Blogg

Viltu upplifa?

Viltu upplifa?
19.06.2014

Fyrir rúmri viku var ég „plötuð" til að vera driver fyrir  samstarfsfélaga mína sem höfðu skráð sig til leiks í Blue Lagoon Challenge. Mitt hlutverk var einungis að sækja þá í Bláa lónið þar sem endamark keppninnar var. Ég hef aldrei tekið þátt í hjólakeppni, rekin áfram af forvitni sló ég til. Vikuna fyrir hlustaði ég á umræður þeirra félaga í liðinu RBz; hvaða tíma þeir ætluðu að ná, hvort létta ætti hjólið, hvernig þeir ætluðu klæddir, hvað ætti að innbyrða á leiðinni, hvernig veðrið yrði, hvenær ég ætti að koma að sækja þá o.s.frv.

Ég fann stemninguna magnast, fór að skoða blogg, umræðuþræði og myndir af fyrri keppnum. Svo rann keppnisdagur upp bjartur og fagur. Ég lýg því ekki að ég var örlítið spennt, sólin hátt á lofti, hægur vindur og einhver kátína í loftinu.  Ég heyrði í nokkrum sem voru á leið að keppa - allir voru þeir fullir tilhlökkunar.

Ég ákvað að vera snemma á ferðinni, jafnvel ná að fylgjast með fyrstu mönnum "renna" í mark. Ég mætti þegar keppnin hafði staðið í rúman einn og hálfan tíma. Ég kom mér svo vel fyrir í hrauninu til að fylgjast með fyrstu mönnum. Ég vissi í raun ekkert við hverju væri að búast en það er ekki ofsögum sagt að þeir hafi flogið í mark - þvílíkur hraði, þvílík orka. Ég fagnaði !

Því lengra sem leið á keppnina því nær færðist ég endamarkinu; gat bara ekki setið kyrr - fagnaði hverjum keppanda eins og hann væri minn nánasti vinur; ég flautaði, klappaði og kallaði hvatningarorð.

Svo sá ég appelsínugulu þrumuna nálgast, fyrsti RB-ingurinn að detta í mark. Ég hljóp til, fékk knús og náði einni (sveittri) mynd. Frábær tími og keppandi ánægður með árangurinn (auðvitað).

Það var smá bið eftir næsta RB-ingi en fyrstu stelpurnar voru að koma í mark á fullu gasi. Keppnisskapið mitt byrjaði að gera vart við sig, ég fékk fiðring í fingur og tær. Það er svo mikilvægt að hafa fyrirmyndir. Mig langaði að vera jafn góð og þær.

RB 2, 3 og 4 komu allir í mark á mögnuðum tíma og ég var ótrúlega stolt, þó ég hafi ekkert komið nálægt þeirra magnaða afreki.

Ég stóð með þeim, stoltum, við veitingatjaldið; fékk að halda við hjól og á hjálmum (eins og góðu lukkudýri sæmir) og þar kom ákvörðun; þetta ætla ég að gera. Ég ætla að taka þátt í svona móti!

Á mánudaginn skráði ég mig svo til leiks í RB- Classic (65 km kringum Þingvallavatn), ég hef rúma tvo mánuði til stefnu og þeir sem þekkja mig vita að í  dag kæmist ég líklega ekki þennan hring á lífi.

En markið er sett "hátt" - ég skal komast þessa 65 km á undir 4 tímum. Fyrir mörg ykkar yrði það skammarlegt en fyrir mig yrði það sigur - aðallega samt að þora að taka þátt. Það er sigur!

Ég vonast til að sjá ykkur sem flest, þótt þið eigið ekki spandex galla né 500.000 kr hjól. Komið og verið með - þótt það sé ekki nema til að skapa góðar minningar með samstarfsfélögum ykkar.

Taktu þátt; upplifðu !

Guðrún Jóna Jónsdóttir tæknistjóri prófana í Hugbúnarþróun hjá RB