnkerfum bankans.  Um er að ræða kerfi frá Sopra Banking Software og lausnir frá RB sem reknar eru sameiginlega fyrir íslenska bankakerfið. Sopra, sem er eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki Evrópu með yfir 40 ára reynslu, er samstarfsaðili yfir 800 fyrirtækja í 70 löndum og hefur nú þegar tekið þátt í tveimur innleiðingum á Íslandi.

 

Fréttir
16.01.2019

Bilun kom upp í búnaði hjá RB í nótt  

Bilun kom upp í búnaði hjá RB í nótt sem gera það að verkum að hreyfingar sjást ekki í netbanka Landsbankans og Íslandsbanka. Staða reikninga í grunnkerfum RB er engu að síður rétt og öll greiðsluvirkni er í lagi.

 

 

Fréttir
04.01.2019

Fréttatilkynning - Stjórn RB hefur ráðið Ragnhildi Geirsdóttur í starf forstjóra félagsins

Ragnhildur hefur víðtæka reynslu úr íslensku atvinnulífi og mikla stjórnunarreynslu. Ragnhildur kemur til RB frá Wow Air þar sem hún starfaði sem aðstoðarforstjóri frá því í ágúst 2017. Þar áður var Ragnhildur framkvæmdastjóri Rekstrar og upplýsingatækni hjá Landsbankanum í fimm ár og forstjóri Promens í rúm fimm ár. Þar áður starfaði Ragnhildur hjá Icelandair/Flugleiðum í sex ár og gegndi stöðu forstjóra í lok þess tíma.

Fréttir
17.09.2018

RegTech, lausnin að sífellt flóknara regluverki?

Reiknistofa bankanna (RB) í samstarfi við breska ráðgjafarfyrirtækið Alvarez and Marsal stendur fyrir opnu málþingi þann 4. október n.k. á Hilton Reykjavík Nordica undir yfirskriftinni “RegTech - Lausnin við sífellt flóknara regluverki fjármálakerfisins?

Fjármálaþjónusta í heiminum er að breytast hratt, regluverkið verður sífellt flóknara og flækjustigið er að aukast. Til að einfalda innleiðingu og samþættingu upplýsingatækni og þess regluverks sem fjármálafyrirtæki búa við hafa orðið til svokölluð “RegTech“ fyrirtæki sem sérhæfa sig í ráðgjöf og þróun lausna á þessu sviði.
Fréttir
09.08.2018

Valkröfur í heimabanka

Að gefnu tilefni vill Reiknistofa bankanna (RB) upplýsa að RB stofnar ekki kröfur á hendur einstaklingum eða fyrirtækjum. Slíkar kröfur eru stofnaðar í gegnum m.a. viðskiptabanka og sparisjóði sem aðgang hafa að kerfi RB.

Taka skal fram að valkröfur þarf ekki að greiða en einstaklingar geta leitað til síns viðskiptabanka eða sparisjóðs ef þeir hafa fyrirspurnir um slíka kröfu.

Fréttir
20.06.2018

Hlaupandi forstjóri og 6.596 bankar

Þegar ég hóf störf hjá RB á sínum tíma þá bar það svo til að ég fór í ferð til Dan­merkur ásamt for­stjóra félags­ins. Þetta væri nú ekki til­efni til mik­illa frétta, nema vegna þess að áður en lagt var af stað þá skor­aði hann á hóp­inn að taka með sér hlaupa­skó til að taka morg­unskokk í Köben.

Fréttir
10.04.2018

Vorráðstefna RB 2018

Taktu frá 15. maí 2018 og mættu í Hörpu á einstaklega spennandi ráðstefnu undir yfirskriftinni, "Hver ætlar að baka kökuna?"

Fréttir
02.03.2018

Friðrik valinn stjórnandi ársins 2018

Friðrik, forstjóri RB, var valinn stjórnandi ársins 2018 af Stjórnvísi og tók við viðurkenningu frá forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Þrír stjórnendur voru verðlaunaðir. Friðrik í flokki yfirstjórnenda, Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR í flokki millistjórnenda og Jóhannes Ingi Kolbeinsson, stofnandi Kortaþjónustunnar í flokki frumkvöðla.

Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með 3000 virka félagsmenn. Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi eru veitt árlega stjórnendum fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði. Félagar í Stjórnvísi tilnefna stjórnendur út frá viðmiðum sem sett eru hverju sinni. Í ár voru yfir 70 stjórnendur tilnefndir og vorum við hjá RB með tvær tilnefningar, Friðrik í flokki æðstu stjórnenda og Magnús Böðvar, framkvæmdastjóri Rekstrarlausna, í flokki millistjórnenda.

Úr umsögn dómnefndar

Sá sem hlýtur verðlaunin sem yfirstjórnandi fyrirtækis er vel að því kominn. Árið 2011 tók hann við sem yfirstjórnandi fyrirtækis í tæknigeiranum, sem ekki hafði tekið miklum breytingum í áranna rás, en byggði á mjög traustum grunni. Rekstrarformi þess hafði verið breytt í hlutafélag og ný stjórn kom að félaginu. Eitt fyrsta verk stjórnar var að ráða nýjan forstjóra. Frá árinu 2011 hefur fyrirtækið fengið ótal vottanir og viðurkenningar:

 • Árið 2011 var ISO27001 vottun endurheimt (frá árinu 2009)
 • Árið 2012 PCI vottun frá Visa og Master Card fyrir vinnslu kortaupplýsinga
 • Árið 2014 var innleiddur áhættustýringarstaðallinn COSO. Áhættugreiningar eru orðnar hluti af DNA fyrirtækisins þannig að árlega eru framkvæmdar fleiri þúsundir áhættugreiningar.
 • Árið 2016 tilnefning til Íslensku þekkingarverðlaunanna veitt af Félagi viðskipta og hagfræðinga
 • Árið 2016 fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Viðurkenningin er veitt af Rannsóknarmiðstöð um góða stjórnarhætti við H.Í. Samstarfsaðilar rannsóknar-miðstöðvarinnar eru Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq og Samtök atvinnulífsins.
 • Árin 2016 og 2017 valið sem Framúrskarandi fyrirtæki hjá Creditinfo.

Eftirfarandi lýsing er frá fyrrverandi samstarfsmanni og síðar viðskiptavin: 

Friðrik er einhver "strategískasti" maður sem ég þekki. Hann borar ofan í hlutina til að skilja þá til hlítar, rannsakar og viðar að sér gögnum og býr til framtíðarsýn eða "stóru myndina" og byggir hana á gögnum og rökum.  Hann er gríðarlega talnaglöggur en á sama tíma mjög næmur fyrir markaðsnálgun sem er mjög sérstök blanda.  Hann fylgir hlutunum mjög vel eftir, er mjög kröfuharður við sjálfan sig og aðra og þó það blási á móti missir hann aldrei sjónar af endamarkinu. Friðrik er afskaplega ósérhlífinn, segir hlutina eins og þeir eru og stendur við orð sín.  Hann hefur ástríðu fyrir því sem hann gerir.  Hann hvetur fólkið sitt áfram og er mjög umhugað um að fólki líði vel í fyrirtækinu, sé vel upplýst og stolt af því sem það er að gera.

Eftirfarandi lýsing studdi tilnefningu Friðriks til verðlauna:

Friðrik hefur breytt RB mikið frá þeim tíma sem hann kom í fyrirtækið. RB er í dag fyrirtæki sem er að gera mjög miklar og stórar breytingar bæði með útskiptingu grunnkerfa bankanna og með tilkomu fyrstu farsímagreiðslulausninni sem millifærir beint af reikningi kaupanda yfir á reikning seljanda.  Friðrik hefur einnig verið sterk rödd á markaði um þær breytingar sem munu koma með nýju greiðsluþjónustulögunum (PSD2) sem munu breyta fjármálamörkuðum eins og við þekkjum þá.  Kjarninn var með áhugaverða úttekt á fjármálaþjónustu á Íslandi þar sem segir m.a.: "Reiknistofa bankanna hefur verið sá aðili sem hefur verið leiðandi í þessari umræðu hér á landi, meðal annars með ráðstefnuhaldi og opinni umræðu um helstu álitamálin. Það er til fyrirmyndar, enda mikið í húfi."  Í þessu stóra verkefni á útskiptum grunnkerfa bankanna hefur Friðrik sýnt fólkinu sínu mikinn stuðning og verið hér öllum stundum til að flýta ákvörðunartöku og styðja fólkið sitt. Hann endaði árið á því að elda sjálfur "Beef Wellington" fyrir þá sem voru á vakt vegna áramótavinnslna. Kynjaskipting hjá RB er einnig með því besta sem sést í upplýsinga- og hugbúnaðageiranum og jafnréttismál í hávegum höfð.

Félag með skýran tilgang

Friðrik hélt ræðu við athöfnina þar sem hann fór yfir hvað þær miklu breytingar sem hafa orðið hjá RB undanfarin ár. Hann sagði þó lykilatriði vera hinn sterka grunn og skýra tilgang sem fyrirtækið byggir á. Hann talaði líka um þá miklu vinnu sem starfsfólk RB hefur lagt á sig til að koma fyrirtækinu á þann stað sem það er í dag. Við hjá RB erum ákaflega stolt af þessum verðlaunum og óskum Friðriki hjartanlega til hamingju.

 

Fréttir
25.02.2018

RB aðili að fyrsta gagnaveri í Reykjavík ásamt Opnum kerfum og Vodafone

Fyrsta gagnaver Reykjavíkur verður reist á Korputorgi á árinu, samningar þess efnis voru undirritaðir í dag á Korputorgi. Um er að ræða umhverfisvænt hátæknigagnaver í eigu Opinna kerfa, Vodafone, Reiknistofu bankanna og Korputorgs ehf. Reiknað er með að gagnaverið verði eitt það tæknilegasta og öflugasta á landinu. Um að ræða allt að 5 þúsund fermetrar nýbyggingu sem byggð verður í áföngum og mun fyrsti áfangi kosta hátt í milljarð króna. Framkvæmdir hefjast fljótlega og gera áætlanir ráð fyrir því að fyrsti áfangi verði tilbúin snemma árs 2019.

Gagnaverið verður aðalvélarsalur Reiknistofu bankanna og mun það sinna kröfuhörðum viðskiptavinum félagsins sem leggja ríka áherslu á rekstrar- og gagnaöryggi. Gagnaverið mun uppfylla svokallaðan Tier III staðal, sem þýðir að í allri þjónustukeðju gagnaversins verður nægur varabúnaður til staðar til að tryggja 100% þjónustuöryggi.

Staðsetning gagnaversins er mikilvæg en þar koma saman margir þættir sem skipta miklu máli. Afhendingaröryggi raforku er mikið og þegar liggja gagnastofnbrautir (afkastamiklir ljósleiðarar) um Korputorg. Þá er leyfi fyrir gagnaver til staðar á lóðinni.

Mikil sóknarfæri eru í gagnaversiðnaði sem er sá iðnaður í heiminum sem vex einna örast. Þá má geta að nýlega var Ísland valið öruggasta land í heimi fyrir gagnaver af alþjóðalega stórfyrirtækinu Cushman & Wakefield.

„Það ánægjulegt að þátttaka RB í verkefninu tryggi framgang þess og að til verði öruggt hágæða gagnaver á höfuðborgarsvæðinu. Gagnaverið er sérsniðið að þörfum RB og uppfyllir ströngustu kröfur viðskiptavina RB, sem leggja mikla áherslu á að tryggja öryggi þjónustu til neytenda og fyrirtækja. Verkefnið skapar nýjan valkost fyrir fyrirtæki og stofnanir og ýtir þannig undir samkeppni á gagnaversmarkaðinum á Íslandi. Um er að ræða öruggan og hagkvæman kost sem á eftir að höfða jafnt til innlendra sem erlendra fyrirtækja“ segir Friðrik Þór Snorrason forstjóri Reiknistofu bankanna.

Fréttir
02.02.2018

Búið að koma í veg fyrir bilun

Bilun kom upp í kerfum RB í gær vegna óvanalegs álags og skýrist af mörgum samverkandi þáttum. Að öllu jöfnu ráða kerfi RB við aukið álag í tengslum við mánaðarmót en við það bættist bilun í búnaði  sem takmarkaði afkastagetu og hafði keðjuverkandi áhrif á kerfið. Þetta olli  truflunum í heimildargjöf debetkorta, afgreiðslukerfi bankanna og í hraðbönkum. Tveir álagstoppar mynduðust, annars vegar upp úr 13:00 og hins vegar upp úr 17:00. Á þeim tíma var ekki hægt að nota debetkort í verslunum, hraðbönkum eða afgreiðslukerfum . Þetta varði í rúmar 20 mínútur í fyrra skiptið og rúmar 50 mínútur í seinna skiptið og orsakaði eðlilega mjög mikla röskun hjá verslunar- og þjónustufyrirtækjum.

 

Neyðarstjórn RB var kölluð út strax við fyrra atvikið. Stjórnin og stór hópur starfsmanna RB og samstarfsaðila vann að úrlausn fram á kvöld. Klukkan 18:00 voru kerfi RB komin í eðlilegt ástand og viðgerðum á búnaði var að fullu lokið um kl 21:00. Ekki er talin hætta á frekari röskun á þjónustu af þessum sökum.

 

Færslur sem framkvæmdar voru oftar en einu sinni verða leiðréttar af RB í dag. Viðskiptavinir sem ekki geta beðið geta leitað til síns viðskiptabanka.

 

RB gerir sér grein fyrir alvarleika málsins og harmar þær erfiðu aðstæður sem sköpuðust. RB mun í samvinnu við sína viðskiptavini greina málið frekar og grípa til ráðstafana sem draga úr möguleikum á sambærilegum bilunum í framtíðinni.

 

Fréttir
01.02.2018

Öflugur hópur kvenna hjá RB

RB er stolt af því að vera einn af velunnurum FKA og styðja þannig við konur í atvinnulífinu. í tilefni af FKA hátíðnni 2018 ákváðum við að vera með í kynningarblaði um konur í atvinnulífinu sem kom út 1. febrúar 2018.

___________________

Reiknistofa bankanna er að sönnu dæmigert upplýsingatæknifyrirtæki nema hvað að í áranna rás hefur hlutfall kvenna í starfsmannahópnum verið óvenjuhátt miðað við önnur fyrirtæki í sama geira. Að einhverju leyti má rekja þessa staðreynd til sögulegra skýringa en einnig hafa stjórnendur RB lagt sig í líma við að halda hlutfallinu háu, enda talið æskilegt. Í dag eru 35% starfsmanna RB konur sem er með því hæsta sem gerist hér á landi hjá upplýsingatæknifyrirtæki. Hlutfall kvenna í stjórnenda- og lykilstöðum er enn hærra, eða 53%. 

„RB er eitt fárra hlutafélaga sem er með fleiri konur en karla í stjórn, sem er sérlega gleðilegt þar sem rannsóknir sýna að það bætir gjarnan stjórnarhætti fyrirtækja, en fyrir okkur snýst þetta þó alltaf um að leyfa fólki að njóta sín og sinna styrkleika, óháð kyni.

Herdís Pála Pálsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og markaðsstjórnar, bendir á að Reiknistofa bankanna sé rótgróið fyrirtæki, stofnað árið 1973, og á fyrstu árunum hafi bæði verið ráðið inn starfsfólk með bakgrunn í tækni en einnig bakgrunn í bankaumhverfi. „Þá voru það gjarnan konur sem fengnar voru til starfa enda þekktu þær einna best framendann í bönkunum, en RB hefur frá upphafi þróað og rekið sameiginlegt grunnkerfi bankanna,“segir Herdís. „En á síðustu árum, á tímum mikilla breytinga hjá fyrirtækinu þá höfum við lagt okkur fram við að passa hlutfallið og erum meðvituð um það þó það sé ekki alltaf auðvelt í þeim bransa sem við erum. Sér í lagi er það áskorun að hækka hlutfall kvenna í tæknirekstri þar sem afar fáar konur sinna rekstrarþáttum kerfanna. Við myndum gjarnan vilja sjá aukna þátttöku kvenna þar en að sjálfsögðu líka við forritun.

Jafnrétti mikilvægasta samfélagsmálið

Þrátt fyrir að stjórnendur RB leggi áherslu á hlut kvenna er ekki þar með sagt að konum sé lyft hærra en körlum. „Nei, við höfum jafnrétti og sveigjanleika að leiðarljósi. Við höfum til dæmis verið að vinna að útskiptingu grunnkerfa hjá Landsbankanum og Íslandsbanka undanfarið. Verkefnið er eitt stærsta upplýsingatækniverkefni sem farið hefur verið í á Íslandi. Það hafa komið miklir álagstoppar og lengjast þá gjarnan vinnudagar starfsfólks. Við komum þá til móts við fjölskyldufók með því móti að öll fjölskyldan getur komið í mat, án þess að það kosti starfsfólk
aukalega,“ segir Herdís. Það eru þá ýmist konurnar eða mennirnir sem koma , einir eða með börnin, til að hitta makann sem er fastur í vinnunni.“

Jafnréttismál eru ekki eingöngu ofarlega á baugi hjá stjórnendum RB því nýverið var lögð könnun fyrir starfsfólk, vegna vinnu við s amfélagsstefnu fyrirtækisins, þar sem meðal annars var spurt út í það hvað því þætti mikilvægasta samfélagsmálið. Þar sögðu flestir að jafnréttismál væru mikilvægasta samfélagsmálið. „Af því tilefni fletti ég upp í niðurstöðum kannana sem við leggjum árlega fyrir og varða alls kyns þætti í starfseminni. Starfsfólk var beðið um að meta hvort það nyti jafnra tækifæra á vinnustaðnum óháð kyni og skoraði RB 4,38 á kvarðanum 1 til 5. Það er afskaplega gleðilegt að starfsfólk telji sig njóta jafnréttis á sama tíma og það telur jafnréttismál mikilvægasta samfélagsmálið. Það hlýtur að merkja að við erum á réttri  leið.“

Kynjamunur í raungreinum minnkar

Reiknistofa bankanna ætlar sér ekki eingöngu langt í jafnrétti á vinnustaðnum heldur hefur fyrirtækið háleit markmið til framtíðar við jöfnun kynjanna í tölvu- og tæknistörfum.

RB var stofnaðili að Forriturum framtíðarinnar, samfélagsverkefni sem miðar að því að efla forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins. „Við trúum því að með stuðningi við verkefnið muni konum í tæknigeiranum fjölga til lengri tíma litið. Til þess þarf að byrja að kenna forritun strax í grunnskólum og við erum stolt af því að leggja okkar af mörkum.“

Þrátt fyrir að verkefnið hafi ekki staðið yfir ýkja lengi hafa engu að síður komið fram vísbendingar um góðan árangur. „Við heyrum innan úr skólunum að bæði er orðið auðveldara að kenna forritun en einnig að með því að hefja kennsluna fyrr sjáist merki þess að kynjamunur í raungreinum fari minnkandi. Tíminn mun leiða betur í ljós hver áhrifin verða envið vonum að verkefnið sé að hafa jákvæð áhrif.

Þetta segir Herdís sérstaklega gleðilegt því ör tækniþróun geri það að verkum að sífellt sé mikilvægara að skilja forritun, hvort sem ætlunin sé að vinna við hana eða ekki. „Og við erum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að gera unga fólkinu þetta kleift, óháð kyni.“

RB hefur einnig tekið þátt í Stelpur og Tækni sem skipulagt er af Háskólanum í Reykjavík og er einnig einn af velunnurum FKA. „Þetta snýst um viðhorf og að byggja upp snertifleti þannig að fyrirtæki geti haft jákvæð áhrif í gegnum ólík verkefni. Þannig að við erum ekki bara að hugsa um
jöfnun kynjahlutfalla í tækni innandyra hjá okkur heldur reynum að leggja okkar að mörkum þar sem við getum haft áhrif.“


MYND/EYÞÓR

FKA Fbl.pdf

Fréttir
08.01.2018

Forritarar framtíðarinnar styrkir ellefu skóla um 6,5 milljónir króna í úthlutun ársins 2017

Ákveðin hefur verið úthlutun fyrir árið 2017 úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar, en tilgangur hans er að efla tækni- og forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins.

Sjóðnum bárust 32 umsóknir í þessari úthlutun, flestar frá grunnskólum. Styrkir sjóðsins eru í formi tölvubúnaðar og fjárstyrks til þjálfunar kennara til að búa þá betur undir forritunarkennslu fyrir nemendur, samtals um sex og hálf milljón króna að virði.

Styrkirnir skiptast að þessu sinni á milli ellefu skóla, en þeir eru:

•             Kársnesskóli

•             Höfðaskóli

•             Varmahlíðarskóli

•             Grunnskóli Borgarfjarðar Eystri

•             Víkurskóli

•             Bíldudalsskóli

•             Vatnsendaskóli

•             Álfhólsskóli

•             Kópavogsskóli

•             Grunnskólinn í Hveragerði

•             Grunnskólinn í Þorlákshöfn

Frá stofnun sjóðsins árið 2014 hefur verið úthlutað til skóla landsins styrkjum fyrir hátt í 40 milljónir króna. Á árinu 2017 bættust við öflugir bakhjarlar Forritara framtíðarinnar en þeir eru fyrirtækin Marel og Advania.

„Það blandast engum hugur um mikilvægi tækni- og forritunarþekkingar í samfélagi nútímans. Við hjá sjóðnum erum afar stolt af því að geta stutt við skóla landsins í þessum efnum og þar með eflt þá í að leggja þann grunn sem þarf til að byggja á til framtíðar. Við finnum það að starfið skiptir skólana máli og fyrir auknum áhuga á forritunarkennslu í skólunum. Þjóðir sem best standa hvað tækni varðar búa við ákveðið forskot. Forritun eða innsýn í forritun er nokkuð sem nýtist ungmennum til framtíðar, ekki ósvipað og fólk býr að því að hafa fengið kennslu í erlendum tungumálum, landafræði og öðrum námsgreinum,“ segir Sigfríður Sigurðardóttir, formaður stjórnar Forritara framtíðarinnar.

Ný stjórn kosin

Á aðalfundi Forritara framtíðarinnar sem fram fór 22. desember síðast liðinn var kosin ný stjórn sjóðsins. Í stjórn sitja Arnheiður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Ský og UTmessunnar, Bjarki Snær Bragason deildarstjóri hugbúnaðardeildar hjá Össuri, Elsa Ágústsdóttir markaðsstjóri Reiknistofu bankanna, Friðrik Guðjón Guðnason forstöðumaður hjá Landsbankanum og Sigfríður Sigurðardóttir skrifstofustjóri CCP og formaður stjórnar. Elsa og Friðrik koma ný í stjórn en Guðmundur Tómas Axelsson framkvæmdastjóri WebMo Design og Ragnhildur Geirsdóttir aðstoðarforstjóri Wow air gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu.

Um Forritara framtíðarinnar

Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Hollvinir sjóðsins eru Reiknistofa bankanna, Íslandsbanki, Landsbankinn, CCP, Icelandair, Össur, Cyan, KOM, Marel og Advania.

Fréttir
29.11.2017

Ógnir gagnagrunna í netvæddum viðskiptum nútímasamfélags - Hugvekja gagnagrunnssérfræðings

Tækniumhverfi í nútímasamfélagi hefur tekið miklum breytingum og ef bara er litið til síðustu áratuga þá er breytingin geysileg. Í augum margra, sérstaklega af eldri kynslóðinni, er hún í senn ógnvekjandi og yfirþyrmandi en einnig spennandi. Sem betur fer taka langflestir þessum tækniframförum fagnandi og bókstaflega gleypa tæknina í sig. Dæmi um nýjungar sem í dag þykja orðið sjálfsagðar eru að versla á Internetinu sem og að eiga bankaviðskipti við sinn viðskiptabanka á þeim vettvangi. Þessi viðskipti hafa síðan teygt anga sína í farsímana með tilheyrandi „þægindum“ fyrir alla.

En að baki allra vefverslanakerfa, netbanka og smá-forrita (e. apps), sem tengjast verslun eða banka, er einhver gagnagrunnur. Gagnagrunnur sem heldur utan um öll viðskipti einstaklinga við viðkomandi verslun eða banka. Þessar upplýsingar eru persónugreinanlegar og því afar viðkvæmar og lúta því persónuverndarlögum og bankaleynd þar sem það á við.

Þróun gagnagrunna og forritunarmála undanfarna áratugi

Gagnagrunnar hafa undanfarinn áratug tekið gríðarlegt stökk í þróun, afkastageta þeirra hefur margfaldast sem og viðhald og annað utanumhald orðið betra samhliða auknu flækjustigi. Þetta hefur orðið til þess að margvíslegir möguleikar í forritun með SQL fyrirspurnamálinu hafa litið dagsins ljós. M.a. eru möguleikar á að varpa gögnum úr einu formi í annað, áður en gögnunum er skilað til forrits, mun fjölbreyttari í dag en áður. Það sem er nýjast og heitast í dag er vörpun úr töfluformi (relational) yfir í JSON (Javascript Object Notation) til að geta flutt gögn yfir í snjallsíma með auðveldum og hraðvirkum hætti. En þessar framfarir hafa líka orðið til þess að það, að skrifa SQL fyrirspurn og/eða gagnagrunns-forrit (gagnagrunns-pakka) er mun vandmeðfarnara en áður.

Eins hefur þróun margra forritunarmála eins og Java, JavaScript, PHP, Ruby, ASP.Net, Python, C og C++ (að ógleymdum öðrum forritunarmálum sem ekki verða talin upp hér) einnig orðið gríðarleg fyrir forritun vef-, bakvinnslu- og smá-forrita og mögulegur stuðningur við ótal mismunandi gagnagrunna aukist frá því sem áður var. Samfara þessum framförum, sem nefndar eru hér að framan, og með tilkomu vefverslanakerfa, netbanka, banka- og verslunarforrita fyrir farsíma (e. mobile apps) hafa kröfur um hraðvirkar SQL-fyrirspurnir sem og aðra gagnavinnslu fengið aukið vægi. Framleiðendur gagnagrunna hafa, að sama skapi, verið duglegir að koma fram með nýjungar er styrkja það sem glímt er við enn frekar. Sú þróun hefur oft í för með sér að flóknar beinlínu- og/eða Internet-tengdar (e. online ) SQL-fyrirspurnir sem geta tekið einhverjar sekúndur með eldri SQL-rithætti detta undir sekúndu í keyrslu með nýrri SQL-rithætti og bakvinnslur í gagnagrunnum sem áður tóku mínútur uppí margar klukkustundir geta hæglega dottið niður í fáeinar sekúndur.

Hverjar eru þá helstu ógnir gagnagrunna?

Segja má að ein stærsta ógn gagnagrunna í dag sé sú að forritarar nýti ekki til fulls þær nýjungar, sem framleiðendur gagnagrunna bjóða upp á og/eða hafa komið með undanfarinn áratug, sem myndu bæta afköst kerfanna. Forritarar þurfa að vera vel vakandi fyrir nýjungum í gagnagrunnum til að skapa hugbúnaðarlausnum sínum framgang í ört vaxandi samkeppni um hraðvirkari lausnir á þeim fjölmörgu vandamálum sem glímt er við. Ég hef orðið þess áskynja í mínu fagi sem gagnagrunns- og hugbúnaðarsérfræðingur vegna aðstoðar sem ég veiti í gegnum fagvefi að kollegar hér heima og erlendis fara oft á mis við nýjungar sem í boði eru í þeim gagnagrunnum sem þeir eru að vinna á móti og eru þeir oftast þakklátir fyrir ábendingar. Lausnir þessar hafa skilað því að kerfin vinna allt að 98 prósent hraðar og og af meiri skilvirkni en þær gerðu áður.

Auðvitað skiptir val á vélbúnaði einhverju máli þar sem gagnagrunnar þurfa bæði afl og vinnsluminni. Vélbúnað þarf einnig að endurnýja reglulega og í sumum tilfellum getur það reynst nauðsyn. Val á vélbúnaði ætti þó að taka mið af því um hverskonar vinnuálag (e. workload) og gagnamagn er að ræða. Hitt er annað að rannsóknir hafa sýnt að 80 prósent af afkastavandamálum kerfa, sem nýta sér gagnagrunn, liggur í rangri kóðun á SQL fyrirspurnum miðað við þá útgáfu af gagnagrunni sem unnið er með hverju sinni. Þannig að hvort sem menn velja nýja stórtölvu, stóra, miðlungs eða litla miðlara (e. servers ) þá er hagkvæmt að ráðast á þungar SQL-fyrirspurnir, töflustrúktúr og aðra gagnagrunnshögun og innleiða þær nýjungar sem í boði eru. Ein lausn sem ég lagði til á einum fagvefnum sparaði, eða öllu heldur seinkaði, kaupum erlends fyrirtækis á nýjum miðlara af miðstærð undir gagnagrunn.

Önnur ógn sem er nátengd ógninni sem lýst var hér að framan er öryggi gagnanna. Gríðarlega mikilvægt er að huga vel að því hvernig fyrirspurnir og innsending gagna og gagnabreytinga eru formaðar og prófaðar (e. validation) og sendar inní gagnagrunnana sem og hvernig gögnunum er skilað til baka til vefsins eða forritsins. Eitt þekktasta dæmið um árás á gagnagrunna er SQL-innspýting (e. SQL-injection) þar sem hakkari bætir inní SQL-fyrirspurn og eða innsláttar-textasvæði, sínum SQL-skipunum og nær þannig að komast inní gagnagrunninn. Það er alltof algengt að forritarar átti sig ekki á að nýta þá einföldu tækni sem kemur í veg fyrir slíkar árásir. SQL innspýting er í dag (árið 2017 ) í fyrsta sæti skv. TOP 10 lista OWASP (www.owasp.org ) yfir ógnir sem steðja að tölvukerfum og gagnagrunnum.


Myndatexti: SQL innspýting

Og því miður hafa margir stærstu gagnalekar (e. data breaches) útí heimi undanfarin ár, þar sem persónugreinanlegar upplýsingar og kreditkorta-upplýsingar hafa komist í hendur glæpagengja, einmitt notast við SQL-innspýtingu. Hjúpun SQL-fyrirspurna og innsendinga gagna í kóða, sem og notkun á gagnagrunns-stefjum (e. stored procedures) ásamt góðri og ítarlegri prófun (validation) gagna fyrir innsendingu, skiptir sköpum í þeirri baráttu en það vill brenna oft við að hugbúnaðarlausnir skorti slíka nálgun í hönnun. Það er sérstaklega áberandi í vefkerfum þar sem SQL kóði er berskjaldaður fyrir hökkurum og sýnilegur í vafra með því einu að opna sýn á kóða síðunnar.

Lokaorð

Með þróun forritunarmála og gagnagrunna skapast gríðarleg fjölbreytni í hugbúnaðarlausnum fyrir vefi, bakvinnslukerfi sem og smá-forrita. Þessari fjölbreytni ber að fagna en að sama skapi þarf að vega og meta hverju sinni með ítarlegum prófunum hvort þessi eða hin lausnin henti þeim vandamálum sem glímt er við, m.t.t. öryggis gagna og afkastagetu og eins samanburði við gömlu lausnina.

Hugbúnaðarþróun er langhlaup og eins og í langhlaupi þá krefst hugbúnaðarþróun agaðrar, vel skipulagðrar og markvissrar þjálfunar. Þjálfun og endurmenntun í hugbúnaðargerð og gagnagrunns-forritun/hönnun, í ört vaxandi tækniframförum samtímans krefst mikillar athygli hugbúnaðar-sérfræðings á þeim framförum sem verða til þess að hann/hún geti skapað sínum lausnum framgang í ört vaxandi samkeppni um betri, öruggari og hraðvirkari lausnir.

Greinin birtist fyrst í Tölvumálum, tímariti Skýrslutæknifélags Íslands, í nóvember 2017

Fréttir
21.11.2017

Aukið öryggi í greiðslumiðlun

Fyrirtæki sem bjóða upp á lausnir sem gera neytendum kleift að greiða fyrir vöru og þjónustu með símanum sínum hafa verið að spretta upp um allan heim. Með þessum lausnum gefst tækifæri til þess að nýta nýjar leiðir til að greiða fyrir vöru og þjónustu. Hingað til hafa seljendur innkallað eða sótt greiðslur að fullu úr viðkomandi kortakerfi (e. pull payments). Nýjar farsímagreiðslulausnir snúast hins vegar um að koma fjármunum beint til viðtakanda/seljanda (e. push payments).

Netverslun sem býður upp á greiðslur með debet- eða kreditkorti eru gott dæmi um greiðslur þar sem seljandi sækir fjármuni í tiltekið greiðslukerfi.

 1. Greiðandi afhendir seljanda allar upplýsingar sem seljandi þarf til þess að sækja þá fjármuni sem greiðandi á að greiða fyrir tiltekna vöru eða þjónustu.
 2. Seljandi kallar eftir fjármunum t.d. með því að framkvæma kortafærslu.
 3. Seljandi fær síðan fjármuni frá færsluhirði.

Ógreiddir reikningar í netbönkum er hins vegar ágætt dæmi um greiðslur þar sem greiðandi ýtir fjármunum til móttakanda.

 1. Seljandi sendir greiðanda upplýsingar um sig.
 2. Greiðandi sendir greiðslubeiðni á sína fjármálastofnun.
 3. Fjármálastofnun færir fjármuni frá greiðanda til seljanda.

Nýjar farsímagreiðslulausnir nýta sumar hverjar sambærilegar aðferðir við framkvæmd greiðslna.Þó svo að neytendur upplifi það ekki þegar þeir versla á netinu eða nota greiðslukort í verslunum þá eru þeir í raun að treysta móttakandanum fyrir lyklinum að bankahólfinu sínu. Þótt það sé ólíklegt að móttakandinn muni misnota upplýsingarnar þá eru mun meiri líkur á því að einhver þriðji aðili komist yfir kortaupplýsingarnar meðal annars með innbroti í kerfi þeirra sem greiðendur hafa treyst kortaupplýsingunum sínum fyrir.

Evrópusambandið bregst við misnotkun kortaupplýsinga með PSD2

Árið 2015 jókst misnotkun á kortum í Bretlandi um 18% sem er langt umfram aukningu á kortaveltu[1]. Misnotkun á kortaupplýsingum er stórt vandamál í heiminum og verja fjármálafyrirtæki gríðarlegum fjármunum í varnir gegn þessari misnotkun. Með nýrri tilskipun um greiðsluþjónustu, PSD2, er Evrópusambandið að bregðast við þessari misnotkun og herða öryggisreglur í greiðslumiðlun.

Áhættan á misnotkun er töluvert minni þegar greiðandi sendir fjármuni beint til móttakanda. Í þannig ferli fara einungis fjármunir til móttakanda en ekki upplýsingar sem hægt er að misnota. Hollenska netgreiðslugáttin iDEAL hefur nýtt sér greiðslur þar sem greiðandi sendir fjármuni beint til móttakanda með frábærum árangri undanfarin ár. Samkvæmt tölum frá Dutch Payments Association þá hefur verslun á netinu aukist jafnt og þétt í Hollandi á meðan svikamálum fer fækkandi. Frá árinu 2012 hafa greiðslusvik lækkað um um rúmlega 70 milljónir evra[2].

Nýjar farsímagreiðslulausnir sem eru í boði víðs vegar um heim eru nánast allar að ýta eða senda fjármuni beint til viðtakanda eða móttakanda. Í hinni nýju tilskipun ESB um greiðsluþjónustu, PSD2, er lagaramminn fyrir þannig greiðslum (push payments) skýrður en þar er t.d. gert ráð fyrir nýju þjónustuhlutverki, svo kölluðum greiðsluvirkjendum, sem geta miðlað greiðslum beint frá kaupanda til verslunar. Öryggi í greiðslum ætti því að aukast töluvert þegar við hættum að afhenda lykilinn að bankahólfinu okkar mistraustum aðilum á netinu. Þannig verður svo hægt að draga úr þeim kostnaði sem hlýst af kortasvikum.

________________________________________
[1] https://www.financialfraudaction.org.uk/fraudfacts16/assets/fraud_the_facts.pdf
http://www.theukcardsassociation.org.uk/2015-facts-figures/credit_and_charge_card_figures_2015.asp
[2] https://www.betaalvereniging.nl/en/nieuws/payments-the-netherlands-fast-safe-simple-and-efficient

Fréttir
08.11.2017

RB innleiðir ný greiðslu- og innlánakerfi fyrir Landsbankann

Helgina 18.-19. nóvember mun RB innleiða nýtt greiðslu- og innlánakerfi, frá Sopra Banking Software, fyrir Landsbankann. Leitast hefur verið við að takmarka eins og kostur er truflun á þjónustu til viðskiptavina á gangsetningarhelginni en ekki verður hjá því komist að öllu leyti. Nánari útlistun á þeirri þjónustuskerðingu sem verður þessa helgi má sjá í fréttatilkynningu frá Landsbankanum hér að neðan. 

______________________________________

Fréttatilkynning frá Landsbankanum:

Skerðing á þjónustu í netbönkum og útibúum 18.-20. nóvember

Vegna innleiðingar á nýju tölvukerfi 20. nóvember nk. þarf að skerða þjónustu í netbönkum Landsbankans helgina 18.-19. nóvember. Þjónusta í netbönkum og útibúum verður einnig skert fram eftir degi mánudaginn 20. nóvember.

Þessa daga verður hægt að millifæra í netbankanum en upphæðir sem færðar eru á milli bankareikninga verða ekki sýnilegar á reikningsyfirlitum og ráðstöfun þeirra verður takmörkuð. Áfram verður hægt að greiða með debet- og kreditkortum en þó getur orðið tímabundin truflun á notkun debetkorta sunnudaginn 19. nóvember.

Þurfi viðskiptavinir að ljúka mikilvægum bankaerindum fyrir mánudaginn 20. nóvember er mælt með að þeir sinni þeim fyrir helgina 18.-19. nóvember til að forðast óþægindi.

Nánar er fjallað um skerðingu á þjónustu hér fyrir neðan.

Mikilvæg endurnýjun á gömlum kerfum

Endurnýjun á innlána- og greiðslukerfum Reiknistofu bankanna (RB) og Landsbankans er eitt stærsta hugbúnaðarverkefni sem RB og bankinn hafa ráðist í. Nýja kerfið leysir af hólmi mörg eldri tölvukerfi en hið elsta þeirra er um 40 ára gamalt. Í stað eldri kerfa verður tekið í notkun nýtt kerfi frá hugbúnaðarfyrirtækinu Sopra Banking Software. Nýja kerfið einfaldar og uppfærir tækniumhverfi bankans og er ódýrara í rekstri og sveigjanlegra en eldri kerfi. Með Sopra-kerfinu aukast einnig möguleikar á samnýtingu hugbúnaðarlausna í fjármálakerfinu.

Vegna innleiðingarinnar þarf bankinn að skerða þjónustu í netbanka einstaklinga, netbanka fyrirtækja og útibúum helgina 18.-19. nóvember og mánudaginn 20. nóvember. Landsbankinn biðst velvirðingar á óþægindum sem þjónustuskerðingin veldur en hún er nauðsynleg til að innleiðing nýja tölvukerfisins gangi sem best fyrir sig.

Nánar um þjónustu í netbankanum 18.-20. nóvember

 • Hægt verður að millifæra á milli reikninga í netbanka Landsbankans og úr netbönkum annarra banka/sparisjóða en reikningsyfirlit í netbankanum uppfærast ekki. Þar sem reikningsyfirlit uppfærast ekki verður hvorki hægt að millifæra upphæðir sem eru lagðar inn þessa helgi yfir á aðra reikninga né taka þær út í hraðbönkum. Viðskiptavinir geta á hinn bóginn nýtt upphæðir sem millifærðar eru á reikninga þeirra með því að greiða með debetkortum.
 • Hægt verður að greiða inn á kreditkort en innborgun kemur ekki til hækkunar á ráðstöfun fyrr en 20. nóvember.
 • Ekki verður hægt að stofna, breyta eða eyða reikningum í netbanka.
 • Upplýsingar um ógreidda reikninga uppfærast ekki, þ.e. ef reikningur er greiddur birtast ekki upplýsingar í netbankanum um að hann hafi verið greiddur fyrr en síðdegis mánudaginn 20. nóvember. Engu að síður verður hægt að greiða reikninga.
 • Ekki verður hægt að stofna, breyta eða fella niður yfirdráttarheimildir.
 • Ekki verður hægt að stofna, breyta eða eyða beingreiðslusamningum.
 • Ekki verður hægt að panta úttekt á Vaxtareikningi 30.
 • Nettunarþjónusta í netbanka fyrirtækja verður ekki virk.
 • Þjónusta í útibúum og Þjónustuveri bankans verður skert með sama hætti fram eftir degi mánudaginn 20. nóvember.

Tímabundnar truflanir eða þjónustuskerðing sunnudaginn 19. nóvember

 • Tímabundnar truflanir geta orðið á notkun debetkorta.
 • Ekki verður truflun á notkun kreditkorta, Aukakrónukorta, inneignarkorta fyrirtækja, bensínkorta eða gjafakorta.
 • Truflanir gætu orðið á virkni hraðbanka.
 • Lokað verður fyrir farsímabankann, netbanka einstaklinga, netbanka fyrirtækja og B2B-þjónustu fyrirtækja í 2-4 klst.

Þjónustuver opið helgina 18.-19. nóvember

Aðstoð og nánari upplýsingar er hægt að fá með því að hringja í Þjónustuver Landsbankans, s. 410 4000, eða senda tölvupóst í netfangið info@landsbankinn.is.

Þjónustuverið verður opið frá kl. 11.00-18.00 helgina 18.-19. nóvember og frá kl. 9.00-21.00 mánudaginn 20. nóvember og þriðjudaginn 21. nóvember

Fréttir
20.10.2017

Þjóðarhagsmunir og greiðslumiðlun

Dagsdaglega göngum við út frá því sem gefnu að geta nýtt greiðslukortin okkar til að greiða fyrir vöru og þjónustu. Einstaka sinnum koma upp tæknilegir hnökrar sem valda því að ekki sé hægt að nota kortin til að greiða og rata slík tilvik nær alltaf í fjölmiðla, jafnvel þótt atvikið vari í bara nokkrar mínútur og hafi eingöngu áhrif á hluta kortahafa.

Ein af þeim spurningum sem yfirvöld standa fram fyrir, er hvernig hægt sé að tryggja greiðslumiðlun þegar vá steðjar að, í samfélögum þar sem reiðufé hefur verið nærri útrýmt. Ef til viðskiptadeilna kæmi milli tveggja ríkja væri t.d. hægt að loka á virkni greiðslukorta í tilteknu landi ef yfirvöld í Bandaríkjunum settu þrýsting á bandarísku kortasamsteypurnar? Sagan segir okkur að svarið við því er já. Bandarísk stjórnvöld lögðu árið 2014 viðskiptaþvinganir á rússnesk stjórnvöld og fyrirtæki vegna stríðsins í Úkraínu. Einn þáttur í þeim viðskiptaþvingunum var að loka á viðskipti kortasamsteypanna Visa og MasterCard við Bank Rossiya og Sobinbank(1).

En það þarf ekki endilega stjórnvaldaðgerðir til þess smágreiðslumiðlun í landi sé ógnað. Við hrun íslensku bankanna í október 2008 kom til álita hjá erlendu kortasamsteypunum að loka greiðslukortum á Íslandi vegna ótta um að útgefendur kortanna, þ.e. gömlu bankarnir, gætu ekki gert upp við færsluhirða sem þurftu að standa skil á greiðslum til kaupmanna. Sú hótun náði í reynd aðeins til kreditkortanna því debetkortakerfið, sem búið var til hjá RB, var að fullu undir innlendri stjórn þannig að erlendu kortasamsteypurnar gátu ekki gripið til lokunaraðgerða hvað þau varðar hér á landi. Debetkortakerfið frá RB er í raun innlent kortakerfi þó það sé framleitt fyrir erlendu kortasamsteypurnar. Því var hægt að tryggja að debetkortin myndu virka áfram á Íslandi þótt að á tímabili hafi litið út fyrir að lokað yrði á notkun þeirra erlendis.

Seðlabankanum tókst þessa sömu helgi að koma í veg fyrir bæði lokun kreditkorta og tryggja fulla virkni debetkortanna erlendis. Þetta og það að almenningi var tryggður aðgangur að innstæðum sínum gerði það að verkum að innlend greiðslumiðlun hélst virk þrátt fyrir önnur óþægindi og þann fjárhagslega skaða sem af hruninu leiddi. Almenningur gat farið út í búð og keypt vörur og þjónustu. Hefði þessi starfsemi ekki verið til staðar, þá hefðum við mögulega verið að tala um annars konar byltingu en búsáhaldabyltingu.

Öryggi greiðslumiðlunar með tilkomu nýrra greiðslumiðla

Með tilkomu nýrra greiðslumiðla er vert að spyrja sig hvort við verðum eitthvað betur sett hvað varðar öryggi íslenskrar greiðslumiðlunar? Eins og oft er þegar breytingar eiga sér stað að þá er svarið já og nei. Fjölgun greiðslumiðla, t.d. möguleikinn á að nota farsímagreiðslur sem byggja á innlánareikningum banka í stað kreditkorta, eykur rekstrarlegt öryggi í greiðslumiðlun landsins. Þótt að ein greiðslurás rofni að þá er líklegt að hin sé opin og aðgengileg neytendum, enda byggja greiðslurásirnar tvær á aðskildum tæknilegum innviðum.

En ef við horfum til kerfislegu áhættuþáttanna tveggja, sem nefndir voru hér að ofan, að þá yrðu þeir enn til staðar með tilkomu farsímagreiðsluappa. Þeir flytjast í raun einfaldlega frá kortasamsteypunum, þ.e. VISA og MasterCard, til tæknirisanna Google og Apple sem hvor um sig reka gríðarlega mikilvæg markaðstorg fyrir alls konar öpp. Fyrirtækin geta að eigin frumkvæði eða í samræmi við stjórnvaldsaðgerðir stöðvað virkni farsímagreiðsluappa með að minnsta kosti tvennum hætti. Í fyrsta lagi geta félögin fjarlægt öpp greiðsluþjónustuveitanda úr Apple Appstore eða Google Play, og þannig komið í veg fyrir að nýir notendur geti náð í öppin. Í öðru lagi geta þau komið í veg fyrir að öpp virki á farsímum með uppfærslum á stýrikerfum farsímanna. Notandi farsímans þarf hins vegar að samþykkja uppfærsluna áður en hún er framkvæmd. Það að samþykki notandans þurfi til að uppfæra stýrikerfið dregur verulega úr skammtíma áhrifum kerfislegrar áhættu sem gæti skapast vegna deilna við utanaðkomandi stjórnvöld eða við tæknirisana. Svo lengi sem stýrikerfi símans er ekki uppfært eða sjálft greiðsluappið er ekki fjarlægt úr símanum getur neytandinn nýtt símann til að greiða fyrir vöru og þjónustu á Íslandi.(2)

Íslenskt farsímagreiðsluskema eykur öryggi í greiðslumiðlun

Eins og ég hef fjallað um í öðrum pistlum (sjá www.rb.is) munu ný greiðsluþjónustulög, PSD2, opna aðgengi nýrra aðila að innlánareikningum bankanna. Lögin gera ráð fyrir að svo kallaðir greiðsluvirkjendur, megi með samþykki neytenda framkvæma greiðslur beint af innlánareikningi neytandans. Samkvæmt lögunum ber bönkum að veita greiðsluvirkjendum aðgengi að innlánareikningum viðskiptavina bankanna í gegnum opin stöðluð þjónustuskil (e. Open API) án þess að sérstakur samningur sé til staðar á milli bankans og greiðsluvirkjandans og án þess að bankinn geti rukkað greiðsluvirkjandann sérstaklega fyrir þjónustuna. Einnig gerir PSD2 ráð fyrir að til verði samevrópskur markaður í greiðslum. Ef fjármálaeftirlit eins EES ríkis hefur veitt fyrirtæki réttindi sem greiðsluvirkjandi, veitir sú heimild fyrirtækinu rétt til að veita þjónustu hvar sem er innan EES.

Í ljósi þessara breytinga áforma fjölmörg fyrirtæki í heiminum að þróa farsímagreiðsluöpp sem nota þetta beina aðgengi að innlánareikningum neytenda. Fremst á meðal þeirra eru tækni- og netrisar á borð við Amazon Pay, AliPay, PayPal, GooglePay og ApplePay. Ef nýju farsímagreiðslulausnirnar, sem PSD2 opnar dyrnar fyrir, verða í vaxandi mæli erlendar þá skapar það aftur möguleikann á kerfislegri áhættu sem er sambærileg þeirri sem er til staðar við notkun greiðslukorta sem tengjast erlendu kortasamsteypunum. Þannig getur greiðsluapp eingöngu virkað ef til staðar er miðlægur hugbúnaður (þ.e. bakendakerfi) sem tryggir samskipti appsins við POSa, netverslanir, o.fl. Ef lokað er á virkni tiltekinna appa í bakendakerfinu er ekki hægt að greiða með þeim farsímum sem appið er í. Þessi staðreynd opnar aftur á möguleikann fyrir erlend stjórnvöld að beita tækni- og netrisunum fyrir sér við framkvæmd viðskiptaþvinganna.

Þótt að þetta sé allt saman fjarlægur möguleiki í dag að þá hefur þetta verið einn af þeim þáttum, sem hefur legið til grundvallar við þróun sameiginlegra farsímagreiðsluskema bankanna í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Í hverju landi fyrir sig er til eitt sameiginlegt farsímagreiðsluapp, sem byggir á innlánareikningum bankanna í viðkomandi landi. Byggð hafa verið upp sterk vörumerki og fyrirtæki í kringum öppin, sem neytendur og fyrirtæki í viðkomandi landi þekkja og treysta. Einnig hafa verið þróuð skýr greiðsluskema og öflug bakendakerfi sem halda utan um réttindi og skyldur neytenda, bankanna, verslana og tækniþjónustuveitanda í greiðsluferlinu. Loks hefur verið leitast við að tryggja að allar fjármálastofnanir í viðkomandi landi geti opnað á þennan greiðslumáta fyrir sína viðskiptavini óháð því hvort að þeir eru eigendur að fyrirtækinu sem stendur að baki appinu eða ekki.

1) https://www.theatlantic.com/international/archive/2014/04/visa-and-mastercard-russia/361361/2) Ýmsar kenningar hafa sést um það á netinu að Apple og Google geti nýtt sér „bakdyr“ inn í farsíma neytenda í gegnum stýrikerfi símanna til að  safna upplýsingum og jafnvel framkvæma breytingar í símanum. Þótt að slíkar bakdyr hafi verið nýttar til að safna upplýsingum um virkni símanna að þá hafa félögin hafnað því að verið sé að safna persónugreinalegum upplýsingum.  Þau hafa einnig mótmælt því að fullri hörku að þau myndu nokkurn tíman breyta innihaldi eða virkni símana án samþykki notandans.  Slík aðgerð myndi stórskaða traust almennings á vörum fyrirtækisins og hafa afar alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu fyrirtækjanna.

Fréttir
06.10.2017

Aukin samvinna fjármálafyrirtækja

Með tilkomu nýrra laga um greiðsluþjónustu (PSD2) standa hefðbundnir bankar frammi fyrir því að tekjur þeirra af greiðsluþjónustu geti minnkað á sama tíma og þeir eiga það í hættu að fjarlægast viðskiptavini sína með tilkomu nýrra þátttakenda á markaði. Þessir nýju þátttakendur munu geta stillt sér upp sem milliliður á milli banka og hinna endanlegu notenda bankaþjónustunnar. Ef bankar bregðast ekki við gætu þeir smám saman breyst í „geymsluhólf“ fyrir fjármuni sem skapa lítinn virðisauka fyrir viðskiptavini.

Yfir 88% af stjórnendum evrópskra banka telja að PSD2 muni hafa áhrif á rekstur þeirra. Því hafa fölmargir evrópskir bankar ýtt úr vör ýmsum nýsköpunarverkefnum til að undirbúa sig undir PSD2. Um er að ræða nýsköpun sem snertir flest svið bankastarfseminnar, t.d.:

• Aukin samvinna banka á markaði.
• Endurnýjun tæknilegra innviða.
• Þróun nýrra afurða, þjónustu og þjónustuferla.
• Þróa net samstarfsaðila til að skapa aukinn virðisauka fyrir viðskiptavini bankanna.
• Grundvallarbreytingar á hinum hefðbundnu viðskiptamódelum banka.

Í þessum pistli verður eingöngu fjallað um aukna samvinnu banka en í Norður Evrópu hafa á undanförnum árum sprottið fram fjölmörg samstarfsverkefni banka sem hafa það markmið að gera neytendum mögulegt að nýta farsíma til að senda fjármuni sín á milli og til að greiða fyrir vöru og þjónustu í verslunum. Flestar þessara lausna hafa það sameiginlegt að bankar hafa með einum eða öðrum hætti stofnað til samstarfs til að setja upp nýjar greiðslurásir fyrir farsíma sem nýta innlánareikninga neytenda í stað greiðslukorta. Samstarfið hefur einnig náð til þróunar á farsímaforritum, vörumerkjum og reglum sem gilda um réttindi og skyldur banka, neytenda og verslana í greiðsluferlinu sem nýta þessar greiðslurásir.

Swish í Svíþjóð

Í desember 2012 var farsímagreiðslufyrirtækið Swish stofnað af SEB, Danske Bank, Handelsbanken, Länsförsäkringar Bank, Nordea, Swedbank og Sparbankerna. Swish var til að byja með eingöngu notað fyrir greiðslur á milli einstaklinga en í dag nota ríflega 5 milljónir Svía appið til að greiða einnig fyrir vöru og þjónustu í verslunum og netverslunum. Til að virkja þessa greiðsluleið þurfa neytendur eingöngu að nota BankID (sænska útgáfan af Auðkenni) til að skrá sig inn í appið og að velja þann bankareikning sem á að vera tengdur appinu og farsímanúmerinu. Neytendur geta síðan millifært með símanúmerinu einu saman eða greitt í verslunum. Neytendur greiða ekkert fyrir notkun lausnarinnar en verslanir greiða um 1,5-2 SEK (ca 24-30kr) fyrir hverja færslu.

MobilePay í Danmörku

Árið 2012 hófu danskir bankar samstarf um þróun á sameiginlegri farsímagreiðslulausn sem byggði á innlánareikningum. Í árslok sama ár hætti Danske Bank þátttöku í samstarfinu og kynnti, í maí 2013, eigin farsímagreiðslulausn, MobilePay, sem nýtir greiðslurásir kortaskema til að miðla greiðslum. Ákvörðun Danske Bank að byggja sína eigin lausn á kortakerfinu og að markaðssetja hana undir merkjum MobilePay reyndist farsæl enda tókst þeim þannig að vera fyrstir á markað. MobilePay náð hratt mikilli útbreiðslu jafnt hjá viðskiptavinum Danske Bank sem og hjá viðskiptavinum annarra banka þar sem hægt var að tengja appið við greiðslukort frá hvaða banka sem var í Danmörku. Í dag er MobilePay með 3,6 milljónir notenda.

Þrátt fyrir útgáfuna á MobilePay þá héldu hinir dönsku bankarnir sínu striki og kynntu sína útgáfu af greiðslulausn í júní 2013. Um var að ræða tæknilega greiðslurás sem hver og einn banki gat tengt við sitt app. Þessi greiðslulausn náði aldrei flugi enda ruglaði það neytendur í ríminu að hún skyldi markaðssett undir mismunandi merkjum yfir 70 banka. Einnig gekk hægt og erfiðlega að samþætta lausnina inn í öpp bankanna.

Í ljósi þessa afleita árangurs stofnuðu samkeppnisaðilar Danske Bank, Swipp í ágúst 2014, sjálfstætt vörumerki og app sem neytendur gátu sótt í AppStore og Google Play. Swipp appið varð loks aðgengilegt í ágúst 2015, en þá var á brattann að sækja í samkeppninni við MobilePay sem var komið með yfirburðar stöðu á markaðnum með hátt í þriðja milljón notenda. Swipp gekk hins vegar ágætlega í markaðssókn sinni. Í október 2016 var Swipp komið með 1 milljón notenda og um 28 þúsund verslanir tóku við Swipp greiðslum sem voru álíka margar verslanir og MobilePay hafði náð í viðskipti á þremur árum.

Það sem keyrði vinsældir Swipp áfram var að lausnin var mun hagkvæmari greiðslumáti fyrir verslanir en MobilePay. Einnig tryggði Swipp verslunum rauntímaaðgengi að fjármunum og hægt var að greiða með farsímanum á hefðbundnum POSa. MobilePay kallaði hins vegar á að settur væri upp viðbótarbúnaður í verslunum svo kassarnir gætu tekið á móti greiðslum og það sem meira var þá byggði MobilePay á kortakerfinu þannig að verslunareigendur fengu ekki strax aðgengi að greiðslunum.

Í október 2016 ákváðu Danske Bank og Nordea að slíðra sverðin með samningi sem fól í sér að MobilePay yrði sett í sér fyrirtæki og að Nordea myndi flytja sína notendur frá Swipp til MobilePay. Í framhaldinu var samstarfinu um Swipp sjálfhætt, enda eru þessir tveir bankar með um 70% markaðshlutdeild á viðskiptabankamarkaði í Danmörku og hafa nú allir bankar í Danmörku flutt sig til MobilePay.

Ástæða þess að bankarnir í Danmörku ákváðu að sameinast um eina lausn var að þeir stóðu frammi fyrir því að geta barist sín á milli um danska neytendur næstu tvö árin eða að hefja samvinnu til að undirbúa sig undir aukna samkeppni við tæknirisana Apple, Google, Amazon, í kjölfar innleiðingu á PDS2 löggjöfinni. MobilePay varð einfaldlega fyrir valinu þar sem það var mun sterkara vörumerki en Swipp. Hins vegar þurfti MobilePay að skuldabinda sig samhliða breytingunni til þess að flytja MobilePay appið af greiðslurásum kortaskemanna yfir á nýjar og hagkvæmari greiðslurásir sem myndu byggja á innlánareikningum bankanna, þ.e.a.s. lausn sem væri í raun sambærileg Swipp lausninni.

Vipps í Noregi

Í framhaldi af samkomulagi danskra banka um að nota MobilePay, hófu norskir bankar að ræða saman um möguleikann á því að sameinast um eina farsímagreiðslulausn sem myndi byggja á innlánakerfum bankanna. Í febrúar 2017 var tilkynnt að þeir hyggðust sameinast um að nota lausn DnB bankans, Vipps, og að hún yrði sett í sér fyrirtæki og að bankarnir yrðu allir eignaraðilar að fyrirtækinu. Vipps var ein af mörgum norskum lausnum sem var í notkun fyrir þessa ákvörðun, en Vipps hafði náð mestri útbreiðslu af þeim lausnum sem voru í boði. Í samtali við norska blaðamenn sagði Rune Bjerke forstjóri DnB að megin ástæða fyrir samkomulaginu væru fyrirsjáanlegar breytingarnar sem PSD2 myndi hafa á greiðslumarkaðnum á næstu árum. Til að mæta alþjóðlegri samkeppni þyrftu norskir bankar að vinna saman að því að búa til innviði fyrir farsímagreiðslur sem neytendur treystu.

Samvinna banka yfir landamæri

Samvinna banka vegna breytinga sem munu fylgja PSD2 er ekki takmörkuð við Norðurlöndin. Þannig hafa hollenskir og belgískir bankar sameinað krafta sína og eru þessa dagana að þróa lausn, Payconiq, sem verður hægt að nota jöfnum höndum í báðum löndunum. Þetta er fyrsta dæmið um farsímagreiðslulausn, sem mér er kunnugt um, sem verður hægt að nota til að greiða í fleiri en einu landi.

Líklegt verður að telja að þróunin verði sambærileg í öðrum ríkjum innan EES og að smám saman verði til alþjóðleg farsímagreiðslulausn sem tryggir að hægt verði að senda peninga á milli einstaklinga og hægt verði að greiða með símanum fyrir vöru og þjónustu á POSa. Lykillinn að því er einhvers konar evrópskur samskráningargrunnur þar sem farsímanúmer er tengt við innlánareikning neytanda, sem tryggir að neytandi geti tekið á móti greiðslum frá þriðja aðila eða borgað fyrir vöru og þjónustu nærri því hvar sem er innan EES.

Íslenskur samkeppnisréttur sækir um margt fyrirmynd til samkeppnisreglna Evrópusambandsins. Meðal þess sem þó greinir á milli er að í samkeppnisrétti annarra landa er víða ekki að finna ákvæði um að samkeppnisaðilar, t.d. á Norðurlöndunum, þurfi ekki sækja um samþykki samkeppnisyfirvalda fyrir samstarfi á markaði, heldur er það sett á þeirra herðar að tryggja að samstarfið uppfylli skilyrði slíks samstarfs. Þannig er það t.a.m. á ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra að tryggja að ávinningur neytanda sé verulegur af slíku samstarfi og að samstarfið skaði ekki samkeppni. Íslensk samkeppnislög gera hins vegar ráð fyrir því að sótt sé fyrirfram um undanþágu fyrir samstarfi frá ákvæðum samkeppnislaga um samvinnu fyrirtækja og samtaka fyrirtækja. Slíkt ferli getur verið tímafrekt sem leiðir til þess að hugmyndir sem gætu skapað ávinning fyrir íslensk fyrirtæki og neytendur komast aldrei í umræðu, hvað þá þróun, og verða því aldrei að veruleika.

Blogg
26.09.2017

Aparnir og fjármálakerfi morgundagsins!

Ör framþróun í tækni og markvissar aðgerðir stjórnvalda víðsvegar í Evrópu til að opna fjármálamarkaði munu leiða til mikillar grósku og nýsköpunar í fjármálaþjónustu á komandi árum. Þessar breytingar munu gerbylta hvernig viðskiptavinir nota fjármálaþjónustu, hvernig hún er veitt og hvaða aðilar koma til með að geta veitt slíka þjónustu.

Fréttir
19.09.2017

Kapphlaupið um gögnin

Í athyglisverðri grein sem birtist nýverið í tímaritinu Economist var því haldið fram að gögn séu orðin verðmætustu auðlindir hagkerfisins í dag og séu í raun olía tuttugustu og fyrstu aldar. 

Fréttir
14.09.2017

Aukin neytendavernd með nýjum persónuverndarlögum

Ný persónuverndarlög, GDPR (General Data Protection Regulagion) taka gildi 25. maí 2018. Stefnt er að því að lögin taki gildi á sama tíma á Íslandi.

Fréttir
12.09.2017

Nýir þátttakendur á fjármálamarkaði

Á næsta ári taka gildi innan ESB ný lög um greiðsluþjónustu (e. PSD2) sem munu koma til með að hafa byltingarkennd áhrif á markaðinn. Fyrirhugað er að innleiða tilskipunina í íslensk lög á komandi ári. Með nýju lögunum, PSD2, er verið að aðgreina á milli framleiðslu og dreifingu fjármálaþjónustu.

Blogg
06.09.2017

Fjármálamarkaðurinn fyrir og eftir ný lög um greiðsluþjónustu

Ný samevrópsk löggjöf um greiðsluþjónustu, PSD2, mun hafa mikil áhrif á fjármálafyrirtæki, verslanir og neytendur. Fjallað var um löggjöfina í öðrum pistli (sjá hér) en markmiðið með þessum pistli er að skoða hin praktísku áhrif sem löggjöfin mun hafa á markaðinn með tveimur dæmum.

Blogg
29.08.2017

Ísland - ekki lengur eyland á fjármálamarkaði

Á næstu fimm árum mun fjármálaþjónusta á Íslandi, og þá sérstaklega starfsemi viðskiptabanka, taka stakkaskiptum með tilkomu nýrra fjártæknilausna, nýrra viðskiptamódela í fjármálaþjónustu og nýrra samevrópskra laga um fjármálaþjónustu.  Þessar breytingar munu leiða til þess að þátttakendum á íslenskum fjármálamarkaði mun fjölga.

Fréttir
12.06.2017

RB Classic fór fram um helgina

RB Classic hjólreiðakeppnin fór fram um helgina í blíðskaparveðri. Yfir 250 manns tóku þátt í mótinu sem einkenndist af krafti og gleði.  Myndir segja meira en 1000. Kíkið líka á facebook síðu RB Classic.

Takk fyrir okkur!

Fréttir
08.06.2017

RB Classic 2017

RB í samstarfi við hjólreiðafélagið Tind, Cintamani og hjólreiðaverslunina Kríu stendur fyrir götuhjólakeppni umhverfis Þingvallavatn laugardaginn 10. júní, 2017. Metskráning er í ár með 215 hjólreiðafólki sem hefur skráð sig til leiks og verður skemmtilegt að fylgjast með keppninni á laugardaginn og sjá okkar fremsta fólk í hjólreiðum spreyta sig á þessari áhugaverðu leið en 10 km af leiðinni er á möl. 

Fréttir
23.05.2017

Upptökur af fyrirlestrum frá Vorráðstefnu RB

Miðvikudaginn 10. maí fór fram Vorráðstefna RB undir heitinu "The Digitalization of the Financial Sector". Ráðstefnan var mjög vel sótt og margt mjög áhugavert kom fram um  hvernig viðskiptamódel banka hafa verið að þróast og munu þróast á næstunni.

Stemningin

Hér má sjá fyrlestrana sem fluttir voru á ráðstefnunni.

Fyrirlestrar

Blogg
26.04.2017

Stjórnun upplýsinga í alvarlegum atvikum

Eitt það mikilvægasta í stóratvikastjórnun er að sjá til þess að allir sem þurfa séu upplýstir frá upphafi til enda. Þetta er einnig sá hluti sem er hvað viðkvæmastur og erfiðastur að útfæra fyrir alla þá sem að ferlinu koma. Major incident manager RB (hér eftir MIM) léttir þessari upplýsingaskyldu að miklu leyti af þeim sem vinna að lausn og hlífir þeim við stöðugu áreiti frá viðskiptavinum og yfirstjórn. Á sama tíma þarf MIM alltaf að vera upplýstur um stöðuna til að geta veitt upplýsingum áfram viðeigandi aðila.

Fréttir
12.04.2017

RB skrifar undir samstarfsyfirlýsingu við Virk

RB skrifaði nýlega undir samstarfsyfirlýsingu við Virk, vegna þróunarverkefnis um innleiðingu á verkferlum tengdum endurkomu til vinnu eftir veikindi eða slys. Hlutverk Virk er að efla starfsgetu einstaklinga í kjölfar veikinda eða slysa með árangursríkri starfsendurhæfingarþjónustu.

RB er stolt af því að taka þátt í þessu þróunarverkefni, telur það falla vel að stefnu sinni um samfélagslega ábyrgð og hvetur jafnframt önnur fyrirtæki til þess sama.

Á myndinni eru Herdís Pála Pálsdóttir framkvæmdastjóri Mannauðs- og markaðsstjórnar RB og Þorsteinn Sveinsson frá Þjónustu- og mannauðssviði Virk

Viðburðir
16.03.2017

Vorráðstefna RB 2017

Taktu frá 10. maí 2017 og mættu í Hörpu á einstaklega spennandi ráðstefnu, THE DIGITALIZATION OF THE FINANCE SECTOR, um upplýsingatækni og fjármálaþjónustu framtíðarinnar.

Fréttir
13.02.2017

RB og FKA í samstarf um að efla hlut kvenna í tæknigeiranum

Gengið hefur verið frá samkomulagi um að RB gerist velunnari Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA, en hlutverk félagsins er að efla tengslanet og styðja kvenleiðtoga til að sækja fram og sameina þá.

Fréttir
08.02.2017

RB á Framadögum 2017

Framadagar fara fram fimmtudaginn 9. febrúar í Háskólanum í Reykjavík, HR. Við verðum að sjálfsögðu með bás þar sem hressir starfsmenn standa vaktina og upplýsa nemendur um starfsemina og svara spurningum.

Fréttir
02.02.2017

Fyrirlestur frá RB á UTmessunni 2017

UTmessan fer fram á föstudag og laugardag, 3.-4. febrúar, í Hörpu. Á föstudeginum er ráðstefnudagur en á laugardeginum er sýningardagur opinn öllum. Ásgeir Logi Ísleifsson atvikastjóri hjá RB mun á ráðstefnudeginum vera með fyrirlestur undir yfirskirftinni Stóratvikastjórnun hjá RB.

Fréttir
20.01.2017

RB er Framúrskarandi fyrirtæki

Í byrjun þessa mánaðar bárust okkur skemmtilegar fréttir um að RB er á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi 2016. Aðeins 1,7% íslenskra fyrirtækja standast þau skilyrði sem sett eru. Við erum afar ánægð með þessa viðurkenningu.

Fréttir
31.12.2016

Tafir við áramótavinnslur

Vegna tafa við áramótavinnslur hjá Reiknistofu bankanna geta gögn um reikningsyfirlit sem send eru í netbanka viðskiptavina verið seint á ferðinni.

Fréttir
05.12.2016

RB hlýtur Gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC

RB hefur hlotið Gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC, en með því er staðfest að munur á grunn- og heildarlaunum karla og kvenna er minni en 3,5% hjá fyrirtækinu. 

Fréttir
22.11.2016

Breytt staðsetning - Örráðstefna um MiFID II

Vegna góðrar þátttöku ákváðum við að færa örráðstefnuna "Allt það helsta um MiFID II" sem fram fer fimmtudaginn 24. nóvember næst komandi kl. 13:00 út úr húsi (húsakynnum RB) í Hörpuna.

Blogg
17.11.2016

ITIL Major Incident Management

Hvað er Major incident og Hvenær verður incident að Major incident?

Fréttir
21.10.2016

RB hjálpar

Fyrr á þessu ári mótaði RB sér formlega stefnu í samfélagsábyrgð og er nú unnið markvisst að innleiðingu hennar. Sem hluti af henni fer núna í loftið verkefni sem heitir “RB hjálpar”.

Fréttir
07.10.2016

Forritarar framtíðarinnar fá styrk frá Google

Bjóða 224 íslenskum stelpum á aldrinum 8-13 ára á forritunarnámskeið

Í tengslum við evrópsku forritunarvikuna Europe Code Week sem fram fer 15.–23. október næstkomandi hefur sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar hlotið styrk frá Google til að kveikja áhuga á forritun hjá stelpum.

Fréttir
04.10.2016

14 grunnskólar styrktir um 12 milljónir

Forritarar framtíðarinnar efla tækni- og forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum

Úthlutað hefur verið styrkjum úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar fyrir árið 2016. Sjóðnum bárust um 30 umsóknir í þessari úthlutun, flestar frá grunnskólum. Sjóðnum var kosin ný stjórn á aðalfundi sem fram fór fyrir helgi.

Fréttir
27.09.2016

Nýtt skipulag hjá RB

Nýtt skipulag innleitt til að fylgja eftir stefnubreytingu.

Nýtt skipulag mun taka gildi 1. október næstkomandi hjá RB og er það í kjölfar endurskoðaðrar stefnu félagsins, segir Friðrik Þór Snorrason, forstjóri RB.

Fréttir
19.09.2016

Góðgerðarleikar Sidekick í RB

Föstudaginn 16. september hófust góðgerðarleikar Sidekick hér í RB. Um er að ræða þriggja vikna heilsuáskorun fyrir starfsfólk RB. Starfsfólk safnar stigum eða svo kölluðum “Kicks” í Sidekick appinu fyrir að framkvæma heilsueflandi hluti eins og að drekka vatn, borða ávexti, alls konar æfingar (t.d. armbeygjur, hnébeygjur, planka), taka stigann og slaka á með slökunaraðferðum.

Fréttir
30.08.2016

Vel heppnað RB Classic

RB (Reiknistofa bankanna) hélt í samstarfi við hjólreiðafélagið Tind og Kríu hjólaverslun götuhjólakeppni umhverfis Þingvallavatn síðasta laugardag, 27. ágúst 2016. Ræst var við Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni og hjólað umhverfis Þingvallavatn. Hægt var að velja á milli tveggja vegalengda, 127 km (2 hringir - A flokkur) og 65 km (1 hringur - B flokkur). Stærstur hluti leiðarinnar var hjólaður á malbiki en 10 km á möl.

Fréttir
18.07.2016

RB í frétt á erlendri vefsíðu

BAI birti nýlega grein um áhrif laga og reglna á kröfur markaða um að hraða greiðslumiðlun.Í greininni er sagt frá RB...

Fréttir
30.06.2016

12 milljónir veittar í styrki til skóla

Búið er að ákveða úthlutun fyrir árið 2016 úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar en RB er stoltur Hollvinur og annar stofnandi sjóðsins.

Fréttir
09.06.2016

Fréttabréf RB júní 2016

Þá er komið að stútfullum fréttapakka frá okkur í RB.

Fréttir
01.06.2016

Team RB í Wow Cyclothon 2016

Við kynnum með stolti TEAM RB sem mun taka þátt í Wow Cyclothon 2016.

Fréttir
31.05.2016

Myndbönd frá ráðstefnu RB

Miðvikudaginn 4. maí fór fram ráðstefna RB, “Sú kemur tíð”. Ráðstefnan tókst frábærlega og mættu hátt í 400 manns í Hörpuna til að hlusta á erindi um Big Data, Digital Banking, Fintech, BPM, Internet of me, Hackathon, útvistun, stöðlun, skilvirkni o.fl.

Fréttir
23.05.2016

RB tekur þátt í Fintech partýi Arion banka

Í Fintech partýi Arion banka, sem fram fer 3. og 4. júní 2016, býður RB upp á aðgengi að aðgerðum (API) sem sérstaklega eru hugsaðar til að styðja við mobile þróun af ýmsu tagi og auðga hefðbundna greiðsluvirkni sem hefur að mestu verið óbreytt á liðnum áratugum.

Blogg
22.04.2016

Að miðla þekkingu - DB2 Got Talent 2016

Fyrir fáeinum vikum síðan tók ég þátt í fyrirlestra-keppni á netinu sem bar yfirskriftina “DB2 Got Talent 2016” og fólst í því að keppendur fengu 7 mínútur til að koma frá sér afmörkuðu efni sem það hefur öðlast reynslu af og dýpri þekkingu á í tengslum við vinnu þeirra á DB2 gagnagrunninum, hvort sem um er að ræða DB2 á Linux Unix Windows (LUW) umhverfinu eða á stórtölvu (Mainframe z/OS). 

Fréttir
18.04.2016

Aðalfundur RB 2016

Aðalfundur Reiknistofu bankanna hf. (RB) verður haldinn miðvikudaginn 20. apríl 2016 í fundarsal RB, Höfðatorgi, Katrínartúni 2, Reykjavík og hefst fundurinn kl. 16:15.

Viðburðir
12.04.2016

Sú kemur tíð

Ráðstefna um upplýsingatækni og fjármálaþjónustu framtíðarinnar miðvikudaginn 4. maí 2016 í Hörpu.

Viðburðir
01.04.2016

Hugvekja um nýsköpun í fjármálastarfsemi

Skráðu þig á spennandi morgunverðarfund fimmtudaginn 14. apríl milli klukkan 8:45 og 10:15.

Um er að ræða “hugvekju” um það hvernig fjármálastarfsemi er að breytast með tilliti til nýsköpunar.

Fréttir
23.03.2016

RB er fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Þriðjudaginn 15. mars var RB veitt viðurkenning við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands fyrir að vera fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.  Viðurkenningin er veitt af Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands.  Samstarfsaðilar rannsóknarmiðstöðvarinnar eru Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq og Samtök atvinnulífsins.

Fréttir
17.03.2016

RB ræður framkvæmdastjóra fjármálasviðs

Ingibjörg Arnarsdóttir tók við starfi framkvæmdastjóra Fjármálasviðs hjá RB þann 7. mars 2016. Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnun fyrirtækja, fjármála, upplýsingatækni og stjórnarsetu.

Fréttir
15.03.2016

RB tilnefnt til íslensku þekkingarverðlaunanna

Þrjú fyrirtæki eru tilnefnd til Íslensku þekkingarverðlaunanna en það eru Reiknistofa bankanna, Kolibri og Íslandsbanki.

Fréttir
11.02.2016

Vinningshafinn í 100% Framadagaleiknum

Þá er búið að draga út vinningshafa í 100% Framadagaleiknum okkar. Vinningshafinn er Arnþór Gíslason nemandi í rafmagnstæknifræði.

Fréttir
09.02.2016

RB á Framadögum í HR

Við verðum á Framadögum í HR miðvikudaginn 10. febrúar milli klukkan 11 og 16. Það er um að gera að kíkja við í básnum okkar og taka þátt í skemmtilegum leik. Þú gætir unnið Beats Solo2 þráðlaus heyrnartól að verðmæti 47.990 kr.

Fréttir
08.02.2016

RB semur við DalPay

Það er sönn ánægja að segja frá því að DalPay hefur bæst í viðskiptavinahóp RB.

Dalpay hefur síðan 2006 boðið uppá þjónustu við aðila sem vilja selja vörur sínar á veraldarvefnum. DalPay brúar þannig bilið á milli seljenda og kaupenda, hvar sem er í heiminum, fyrir tilstilli veraldarvefsins. Samstarfið við RB felur í sér notkun á samskráningagrunni RB (PAR RB).

Fréttir
15.01.2016

RB annáll 2015

2016 er gengið í garð og við hjá RB horfum spennt fram á veginn, enda reiknum við með viðburðaríku og velheppnuðu ári. Það er ekki bara af því að við erum að eðlisfari bjartsýn (sem við erum), heldur lærum við líka af sögunni og 2015 var einstaklega gott ár.

Fréttir
18.12.2015

Starfsfólk RB safnaði peningum handa flóttafólki í desember

Starfsfólk RB lét gott af sér leiða í desember með því að safna peningum handa flóttafólki.  Alls söfnuðust 162.000 krónur og var upphæðin afhent Rauða krossinum sem sér síðan um að koma peningunum áfram til þeirra sem þurfa á að halda.  Ákveðið var að safna pening handa flóttafólki enda þörfin brýn miðað við ástandið í heiminum í dag.

Fréttir
16.11.2015

SideKick heilsuæði í RB

Fyrir rúmri viku síðan, föstudaginn 6. nóvember, tók RB í notkun app fyrir starfsfólk sitt sem hefur það markmið að efla heilsu og vellíðan starfsólks. Appið nefnist SideKick en það byggir á sterkum vísindagrunni og klínískri reynslu. Um er að ræða einfalda leikjavædda lausn sem gerir heilsueflingu skemmtilega og aðgengilega með það að markmiði að ná fram varanlegum lífstílsbreytingum.

Blogg
11.11.2015

Um jólagjafir vinnustaða

Þessa dagana hrúgast inn jólagjafahugmyndirnar til fyrirtækja landsins frá hinum ýmsu söluaðilum. Þá hefjast heilaumbrotin miklu hjá hinum útvöldu sem fá það „vinsæla“ hlutskipti að finna jólagjöfina í ár fyrir starfsfólkið. Þetta er klárlega fyrsti forboði jólanna og við færumst sífellt framar í dagatalinu með jólaundirbúninginn. Stundum verður þetta til þess að einhver á skrifstofunni fer að humma jólalög á þessum annars ótímabæra tíma ársins, sem er bara hressandi!

Fréttir
09.11.2015

RB fyrsta fyrirtækið til að taka upp íslenska leikjavædda heilsueflingu

Heilbrigðisfyrirtækið Sidekick Health sem á í samstarfi við MIT, Harvard og virtasta spítala Bandaríkjanna hefur þróað heilsulausn fyrir fyrirtæki.

Starfsfólk RB mun á næstunni fá tækifæri til að sameina heilsueflingu og leik á vinnutíma. RB hefur gert samning við íslensk-sænska heilbrigðisfyrirtækið Sidekick Health um kaup á nýrri vöru fyrirtækisins. Varan nefnist Sidekick og innifelur meðal annars app sem eflir heilsu og vellíðan starfsfólks.

Viðburðir
16.10.2015

RB SQUARE

RB býður þér á Off Venue viðburð á Airwaves, RB SQUARE, föstudaginn 6. nóvember í glerskálanum í Höfðatorgi. 

Viðburðir
14.10.2015

Sameining öryggisstjórnkerfa: Reynslusaga frá samruna RB og Teris

Spennandi morgunverðarfundur í nóvember.

Í byrjun árs 2012 keypti RB stærstan hluta eigna upplýsingatæknifyrirtækisins Teris og voru fyrirtækin í kjölfarið sameinuð.

Við samruna þarf að taka á mörgum áskorunum s.s. samþættingu fyrirtækjamenningar, lausnaframboðs, gæðakerfis o.fl.

Fréttir
06.10.2015

11 milljónir veittar í styrki til skóla

Forritarar framtíðarinnar efla tækni- og forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum.

Þriðjudaginn 6. október verða styrkir úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar afhentir fyrir árið 2015. Sjóðnum bárust alls 42 umsóknir í þessari úthlutun, flestar frá grunnskólum. Virði styrkjanna er samtals ríflega ellefu milljónir króna. Styrkirnir eru í formi tölvubúnaðar og þjálfunar kennara til forritunarkennslu fyrir nemendur.

Fréttir
30.09.2015

Fréttabréf RB september 2015

Í fréttabréfi RB í september mánuði gætir ýmissa grasa og má þar meðal annars finna upplýsingar um spennandi morgunverðarfund, frétt um nýjan ytri vef, nýtt RB blogg, frétt um RB Classic, fjölskyldudag RB og hina hliðina á starfsfólki RB.

Fréttir
28.09.2015

Hvernig finnst þér nýi vefurinn okkar?

Í dag fór nýr ytri vefur RB í loftið.  Vefurinn er unninn í samstarfi við Skapalón og er hugmyndin á bak við hann sótt í nýtt markaðsefni RB.  Myndefni og skilaboð tengjast alls kyns útivist, aðstæðum þar sem allt þarf að vera 100% til að ganga upp.  Þetta er íslensk tenging, þar sem gildin okkar fagmennska, öryggi og ástríða þurfa að spila saman.  Nýtt kynningarefni var unnið í samstarfi við auglýsingastofuna Árnasyni.

Blogg
28.09.2015

Þróun á nýju kerfi er langhlaup

Undanfarna mánuði hef ég ásamt vinnufélögum mínum og samstarfsaðilum unnið að því að þróa stórt tölvukerfi, sem taka á við mörgum af mikilvægustu verkefnum fjármálakerfisins á Íslandi. Stundum gengur allt eins og í sögu, allir eru glaðir í bragði og vissir um góðan árangur. Stundum er svo eins og allt gangi á afturfótunum.  „Hinir“ eru allir að gera eitthvað vitlaust og trúin á að við munum ljúka verkefninu á réttum tíma brestur.

Fréttir
25.09.2015

ERT ÞÚ TIL Í 100% ÁSKORANIR?

TAKTU ÞÁTT Í AÐ MÓTA KRAFTMIKIÐ OG LIFANDI UPPLÝSINGATÆKNIFYRIRTÆKI.

Okkar æðsta markmið er að veita viðskiptavinum okkar 100% uppitíma og það gerum við með því að hafa í okkar röðum tæknifólk í fremstu röð. Einstaklinga sem við treystum fyrir lyklinum að mikilvægustu upplýsingakerfum landsins. Fáir uppfylla þau skilyrði. Getur verið að þú gerir það?

Fréttir
02.09.2015

Metþátttaka á RB Classic mótinu

RB (Reiknistofa bankanna) hélt í samstarfi við hjólreiðafélagið Tind; Ion Luxury Hótel og Kríu hjólaverslun götuhjólakeppni umhverfis Þingvallavatn síðasta sunnudag, 30. ágúst 2015. Ræst var við ION hótel og hjólað réttsælis umhverfis Þingvallavatn. Hægt var að velja á milli tveggja vegalengda, 127 km (2 hringir - A flokkur) og 65 km (1 hringur - B flokkur). Stærstur hluti leiðarinnar var hjólaður á malbiki en 10 km á möl.

Fréttir
27.08.2015

Allt um RB Classic 2015

RB (Reiknistofa bankanna) mun í samstarfi við hjólreiðafélagið Tind; Ion Luxury Hótel og Kríu hjólaverslun standa fyrir götuhjólakeppni umhverfis Þingvallavatn sunnudaginn 30. ágúst 2015.  Ræst verður við ION hótel og hjólað réttsælis umhverfis Þingvallavatn. Leiðin liggur um ægifagra náttúru Þingvalla og nágrennis.

Fréttir
11.06.2015

RB semur við Data eXcellence um gagnaflutninga og mótun gagna (Data Migration)

Í janúar samdi RB um endurnýjun helstu grunnkerfa sinna við hugbúnaðarfyrirtækið Sopra Banking Software. Í slíkum uppfærsluverkefnum er gagnaflutningur og mótun gagna (e. „Data Migration") iðulega mjög áhættusamur þáttur og því er mjög mikilvægt að vel sé staðið að þeim málum og dregið úr áhættu við þau eins og kostur er.

Fréttir
09.06.2015

RB ræður framkvæmdastjóra tæknireksturs og þjónustu

RB (Reiknistofa bankanna hf.) hefur gengið frá ráðningu Magnúsar Böðvars Eyþórssonar í starf framkvæmdastjóra sviðsins Tæknirekstur og þjónusta. Hann hóf störf hjá félaginu í maí mánuði.

Fréttir
05.06.2015

Vel heppnað golfmót

Í gær fór fram stórskemmtilegt golfmót, RB Invitational, þar sem viðskiptavinir og starfsfólk RB kom saman og spiluðu golf. Mótið fór fram á Hvaleyrarvellinum hjá Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði. Spilað var Texas Scramble með fjóra í hverju holli.

Fréttir
29.05.2015

Starfsmannafélag RB (SRB) 40 ára

Miðvikudaginn 27. maí fagnaði starfsmannafélag RB (SRB) stórum áfanga en þá varð félagið 40 ára. Af því tilefni bauð SRB í heljarinnar grillveislu og kökur í glerskálanum í Höfðatorgi.

Fréttir
19.05.2015

Vegna leiðréttingar verðtryggðra fasteignalána

Í ljósi umfjöllunar í fjölmiðlum í dag um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána vill Reiknistofa bankanna (RB) koma því á framfæri að félagið vinnur að breytingum á útlánakerfi RB í góðri samvinnu við viðskiptavini.  Um er að ræða viðamikla og flókna breytingu á kerfum félagsins.

Fréttir
09.04.2015

Fréttabréf RB - apríl 2015

Nýtt fréttabréf RB er komið út.

Blogg
08.04.2015

Persónuleg samskipti

Í síðustu viku sendi átta ára sonur minn mér sms klukkan sjö um morgun úr næsta herbergi og bað mig um að finna föt á sig.  Við vitum að nánast heil kynslóð er hætt að tala saman í síma og flest samskipti fara fram í rafrænu formi.  Það sem ég velti fyrir mér er á hvaða hátt hefur þetta áhrif á okkur dags daglega bæði í okkar persónulega lífi og vinnutengt.  Erum við almennt orðin feimnari við að hringja í fólk og hitta það eða þykir það orðið of persónulegt að hringja beint í gsm síma hjá viðskiptavinum okkar og tengiliðum ?   Sjálf hef ég reynt að leggja upp úr því að þekkja mína tengiliði persónulega og reyni heldur að hringja beint í þá og hitta í kaffi til að ræða málin.

Fréttir
27.03.2015

RB styrkir Hjólakraft

RB hefur ákveðið að leggja Hjólakrafti lið með peningaframlagi.  Hjólakraftur er verkefni sem var sett í gang árið 2012 og hefur verið í gangi síðan þá. Verkefnið snýst um að búa til létt og skemmtilegt prógramm fyrir krakka og unglinga sem vilja tilheyra skemmtilegum hópi sem hefur aukna hreyfingu, uppbyggileg samskipti og heilbrigði að leiðarljósi.

Fréttir
19.03.2015

Hefur unnið með Mainframe tölvur í yfir 30 ár

Í vor varð Stórtölvan IBM Mainframe 50 ára en slíkar tölvur eru hjartað í 90% tölvukerfa hjá 500 stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna, Fortune 500. Í tilefni afmælisins tók Nýherji lauflétt viðtal við okkar mann, Bjarna Ómar Jónnsson tækniarkitekt, en hann hefur unnið með Mainframe tölvur í yfir 30 ár.  Viðtalið birtist á Youtube síðu Nýherja.

Fréttir
06.03.2015

Við leitum að öflugum framkvæmdastjóra

Við leitum að stjórnanda til að leiða sviðið Tæknirekstur og þjónusta sem er ábyrgt fyrir hönnun á tæknilegum innviðum og rekstri þjónustulausna fyrirtækisins, sem sérsniðnar eru að þörfum fjármálamarkaðar. Okkar megin markmið er að tryggja viðskiptavinum 100% uppitíma og það gerum við með því að hafa í okkar röðum öflugt fólk sem treyst er fyrir lyklunum að mikilvægustu upplýsingatæknikerfum landsins.

Viðburðir
26.02.2015

AngularJS

Skráðu þig á spennandi morgunverðarfund um AngularJS. AngularJS er "javascript framework" sem auðveldar forritun á framendalausnum.  Um er að ræða "open source project" sem er viðhaldið af Google. AngularJS hefur á skömmum tíma náð mikilli útbreiðslu og er að verða eitt vinsælasta tólið til að búa til falleg og notendavæn viðmót á vefsíðum.

Fréttir
09.02.2015

Spennandi morgunverðarfundur um AngularJS

Fimmtudaginn 26. febrúar verður haldinn spennandi morgunverðarfundur um AngularJS í höfuðstöðvum RB í Höfðatorgi, Katrínartúni 2, á 4. hæð, milli klukkan 8:30 og 10:00.

Fréttir
13.01.2015

Ný grunnkerfi RB einfalda vöruþróun og stuðla að sparnaði innan bankakerfisins

Reiknistofa bankanna hf. (RB) hefur samið um endurnýjun helstu grunnkerfa sinna við hugbúnaðarfyrirtækið Sopra Banking Software. Um er að ræða umfangsmikið verkefni sem nær til innlána- og greiðslukerfa RB þar sem gömlum sérhönnuðum kerfum er skipt út fyrir staðlaðar alþjóðlegar hugbúnaðarlausnir. Markmið endurnýjunarinnar er að auka hagræði og draga úr kostnaði við rekstur upplýsingakerfa bankanna. Kerfin koma einnig til með að auðvelda vöruþróun og flýta fyrir innleiðingu nýrrar þjónustu bankanna. Nú þegar hafa Landsbankinn og Íslandsbanki samið við RB um notkun nýju kerfanna og þar með er framgangur verkefnisins tryggður.

Fréttir
13.01.2015

Ef þú ert lífsglaður þjónustulundaður einstaklingur þá langar okkur að bjóða þér um borð

Við leitum eftir metnaðarfullum einstaklingi sem geislar af lífsgleði og hefur ánægju af því að veita þjónustu.  Ekki væri verra ef viðkomandi er jákvæður, faglegur, liðugur, brosmildur og kann samskipti upp á tíu.  Verkefnin eru símsvörun, móttaka viðskiptavina, eftirfylgni fyrirspurna frá viðskiptavinum auk annarra tilfallandi verkefna.

Fréttir
09.01.2015

Við leitum að öflugum einstaklingum

Okkar æðsta markmið er að veita viðskiptavinum okkar 100% uppitíma og það gerum við með því að hafa í okkar röðum öflugt fólk. Einstaklinga sem við treystum fyrir lyklunum að mikilvægustu upplýsingatæknikerfum landsins. Það eru ekki margir sem uppfylla þau skilyrði. Ert þú einn af þeim?

Fréttir
06.01.2015

Fréttabréf RB - Janúar 2015

Nýtt fréttabréf RB er komið út.

Blogg
05.01.2015

Aukin skilvirkni í hugbúnaðargerð

Hjá Reiknistofu bankanna starfa um 70 manns á hugbúnaðarsviði og því eru mörg scrum-teymi að störfum hverju sinni.  Tækniumhverfið er einnig ansi viðamikið hjá okkur þar sem við erum bæði að viðhalda eldri lausnum, útfæra nýjar lausnir og í stórum innleiðingarverkefnum á aðkeyptum lausnum.  Til að flækjustigið verði ekki of mikið í útfærslu, viðhaldi og rekstri á öllum þeim lausnum sem er verið að vinna með þá höfum við útbúið mikið af fyrirfram skilgreindum hönnunarlýsingum og sniðmátum (e. Design Patters and Templates) þvert á teymi og lausnir.

Viðburðir
30.10.2014

Framtíðin í upplýsingatækni fjármálafyrirtækja 2.0

Fagráðstefna RB á Icelandair Hótel Reykjavik Natura 30. október 2014. Gífurlega áhugaverð og spennandi ráðstefna um það hvernig upplýsingatækni í fjámálageiranum mun þróast á næstu árum.  Haustráðstefna RB er orðin einn stærsti viðburðurinn ár hvert í upplýsingatækni fjármálafyrirtækja.

Viðburðir
18.09.2014

Chef: Kokkurinn, matreiðslubækurnar og uppskriftirnar

Við hvetjum þig til að taka frá fimmtudaginn 18. september, klukkan 8:30 - 10:00, og mæta á spennandi morgunverðarfund hjá RB. Á fundinum verður fjallað um rekstrartólið Chef, hvað það hefur upp á að bjóða og hvernig RB notar það. Chef er mjög sveigjanlegt tól sem gerir fyrirtækjum kleift að halda utan um vélar í rekstrarumhverfi og dreifa hugbúnaði og kóða.  Auk þess sem það auðveldar fyrirtækjum að skilgreina tæknilega innviði (infrastructure) sína.

Blogg
15.09.2014

Hverjar eru þínar væntingar?

Dags daglega mynda ég mér allskonar væntingar, án þess raunverulega að gera mér jafnvel grein fyrir því sjálf. Ég vakna í rútínu dagsins, bind vonir við að börnin vakni „réttu megin" og þjóti fram úr morgunhress, fer síðan í vinnuna með ýmsar væntingar í kollinum. Væntingar vinnudagsins geta ýmist verið að ráða fram úr krefjandi verkefnum sem ég veit að liggja á borðinu þegar ég mæti, eða bara að kaffibollinn verði jafngóður í dag og í gær hjá kaffiþjóninum á Kaffistofunni Höfðatorgi. Hann gefur mér gjarnan speki dagsins í farteskið. Ég er eiginlega farin að binda væntingar við að það almennt fylgi bollanum. Eðli okkar er svolítið þannig, að innan sem utan vinnustaðarins erum við sífellt að móta okkar eigin væntingar.

Blogg
19.06.2014

Viltu upplifa?

Fyrir rúmri viku var ég „plötuð" til að vera driver fyrir  samstarfsfélaga mína sem höfðu skráð sig til leiks í Blue Lagoon Challenge. Mitt hlutverk var einungis að sækja þá í Bláa lónið þar sem endamark keppninnar var. Ég hef aldrei tekið þátt í hjólakeppni, rekin áfram af forvitni sló ég til. Vikuna fyrir hlustaði ég á umræður þeirra félaga í liðinu RBz; hvaða tíma þeir ætluðu að ná, hvort létta ætti hjólið, hvernig þeir ætluðu klæddir, hvað ætti að innbyrða á leiðinni, hvernig veðrið yrði, hvenær ég ætti að koma að sækja þá o.s.frv.

Blogg
10.06.2014

Þegar Captain Kirk kenndi mér að vera verkefnastjóri

Í haust var ég plataður til þess að taka að mér verkefnastýringu á Torgvæðingu Grunnkerfa RB. Á þessum tíma hafði ég aðeins litla reynslu af verkefnastjórn og ég fór því að velta fyrir mér til hvaða fyrirmynda ég myndi vilja líta. Í gegnum tíðina hef ég haft marga góða yfirmenn en eiginlega enginn þeirra var frábær verkefnastjóri það var því ekki annað að gera en að leita fanga víðar. Sem betur fer þá mundi ég eftir einum kappa sem ég gat leitað til og það var Captain James Tiberius Kirk. Hann hefur á sínum glæsta ferli stýrt stórum hópi fólks til þess að komast í gegnum hina ótrúlegustu erfiðleika.

Blogg
22.05.2014

Er forritun jafn mikilvæg fyrir krakkana okkar og íslenska eða stærðfræði?

Þegar stórt er spurt er fátt um svör enda ekkert eitt rétt svar til við þessari spurningu og skoðanirnar á þessu örugglega jafn margar og einstaklingarnir sem þær hafa.  Í aðalnámskrá grunnskóla má finna þessi fög auk ensku, dönsku, íþrótta, listgreina, náttúrugreina, samfélagsgreina o.fl. Allt góð, gild og mikilvæg fög og ekkert út á þau að setja.  Upplýsinga- og tæknimenntun má líka finna á námskránni en fær töluvert minni sess en fyrrnefnd fög í henni.

Viðburðir
15.05.2014

Frá gluggaumslögum til tölvuskýja

Við hvetjum þig til að taka frá fimmtudaginn 15. maí, kl. 8:30-10:00, og mæta á spennandi morgunverðarfund hjá RB. Á fundinum verður sögð reynslusaga af hjúpun grunnkerfa og þeim áskorunum sem því fylgir.

Blogg
14.05.2014

Sjálfumglaði hjólarinn

Það er fátt meira óþolandi en feitlagni dúddinn á hjólinu sem þvælist fyrir þér í umferðinni, klæddur allt of þröngum spandexfatnaði, hjólandi eins og hann eigi heiminn. Með skítaglott á smettinu og rífandi kjaft út af engu og gefandi fingurinn hægri vinstri.  Getur hann ekki drullast til að hjóla á gangstéttinni þar sem hann á heima? Þessi dúddi er ég.

Blogg
07.05.2014

Saklaus hugleiðing um mataræði fyrir kyrrsetufólk

Það er örlítið skondið að ég ætli í þessum pistli að fjalla um mataræði fyrir kyrrsetufólk. Sjálfur hef ég alla tíð unnið á gólfinu „tekið vaktina" eins og sagt er í matreiðslunni. En eftir að ég snéri mér að hefðbundnum dagvinnutíma í starfi mínu sem matreiðslumeistari í mötuneyti Reiknistofu Bankanna hef ég í auknum mæli varið frítíma mínum í  hreyfingu s.s. hjólreiðar, sund og hlaup.

Blogg
30.04.2014

Þróun og afkastageta gagnagrunna

Gagnagrunnar hafa undanfarin áratug tekið gríðarlegt stökk í þróun, afkastageta þeirra hefur margfaldast sem og  viðhald og annað utanumhald orðið betra samhliða auknu flækjustigi. Þessi þróun hefur orðið til þess að  margvíslegir möguleikar í forritun með SQL fyrirspurnamálinu hafa litið dagsins ljós. M.a. eru  möguleikar á að varpa gögnum úr einu formi í annað, áður en gögnunum er skilað til forrits, mun fjölbreyttari í dag en áður. Það sem er nýjast og heitast í dag er vörpun úr töfluformi (relational) yfir í JSON (Javascript Object Notation) til að geta flutt gögn yfir í snjallsíma með auðveldum hætti.

Blogg
15.04.2014

Sérstaða RB á heimsvísu í greiðslumiðlun

Við Íslendingar gerum okkur ef til vill ekki grein fyrir því hversu góðrar og skilvirkrar greiðslumiðlunar við njótum.  Í nágrannalöndum okkar er algengt að það taki einn dag að færa fjármuni á milli bankastofnanna. Sem dæmi, ef ég geri millifærslu í netbanka Landsbankans yfir á reikning í Arion banka, þá gerist það á stundinni, um leið og ýtt er á ,,millifæra". Oft er talað um T og T+1 í þessu sambandi, þar sem T  stendur fyrir daginn sem beðið er um millifærslu (transaction date) og T+1 stendur þá fyrir daginn eftir, þegar millifærslan er komin í gegn á áfangastað. Í sumum tilfellum getur millifærsla í nágrannalöndum okkar tekið þrjá daga eða T+3, en hjá okkur gerist þetta samdægurs eða T.

Blogg
08.04.2014

Stjórnendavandamál?

Á síðustu árum og áratugum hefur mikið verið fjallað um frammistöðustjórnun. Helstu áherslurnar hafa verið um hvað stjórnendur þurfa að gera gagnvart starfsfólki til að ná fram góðri, eða bættri frammistöðu hjá starfsfólki.

Viðburðir
22.10.2013

Framtíðin í upplýsingatækni fjármálafyrirtækja

Fagráðstefna í Hörpu Þriðjudaginn 22. október kl. 13:00 til 16:30. RB hefur sett saman gífurlega áhugaverða og spennandi ráðstefnu um það hvernig upplýsingatækni mun umbreyta tækniuppbyggingu fjármálageirans og þau hagræðingartækifæri sem í henni felast.  Þá verður fjallað um nýsköpun og hvernig hugmyndir komast í framkvæmd og verða að veruleika.