Blogg

Þróun á nýju kerfi er langhlaup

Þróun á nýju kerfi er langhlaup
28.09.2015

Undanfarna mánuði hef ég ásamt vinnufélögum mínum og samstarfsaðilum unnið að því að þróa stórt tölvukerfi, sem taka á við mörgum af mikilvægustu verkefnum fjármálakerfisins á Íslandi. Stundum gengur allt eins og í sögu, allir eru glaðir í bragði og vissir um góðan árangur. Stundum er svo eins og allt gangi á afturfótunum.  „Hinir“ eru allir að gera eitthvað vitlaust og trúin á að við munum ljúka verkefninu á réttum tíma brestur.

Langhlaup eru áhugamál mitt, og þetta verkefni og önnur stór sem ég hef unnið við, minna mig einmitt á hvernig mér líður þegar ég er að æfa fyrir og taka þátt í stóru verkefni  eins og  t.d. maraþoni.

Í upphafi þegar búið er velja maraþon til að taka þátt í ásamt hlaupafélögunum er maður fullur af baráttuanda.  Þetta verður hraðasta og besta hlaup sem ég hef tekið þátt í!  Í þetta skipti mun æfingatímabilið ganga snurðulaust fyrir sig og ekkert koma uppá!

Það kemur alltaf eitthvað uppá!

Síðan hefjast æfingar.  Þær ganga venjulega mjög vel til að byrja með en síðan eykst æfingaálagið og þreyta og meiðsli fara að segja til sín.  „Þetta á eftir að verða ömurlegt“ hugsar maður, „ég á aldrei eftir að komast í mark“.

En þá tekur einhver þrjóska völdin.  Við erum ekki búin að leggja á okkur allt þetta erfiði til að gefast upp á síðustu vikunum fyrir hlaupið.  Einlægur áhugi og metnaður fyrir því að standa sig vel drífur okkur áfram þegar á móti blæs og aldrei hvarflar að okkur að sleppa æfingu eða stytta sér leið að markinu.

Í verkefnum sem taka langan tíma koma alltaf upp stundir þegar illa gengur.  En þá er það þessi innri hvatning starfsmannanna sjálfra sem drífur okkur áfram og skilar okkur þangað sem við viljum komast.  Það eru vinnufélagarnir sem styðja hvern annan og ganga í öll verk þegar dregur að lokum stórra verkefna, rétt eins og æfingafélagarnir hjálpa okkur og gera æfingatímabilið að skemmtilegasta hluta þess að fara í maraþon.  Það er eitthvað svo frábært við það þegar allir stefna í sömu átt!

Einlæg gleði

Maraþonið sjálft er svo eins og smækkuð mynd af æfingatímabilinu.  Við stöndum á marklínunni full eldmóðs og með glæstar vonir um gott hlaup og jafnvel nýtt persónulegt met.

Yfirleitt gengur hlaupið vel framanaf en þegar líður á þyngist róðurinn og við þurfum á öllum okkar viljastyrk  að halda.  En við erum ekki búin að leggja á okkur alla þessa vinnu og æfa vikum saman til þess að gefast upp, þótt fætur séu þreyttir og kraftar á þrotum.   Þeir sem hafa hlaupið mörg maraþon vita að á langri leið eru alltaf erfiðir hjallar sem þarf að yfirstíga.  En við tökumst á við þær áskoranir sem hlaupið leggur fyrir okkur og með baráttuanda komumst við á leiðarenda.

Þegar við nálgumst marklínuna, sjáum að við munum ná að gera það sem við höfðum einsett okkur, og vitum að við munum uppskera árangur erfiðis okkar...  þá færist ánægjubros yfir sem seint þurrkast út.

Tilfinningin að komast í mark er engu lík.  Hún er virði allra vinnustundanna sem fóru í að koma okkur þangað.  Og þótt ótrúlegt sé er fyrsta hugsunin gjarnan:  Þetta ætla ég að gera aftur!

Guðmundur Kristinsson tölvunarfræðingur í Hugbúnaðarþróun RB