Um RB

RB er traust og öflugt þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni sem þróar og rekur hinar ýmsu fjármálalausnir, þar á meðal öll megin greiðslukerfi landsins. Helstu viðskiptavinir RB eru fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög. Framtíðarsýn RB er að auka gæði og hagkvæmni fjármálaþjónustu á Íslandi. RB nær því með þróun framsækinna og öruggra lausna og þjónustu sem eru bæði vel samþættar og samnýttar af markaðnum. Hjá RB starfar margt af öflugasta UT-fólki landsins.

RB er framúrskarandi fyrirtæki samkvæmt lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi 2016. Einungis 1,7% fyrirtækja á Íslandi eru á þeim lista.

Eignarhald

Eftirfarandi aðilar eiga RB:

 • Arion banki hf.
 • Borgun hf.
 • Íslandsbanki hf.
 • Landsbankinn hf.
 • Kvika banki hf.
 • Samband íslenskra sparisjóða (SÍSP)
 • Sparisjóðirnir
 • Valitor hf.

Samþykktir

Hér má finna samþykktir RB:

Samþykktir RB

Saga RB

23. mars árið 1973. Pink Floyd hafði nýlega sent frá sér meistarastykkið The Dark Side of the Moon og það voru tæpar tvær vikur í að fyrsta símtalið úr farsíma ætti sér stað. Reiknistofa bankanna var stofnuð sem sameignarfélag á þessum degi og í ársbyrjun 1974 hóf hún starfsemi í húsnæði Búnaðarbanka Íslands við Hlemm. Undirbúningur að stofnun sameiginlegrar tölvuþjónustu fyrir banka hafði þá staðið yfir síðan 1970.

Árið 1975 flutti RB starfsemi sína í húsnæði Útvegsbanka Íslands í Kópavogi og í júlí sama ár hófst vinnsla fyrsta bankaverkefnisins, með tölvuvinnslu ávísana- og hlaupareikninga. Í nóvember 1985 var í Breiðholtsútibúi Landsbankans tekið í notkun afgreiðslukerfi til sjóðsbókunar og sjóðsuppgjörs. Á sama tíma hófust beinlínubókanir sparisjóðsreikninga ásamt skráningu færslna í önnur verkefni RB. Almenn tenging afgreiðslustaða banka og sparisjóða við kerfið hófst svo í janúar 1986.

Í apríl 1986 flutti RB starfsemi sína í húsnæði Seðlabanka Íslands við Kalkofnsveg, en á árunum 1990- 2000 var hluti starfseminnar í Ármúla 13. Í janúar 2011 var Reiknistofu bankanna breytt í hlutafélag. Það var svo í apríl 2013 sem RB flutti í núverandi höfuðstöðvar sínar að Höfðatorgi og er stærstur hluti fyrirtækisins þar undir sama þaki.

Samstarf um RB markaði tímamót þegar það hófst. Aðdragandi að stofnun RB var einkum sívaxandi notkun ávísana í íslensku viðskiptasamfélagi, sem kallaði á störf síaukins fjölda bankamanna við skjalaskipti og bókun. Á sama tíma var tölvutæknin að ryðja sér til rúms erlendis.

Sameiginleg tölvuvinnsla gerði íslenska bankakerfinu kleift að tileinka sér nýjustu tækni þeirra tíma og grunnurinn var lagður að öflugustu og traustustu viðskiptakerfum nútímans.

Ör tækniþróun og aukin þjónusta eigenda RB við viðskiptavini sína hefur mótað fyrirtækið og byggir starfsemi RB á kostnaðarhagkvæmni og rekstraröryggi.

HELSTU TÍMAMÓT:
 • RB stofnuð 23. mars 1973
 • RB flytur í Kópavog 1975
 • Árið 1985 hófst beinlínuvæðing kerfa RB og var AK-kerfið orðið rauntímagreiðslukerfi árið 1987 fyrsta sinnar tegundar í heiminum.  Enn þann dag í dag bjóða einungis 5 þjóðir upp á einhvers konar rauntímagreiðslur en það eru  Ísland, Bretland, Singapoor, Svíþjóð og Danmörk
 • RB flytur starfsemi sína í húsnæði Seðlabanka Íslands 1986
 • Beinni tengingu komið á við erlenda banka 1989
 • RB heldur uppi greiðslumiðlun á Íslandi þrátt fyrir bankahrun 2008
 • RB verður hlutafélag í janúar 2011
 • Ský útnefndi RB sem upplýsingatæknifyrirtæki ársins 2011
 • RB kaupir hluta eigna Teris 2012
 • RB selur rekstur prentþjónustu og umslagaísetningar 2012
 • RB flytur höfuðstöðvar sínar að Höfðatorgi árið 2013
 • RB semur við hugbúnaðarfyrirtækið Sopra Banking Software um endurnýjun helstu grunnkerfa sinna í ársbyrjun 2015

Fréttir, blogg og viðburðir

10.04.2018

Vorráðstefna RB 2018

Taktu frá 15. maí 2018 og mættu í Hörpu á einstaklega spennandi ráðstefnu undir yfirskriftinni, "Hver ætlar að baka kökuna?"

02.03.2018

Friðrik valinn stjórnandi ársins 2018

Friðrik, forstjóri RB, var valinn stjórnandi ársins 2018 af Stjórnvísi og tók við viðurkenningu frá forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Þrír stjórnendur voru verðlaunaðir. Friðrik í flokki yfirstjórnenda, Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR í flokki millistjórnenda og Jóhannes Ingi Kolbeinsson, stofnandi Kortaþjónustunnar í flokki frumkvöðla.

Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með 3000 virka félagsmenn. Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi eru veitt árlega stjórnendum fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði. Félagar í Stjórnvísi tilnefna stjórnendur út frá viðmiðum sem sett eru hverju sinni. Í ár voru yfir 70 stjórnendur tilnefndir og vorum við hjá RB með tvær tilnefningar, Friðrik í flokki æðstu stjórnenda og Magnús Böðvar, framkvæmdastjóri Rekstrarlausna, í flokki millistjórnenda.

Úr umsögn dómnefndar

Sá sem hlýtur verðlaunin sem yfirstjórnandi fyrirtækis er vel að því kominn. Árið 2011 tók hann við sem yfirstjórnandi fyrirtækis í tæknigeiranum, sem ekki hafði tekið miklum breytingum í áranna rás, en byggði á mjög traustum grunni. Rekstrarformi þess hafði verið breytt í hlutafélag og ný stjórn kom að félaginu. Eitt fyrsta verk stjórnar var að ráða nýjan forstjóra. Frá árinu 2011 hefur fyrirtækið fengið ótal vottanir og viðurkenningar:

 • Árið 2011 var ISO27001 vottun endurheimt (frá árinu 2009)
 • Árið 2012 PCI vottun frá Visa og Master Card fyrir vinnslu kortaupplýsinga
 • Árið 2014 var innleiddur áhættustýringarstaðallinn COSO. Áhættugreiningar eru orðnar hluti af DNA fyrirtækisins þannig að árlega eru framkvæmdar fleiri þúsundir áhættugreiningar.
 • Árið 2016 tilnefning til Íslensku þekkingarverðlaunanna veitt af Félagi viðskipta og hagfræðinga
 • Árið 2016 fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Viðurkenningin er veitt af Rannsóknarmiðstöð um góða stjórnarhætti við H.Í. Samstarfsaðilar rannsóknar-miðstöðvarinnar eru Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq og Samtök atvinnulífsins.
 • Árin 2016 og 2017 valið sem Framúrskarandi fyrirtæki hjá Creditinfo.

Eftirfarandi lýsing er frá fyrrverandi samstarfsmanni og síðar viðskiptavin: 

Friðrik er einhver "strategískasti" maður sem ég þekki. Hann borar ofan í hlutina til að skilja þá til hlítar, rannsakar og viðar að sér gögnum og býr til framtíðarsýn eða "stóru myndina" og byggir hana á gögnum og rökum.  Hann er gríðarlega talnaglöggur en á sama tíma mjög næmur fyrir markaðsnálgun sem er mjög sérstök blanda.  Hann fylgir hlutunum mjög vel eftir, er mjög kröfuharður við sjálfan sig og aðra og þó það blási á móti missir hann aldrei sjónar af endamarkinu. Friðrik er afskaplega ósérhlífinn, segir hlutina eins og þeir eru og stendur við orð sín.  Hann hefur ástríðu fyrir því sem hann gerir.  Hann hvetur fólkið sitt áfram og er mjög umhugað um að fólki líði vel í fyrirtækinu, sé vel upplýst og stolt af því sem það er að gera.

Eftirfarandi lýsing studdi tilnefningu Friðriks til verðlauna:

Friðrik hefur breytt RB mikið frá þeim tíma sem hann kom í fyrirtækið. RB er í dag fyrirtæki sem er að gera mjög miklar og stórar breytingar bæði með útskiptingu grunnkerfa bankanna og með tilkomu fyrstu farsímagreiðslulausninni sem millifærir beint af reikningi kaupanda yfir á reikning seljanda.  Friðrik hefur einnig verið sterk rödd á markaði um þær breytingar sem munu koma með nýju greiðsluþjónustulögunum (PSD2) sem munu breyta fjármálamörkuðum eins og við þekkjum þá.  Kjarninn var með áhugaverða úttekt á fjármálaþjónustu á Íslandi þar sem segir m.a.: "Reiknistofa bankanna hefur verið sá aðili sem hefur verið leiðandi í þessari umræðu hér á landi, meðal annars með ráðstefnuhaldi og opinni umræðu um helstu álitamálin. Það er til fyrirmyndar, enda mikið í húfi."  Í þessu stóra verkefni á útskiptum grunnkerfa bankanna hefur Friðrik sýnt fólkinu sínu mikinn stuðning og verið hér öllum stundum til að flýta ákvörðunartöku og styðja fólkið sitt. Hann endaði árið á því að elda sjálfur "Beef Wellington" fyrir þá sem voru á vakt vegna áramótavinnslna. Kynjaskipting hjá RB er einnig með því besta sem sést í upplýsinga- og hugbúnaðageiranum og jafnréttismál í hávegum höfð.

Félag með skýran tilgang

Friðrik hélt ræðu við athöfnina þar sem hann fór yfir hvað þær miklu breytingar sem hafa orðið hjá RB undanfarin ár. Hann sagði þó lykilatriði vera hinn sterka grunn og skýra tilgang sem fyrirtækið byggir á. Hann talaði líka um þá miklu vinnu sem starfsfólk RB hefur lagt á sig til að koma fyrirtækinu á þann stað sem það er í dag. Við hjá RB erum ákaflega stolt af þessum verðlaunum og óskum Friðriki hjartanlega til hamingju.

 

Myndbönd úr starfseminni

 • Gildin okkar: Fagmennska - Öryggi - Ástríða (02:54)

 • Framtíðin í upplýsingatækni fjármálafyrirtækja 2.0 (02:05)

 • Starfsdagur RB 31. janúar 2015 (00:39)

 • RB á Framadögum 2015 í HR (01:34)

 • RB á UT messunni 2015 (01:25)

 • RB Classic 2015 (04:27)

 • RB Classic 2014 (03:50)

 • Hugvekja um nýsköpun í fjármálastarfsemi - morgunverðarfundur 14. apríl 2016 (01:03:53)

Stefna RB

Hlutverk RB er að auka hagkvæmni í tæknirekstri íslenskra fjármálafyrirtækja

Skoða nánar