Um RB

RB er traust og öflugt þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni sem hefur þróað hinar ýmsu fjármálalausnir, þar á meðal öll megin greiðslukerfi landsins. Helstu viðskiptavinir RB eru fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög. Framtíðarsýn RB er að auka gæði og hagkvæmni fjármálaþjónustu á Íslandi. RB nær því með þróun framsækinna og öruggra lausna og þjónustu sem eru bæði vel samþættar og samnýttar af markaðnum. Hjá RB starfar margt af öflugasta UT-fólki landsins.

RB er framúrskarandi fyrirtæki samkvæmt lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi 2016. Einungis 1,7% fyrirtækja á Íslandi eru á þeim lista.

Eignarhald

Eftirfarandi aðilar eiga RB:

 • Arion banki hf.
 • Borgun hf.
 • Íslandsbanki hf.
 • Landsbankinn hf.
 • Kvika banki hf.
 • Samband íslenskra sparisjóða (SÍSP)
 • Sparisjóðirnir
 • Valitor hf.

Samþykktir

Hér má finna samþykktir RB:

Samþykktir RB

Saga RB

23. mars árið 1973. Pink Floyd hafði nýlega sent frá sér meistarastykkið The Dark Side of the Moon og það voru tæpar tvær vikur í að fyrsta símtalið úr farsíma ætti sér stað. Reiknistofa bankanna var stofnuð sem sameignarfélag á þessum degi og í ársbyrjun 1974 hóf hún starfsemi í húsnæði Búnaðarbanka Íslands við Hlemm. Undirbúningur að stofnun sameiginlegrar tölvuþjónustu fyrir banka hafði þá staðið yfir síðan 1970.

Árið 1975 flutti RB starfsemi sína í húsnæði Útvegsbanka Íslands í Kópavogi og í júlí sama ár hófst vinnsla fyrsta bankaverkefnisins, með tölvuvinnslu ávísana- og hlaupareikninga. Í nóvember 1985 var í Breiðholtsútibúi Landsbankans tekið í notkun afgreiðslukerfi til sjóðsbókunar og sjóðsuppgjörs. Á sama tíma hófust beinlínubókanir sparisjóðsreikninga ásamt skráningu færslna í önnur verkefni RB. Almenn tenging afgreiðslustaða banka og sparisjóða við kerfið hófst svo í janúar 1986.

Í apríl 1986 flutti RB starfsemi sína í húsnæði Seðlabanka Íslands við Kalkofnsveg, en á árunum 1990- 2000 var hluti starfseminnar í Ármúla 13. Í janúar 2011 var Reiknistofu bankanna breytt í hlutafélag. Það var svo í apríl 2013 sem RB flutti í núverandi höfuðstöðvar sínar að Höfðatorgi og er stærstur hluti fyrirtækisins þar undir sama þaki.

Samstarf um RB markaði tímamót þegar það hófst. Aðdragandi að stofnun RB var einkum sívaxandi notkun ávísana í íslensku viðskiptasamfélagi, sem kallaði á störf síaukins fjölda bankamanna við skjalaskipti og bókun. Á sama tíma var tölvutæknin að ryðja sér til rúms erlendis.

Sameiginleg tölvuvinnsla gerði íslenska bankakerfinu kleift að tileinka sér nýjustu tækni þeirra tíma og grunnurinn var lagður að öflugustu og traustustu viðskiptakerfum nútímans.

Ör tækniþróun og aukin þjónusta eigenda RB við viðskiptavini sína hefur mótað fyrirtækið og byggir starfsemi RB á kostnaðarhagkvæmni og rekstraröryggi.

HELSTU TÍMAMÓT:
 • RB stofnuð 23. mars 1973
 • RB flytur í Kópavog 1975
 • Árið 1985 hófst beinlínuvæðing kerfa RB og var AK-kerfið orðið rauntímagreiðslukerfi árið 1987 fyrsta sinnar tegundar í heiminum.  Enn þann dag í dag bjóða einungis 5 þjóðir upp á einhvers konar rauntímagreiðslur en það eru  Ísland, Bretland, Singapoor, Svíþjóð og Danmörk
 • RB flytur starfsemi sína í húsnæði Seðlabanka Íslands 1986
 • Beinni tengingu komið á við erlenda banka 1989
 • RB heldur uppi greiðslumiðlun á Íslandi þrátt fyrir bankahrun 2008
 • RB verður hlutafélag í janúar 2011
 • Ský útnefndi RB sem upplýsingatæknifyrirtæki ársins 2011
 • RB kaupir hluta eigna Teris 2012
 • RB selur rekstur prentþjónustu og umslagaísetningar 2012
 • RB flytur höfuðstöðvar sínar að Höfðatorgi árið 2013
 • RB semur við hugbúnaðarfyrirtækið Sopra Banking Software um endurnýjun helstu grunnkerfa sinna í ársbyrjun 2015

Fréttir, blogg og viðburðir

20.10.2017

Þjóðarhagsmunir og greiðslumiðlun

Dagsdaglega göngum við út frá því sem gefnu að geta nýtt greiðslukortin okkar til að greiða fyrir vöru og þjónustu. Einstaka sinnum koma upp tæknilegir hnökrar sem valda því að ekki sé hægt að nota kortin til að greiða og rata slík tilvik nær alltaf í fjölmiðla, jafnvel þótt atvikið vari í bara nokkrar mínútur og hafi eingöngu áhrif á hluta kortahafa.

Ein af þeim spurningum sem yfirvöld standa fram fyrir, er hvernig hægt sé að tryggja greiðslumiðlun þegar vá steðjar að, í samfélögum þar sem reiðufé hefur verið nærri útrýmt. Ef til viðskiptadeilna kæmi milli tveggja ríkja væri t.d. hægt að loka á virkni greiðslukorta í tilteknu landi ef yfirvöld í Bandaríkjunum settu þrýsting á bandarísku kortasamsteypurnar? Sagan segir okkur að svarið við því er já. Bandarísk stjórnvöld lögðu árið 2014 viðskiptaþvinganir á rússnesk stjórnvöld og fyrirtæki vegna stríðsins í Úkraínu. Einn þáttur í þeim viðskiptaþvingunum var að loka á viðskipti kortasamsteypanna Visa og MasterCard við Bank Rossiya og Sobinbank(1).

En það þarf ekki endilega stjórnvaldaðgerðir til þess smágreiðslumiðlun í landi sé ógnað. Við hrun íslensku bankanna í október 2008 kom til álita hjá erlendu kortasamsteypunum að loka greiðslukortum á Íslandi vegna ótta um að útgefendur kortanna, þ.e. gömlu bankarnir, gætu ekki gert upp við færsluhirða sem þurftu að standa skil á greiðslum til kaupmanna. Sú hótun náði í reynd aðeins til kreditkortanna því debetkortakerfið, sem búið var til hjá RB, var að fullu undir innlendri stjórn þannig að erlendu kortasamsteypurnar gátu ekki gripið til lokunaraðgerða hvað þau varðar hér á landi. Debetkortakerfið frá RB er í raun innlent kortakerfi þó það sé framleitt fyrir erlendu kortasamsteypurnar. Því var hægt að tryggja að debetkortin myndu virka áfram á Íslandi þótt að á tímabili hafi litið út fyrir að lokað yrði á notkun þeirra erlendis.

Seðlabankanum tókst þessa sömu helgi að koma í veg fyrir bæði lokun kreditkorta og tryggja fulla virkni debetkortanna erlendis. Þetta og það að almenningi var tryggður aðgangur að innstæðum sínum gerði það að verkum að innlend greiðslumiðlun hélst virk þrátt fyrir önnur óþægindi og þann fjárhagslega skaða sem af hruninu leiddi. Almenningur gat farið út í búð og keypt vörur og þjónustu. Hefði þessi starfsemi ekki verið til staðar, þá hefðum við mögulega verið að tala um annars konar byltingu en búsáhaldabyltingu.

Öryggi greiðslumiðlunar með tilkomu nýrra greiðslumiðla

Með tilkomu nýrra greiðslumiðla er vert að spyrja sig hvort við verðum eitthvað betur sett hvað varðar öryggi íslenskrar greiðslumiðlunar? Eins og oft er þegar breytingar eiga sér stað að þá er svarið já og nei. Fjölgun greiðslumiðla, t.d. möguleikinn á að nota farsímagreiðslur sem byggja á innlánareikningum banka í stað kreditkorta, eykur rekstrarlegt öryggi í greiðslumiðlun landsins. Þótt að ein greiðslurás rofni að þá er líklegt að hin sé opin og aðgengileg neytendum, enda byggja greiðslurásirnar tvær á aðskildum tæknilegum innviðum.

En ef við horfum til kerfislegu áhættuþáttanna tveggja, sem nefndir voru hér að ofan, að þá yrðu þeir enn til staðar með tilkomu farsímagreiðsluappa. Þeir flytjast í raun einfaldlega frá kortasamsteypunum, þ.e. VISA og MasterCard, til tæknirisanna Google og Apple sem hvor um sig reka gríðarlega mikilvæg markaðstorg fyrir alls konar öpp. Fyrirtækin geta að eigin frumkvæði eða í samræmi við stjórnvaldsaðgerðir stöðvað virkni farsímagreiðsluappa með að minnsta kosti tvennum hætti. Í fyrsta lagi geta félögin fjarlægt öpp greiðsluþjónustuveitanda úr Apple Appstore eða Google Play, og þannig komið í veg fyrir að nýir notendur geti náð í öppin. Í öðru lagi geta þau komið í veg fyrir að öpp virki á farsímum með uppfærslum á stýrikerfum farsímanna. Notandi farsímans þarf hins vegar að samþykkja uppfærsluna áður en hún er framkvæmd. Það að samþykki notandans þurfi til að uppfæra stýrikerfið dregur verulega úr skammtíma áhrifum kerfislegrar áhættu sem gæti skapast vegna deilna við utanaðkomandi stjórnvöld eða við tæknirisana. Svo lengi sem stýrikerfi símans er ekki uppfært eða sjálft greiðsluappið er ekki fjarlægt úr símanum getur neytandinn nýtt símann til að greiða fyrir vöru og þjónustu á Íslandi.(2)

Íslenskt farsímagreiðsluskema eykur öryggi í greiðslumiðlun

Eins og ég hef fjallað um í öðrum pistlum (sjá www.rb.is) munu ný greiðsluþjónustulög, PSD2, opna aðgengi nýrra aðila að innlánareikningum bankanna. Lögin gera ráð fyrir að svo kallaðir greiðsluvirkjendur, megi með samþykki neytenda framkvæma greiðslur beint af innlánareikningi neytandans. Samkvæmt lögunum ber bönkum að veita greiðsluvirkjendum aðgengi að innlánareikningum viðskiptavina bankanna í gegnum opin stöðluð þjónustuskil (e. Open API) án þess að sérstakur samningur sé til staðar á milli bankans og greiðsluvirkjandans og án þess að bankinn geti rukkað greiðsluvirkjandann sérstaklega fyrir þjónustuna. Einnig gerir PSD2 ráð fyrir að til verði samevrópskur markaður í greiðslum. Ef fjármálaeftirlit eins EES ríkis hefur veitt fyrirtæki réttindi sem greiðsluvirkjandi, veitir sú heimild fyrirtækinu rétt til að veita þjónustu hvar sem er innan EES.

Í ljósi þessara breytinga áforma fjölmörg fyrirtæki í heiminum að þróa farsímagreiðsluöpp sem nota þetta beina aðgengi að innlánareikningum neytenda. Fremst á meðal þeirra eru tækni- og netrisar á borð við Amazon Pay, AliPay, PayPal, GooglePay og ApplePay. Ef nýju farsímagreiðslulausnirnar, sem PSD2 opnar dyrnar fyrir, verða í vaxandi mæli erlendar þá skapar það aftur möguleikann á kerfislegri áhættu sem er sambærileg þeirri sem er til staðar við notkun greiðslukorta sem tengjast erlendu kortasamsteypunum. Þannig getur greiðsluapp eingöngu virkað ef til staðar er miðlægur hugbúnaður (þ.e. bakendakerfi) sem tryggir samskipti appsins við POSa, netverslanir, o.fl. Ef lokað er á virkni tiltekinna appa í bakendakerfinu er ekki hægt að greiða með þeim farsímum sem appið er í. Þessi staðreynd opnar aftur á möguleikann fyrir erlend stjórnvöld að beita tækni- og netrisunum fyrir sér við framkvæmd viðskiptaþvinganna.

Þótt að þetta sé allt saman fjarlægur möguleiki í dag að þá hefur þetta verið einn af þeim þáttum, sem hefur legið til grundvallar við þróun sameiginlegra farsímagreiðsluskema bankanna í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Í hverju landi fyrir sig er til eitt sameiginlegt farsímagreiðsluapp, sem byggir á innlánareikningum bankanna í viðkomandi landi. Byggð hafa verið upp sterk vörumerki og fyrirtæki í kringum öppin, sem neytendur og fyrirtæki í viðkomandi landi þekkja og treysta. Einnig hafa verið þróuð skýr greiðsluskema og öflug bakendakerfi sem halda utan um réttindi og skyldur neytenda, bankanna, verslana og tækniþjónustuveitanda í greiðsluferlinu. Loks hefur verið leitast við að tryggja að allar fjármálastofnanir í viðkomandi landi geti opnað á þennan greiðslumáta fyrir sína viðskiptavini óháð því hvort að þeir eru eigendur að fyrirtækinu sem stendur að baki appinu eða ekki.

1) https://www.theatlantic.com/international/archive/2014/04/visa-and-mastercard-russia/361361/2) Ýmsar kenningar hafa sést um það á netinu að Apple og Google geti nýtt sér „bakdyr“ inn í farsíma neytenda í gegnum stýrikerfi símanna til að  safna upplýsingum og jafnvel framkvæma breytingar í símanum. Þótt að slíkar bakdyr hafi verið nýttar til að safna upplýsingum um virkni símanna að þá hafa félögin hafnað því að verið sé að safna persónugreinalegum upplýsingum.  Þau hafa einnig mótmælt því að fullri hörku að þau myndu nokkurn tíman breyta innihaldi eða virkni símana án samþykki notandans.  Slík aðgerð myndi stórskaða traust almennings á vörum fyrirtækisins og hafa afar alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu fyrirtækjanna.

06.10.2017

Aukin samvinna fjármálafyrirtækja

Með tilkomu nýrra laga um greiðsluþjónustu (PSD2) standa hefðbundnir bankar frammi fyrir því að tekjur þeirra af greiðsluþjónustu geti minnkað á sama tíma og þeir eiga það í hættu að fjarlægast viðskiptavini sína með tilkomu nýrra þátttakenda á markaði. Þessir nýju þátttakendur munu geta stillt sér upp sem milliliður á milli banka og hinna endanlegu notenda bankaþjónustunnar. Ef bankar bregðast ekki við gætu þeir smám saman breyst í „geymsluhólf“ fyrir fjármuni sem skapa lítinn virðisauka fyrir viðskiptavini.

Yfir 88% af stjórnendum evrópskra banka telja að PSD2 muni hafa áhrif á rekstur þeirra. Því hafa fölmargir evrópskir bankar ýtt úr vör ýmsum nýsköpunarverkefnum til að undirbúa sig undir PSD2. Um er að ræða nýsköpun sem snertir flest svið bankastarfseminnar, t.d.:

• Aukin samvinna banka á markaði.
• Endurnýjun tæknilegra innviða.
• Þróun nýrra afurða, þjónustu og þjónustuferla.
• Þróa net samstarfsaðila til að skapa aukinn virðisauka fyrir viðskiptavini bankanna.
• Grundvallarbreytingar á hinum hefðbundnu viðskiptamódelum banka.

Í þessum pistli verður eingöngu fjallað um aukna samvinnu banka en í Norður Evrópu hafa á undanförnum árum sprottið fram fjölmörg samstarfsverkefni banka sem hafa það markmið að gera neytendum mögulegt að nýta farsíma til að senda fjármuni sín á milli og til að greiða fyrir vöru og þjónustu í verslunum. Flestar þessara lausna hafa það sameiginlegt að bankar hafa með einum eða öðrum hætti stofnað til samstarfs til að setja upp nýjar greiðslurásir fyrir farsíma sem nýta innlánareikninga neytenda í stað greiðslukorta. Samstarfið hefur einnig náð til þróunar á farsímaforritum, vörumerkjum og reglum sem gilda um réttindi og skyldur banka, neytenda og verslana í greiðsluferlinu sem nýta þessar greiðslurásir.

Swish í Svíþjóð

Í desember 2012 var farsímagreiðslufyrirtækið Swish stofnað af SEB, Danske Bank, Handelsbanken, Länsförsäkringar Bank, Nordea, Swedbank og Sparbankerna. Swish var til að byja með eingöngu notað fyrir greiðslur á milli einstaklinga en í dag nota ríflega 5 milljónir Svía appið til að greiða einnig fyrir vöru og þjónustu í verslunum og netverslunum. Til að virkja þessa greiðsluleið þurfa neytendur eingöngu að nota BankID (sænska útgáfan af Auðkenni) til að skrá sig inn í appið og að velja þann bankareikning sem á að vera tengdur appinu og farsímanúmerinu. Neytendur geta síðan millifært með símanúmerinu einu saman eða greitt í verslunum. Neytendur greiða ekkert fyrir notkun lausnarinnar en verslanir greiða um 1,5-2 SEK (ca 24-30kr) fyrir hverja færslu.

MobilePay í Danmörku

Árið 2012 hófu danskir bankar samstarf um þróun á sameiginlegri farsímagreiðslulausn sem byggði á innlánareikningum. Í árslok sama ár hætti Danske Bank þátttöku í samstarfinu og kynnti, í maí 2013, eigin farsímagreiðslulausn, MobilePay, sem nýtir greiðslurásir kortaskema til að miðla greiðslum. Ákvörðun Danske Bank að byggja sína eigin lausn á kortakerfinu og að markaðssetja hana undir merkjum MobilePay reyndist farsæl enda tókst þeim þannig að vera fyrstir á markað. MobilePay náð hratt mikilli útbreiðslu jafnt hjá viðskiptavinum Danske Bank sem og hjá viðskiptavinum annarra banka þar sem hægt var að tengja appið við greiðslukort frá hvaða banka sem var í Danmörku. Í dag er MobilePay með 3,6 milljónir notenda.

Þrátt fyrir útgáfuna á MobilePay þá héldu hinir dönsku bankarnir sínu striki og kynntu sína útgáfu af greiðslulausn í júní 2013. Um var að ræða tæknilega greiðslurás sem hver og einn banki gat tengt við sitt app. Þessi greiðslulausn náði aldrei flugi enda ruglaði það neytendur í ríminu að hún skyldi markaðssett undir mismunandi merkjum yfir 70 banka. Einnig gekk hægt og erfiðlega að samþætta lausnina inn í öpp bankanna.

Í ljósi þessa afleita árangurs stofnuðu samkeppnisaðilar Danske Bank, Swipp í ágúst 2014, sjálfstætt vörumerki og app sem neytendur gátu sótt í AppStore og Google Play. Swipp appið varð loks aðgengilegt í ágúst 2015, en þá var á brattann að sækja í samkeppninni við MobilePay sem var komið með yfirburðar stöðu á markaðnum með hátt í þriðja milljón notenda. Swipp gekk hins vegar ágætlega í markaðssókn sinni. Í október 2016 var Swipp komið með 1 milljón notenda og um 28 þúsund verslanir tóku við Swipp greiðslum sem voru álíka margar verslanir og MobilePay hafði náð í viðskipti á þremur árum.

Það sem keyrði vinsældir Swipp áfram var að lausnin var mun hagkvæmari greiðslumáti fyrir verslanir en MobilePay. Einnig tryggði Swipp verslunum rauntímaaðgengi að fjármunum og hægt var að greiða með farsímanum á hefðbundnum POSa. MobilePay kallaði hins vegar á að settur væri upp viðbótarbúnaður í verslunum svo kassarnir gætu tekið á móti greiðslum og það sem meira var þá byggði MobilePay á kortakerfinu þannig að verslunareigendur fengu ekki strax aðgengi að greiðslunum.

Í október 2016 ákváðu Danske Bank og Nordea að slíðra sverðin með samningi sem fól í sér að MobilePay yrði sett í sér fyrirtæki og að Nordea myndi flytja sína notendur frá Swipp til MobilePay. Í framhaldinu var samstarfinu um Swipp sjálfhætt, enda eru þessir tveir bankar með um 70% markaðshlutdeild á viðskiptabankamarkaði í Danmörku og hafa nú allir bankar í Danmörku flutt sig til MobilePay.

Ástæða þess að bankarnir í Danmörku ákváðu að sameinast um eina lausn var að þeir stóðu frammi fyrir því að geta barist sín á milli um danska neytendur næstu tvö árin eða að hefja samvinnu til að undirbúa sig undir aukna samkeppni við tæknirisana Apple, Google, Amazon, í kjölfar innleiðingu á PDS2 löggjöfinni. MobilePay varð einfaldlega fyrir valinu þar sem það var mun sterkara vörumerki en Swipp. Hins vegar þurfti MobilePay að skuldabinda sig samhliða breytingunni til þess að flytja MobilePay appið af greiðslurásum kortaskemanna yfir á nýjar og hagkvæmari greiðslurásir sem myndu byggja á innlánareikningum bankanna, þ.e.a.s. lausn sem væri í raun sambærileg Swipp lausninni.

Vipps í Noregi

Í framhaldi af samkomulagi danskra banka um að nota MobilePay, hófu norskir bankar að ræða saman um möguleikann á því að sameinast um eina farsímagreiðslulausn sem myndi byggja á innlánakerfum bankanna. Í febrúar 2017 var tilkynnt að þeir hyggðust sameinast um að nota lausn DnB bankans, Vipps, og að hún yrði sett í sér fyrirtæki og að bankarnir yrðu allir eignaraðilar að fyrirtækinu. Vipps var ein af mörgum norskum lausnum sem var í notkun fyrir þessa ákvörðun, en Vipps hafði náð mestri útbreiðslu af þeim lausnum sem voru í boði. Í samtali við norska blaðamenn sagði Rune Bjerke forstjóri DnB að megin ástæða fyrir samkomulaginu væru fyrirsjáanlegar breytingarnar sem PSD2 myndi hafa á greiðslumarkaðnum á næstu árum. Til að mæta alþjóðlegri samkeppni þyrftu norskir bankar að vinna saman að því að búa til innviði fyrir farsímagreiðslur sem neytendur treystu.

Samvinna banka yfir landamæri

Samvinna banka vegna breytinga sem munu fylgja PSD2 er ekki takmörkuð við Norðurlöndin. Þannig hafa hollenskir og belgískir bankar sameinað krafta sína og eru þessa dagana að þróa lausn, Payconiq, sem verður hægt að nota jöfnum höndum í báðum löndunum. Þetta er fyrsta dæmið um farsímagreiðslulausn, sem mér er kunnugt um, sem verður hægt að nota til að greiða í fleiri en einu landi.

Líklegt verður að telja að þróunin verði sambærileg í öðrum ríkjum innan EES og að smám saman verði til alþjóðleg farsímagreiðslulausn sem tryggir að hægt verði að senda peninga á milli einstaklinga og hægt verði að greiða með símanum fyrir vöru og þjónustu á POSa. Lykillinn að því er einhvers konar evrópskur samskráningargrunnur þar sem farsímanúmer er tengt við innlánareikning neytanda, sem tryggir að neytandi geti tekið á móti greiðslum frá þriðja aðila eða borgað fyrir vöru og þjónustu nærri því hvar sem er innan EES.

Íslenskur samkeppnisréttur sækir um margt fyrirmynd til samkeppnisreglna Evrópusambandsins. Meðal þess sem þó greinir á milli er að í samkeppnisrétti annarra landa er víða ekki að finna ákvæði um að samkeppnisaðilar, t.d. á Norðurlöndunum, þurfi ekki sækja um samþykki samkeppnisyfirvalda fyrir samstarfi á markaði, heldur er það sett á þeirra herðar að tryggja að samstarfið uppfylli skilyrði slíks samstarfs. Þannig er það t.a.m. á ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra að tryggja að ávinningur neytanda sé verulegur af slíku samstarfi og að samstarfið skaði ekki samkeppni. Íslensk samkeppnislög gera hins vegar ráð fyrir því að sótt sé fyrirfram um undanþágu fyrir samstarfi frá ákvæðum samkeppnislaga um samvinnu fyrirtækja og samtaka fyrirtækja. Slíkt ferli getur verið tímafrekt sem leiðir til þess að hugmyndir sem gætu skapað ávinning fyrir íslensk fyrirtæki og neytendur komast aldrei í umræðu, hvað þá þróun, og verða því aldrei að veruleika.

Myndbönd úr starfseminni

 • Gildin okkar: Fagmennska - Öryggi - Ástríða (02:54)

 • Framtíðin í upplýsingatækni fjármálafyrirtækja 2.0 (02:05)

 • Starfsdagur RB 31. janúar 2015 (00:39)

 • RB á Framadögum 2015 í HR (01:34)

 • RB á UT messunni 2015 (01:25)

 • RB Classic 2015 (04:27)

 • RB Classic 2014 (03:50)

 • Hugvekja um nýsköpun í fjármálastarfsemi - morgunverðarfundur 14. apríl 2016 (01:03:53)

Stefna RB

Hlutverk RB er að auka hagkvæmni í tæknirekstri íslenskra fjármálafyrirtækja

Skoða nánar