Fréttir

Öflugur hópur kvenna hjá RB

Öflugur hópur kvenna hjá RB
01.02.2018

RB er stolt af því að vera einn af velunnurum FKA og styðja þannig við konur í atvinnulífinu. í tilefni af FKA hátíðnni 2018 ákváðum við að vera með í kynningarblaði um konur í atvinnulífinu sem kom út 1. febrúar 2018.

___________________

Reiknistofa bankanna er að sönnu dæmigert upplýsingatæknifyrirtæki nema hvað að í áranna rás hefur hlutfall kvenna í starfsmannahópnum verið óvenjuhátt miðað við önnur fyrirtæki í sama geira. Að einhverju leyti má rekja þessa staðreynd til sögulegra skýringa en einnig hafa stjórnendur RB lagt sig í líma við að halda hlutfallinu háu, enda talið æskilegt. Í dag eru 35% starfsmanna RB konur sem er með því hæsta sem gerist hér á landi hjá upplýsingatæknifyrirtæki. Hlutfall kvenna í stjórnenda- og lykilstöðum er enn hærra, eða 53%. 

„RB er eitt fárra hlutafélaga sem er með fleiri konur en karla í stjórn, sem er sérlega gleðilegt þar sem rannsóknir sýna að það bætir gjarnan stjórnarhætti fyrirtækja, en fyrir okkur snýst þetta þó alltaf um að leyfa fólki að njóta sín og sinna styrkleika, óháð kyni.

Herdís Pála Pálsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og markaðsstjórnar, bendir á að Reiknistofa bankanna sé rótgróið fyrirtæki, stofnað árið 1973, og á fyrstu árunum hafi bæði verið ráðið inn starfsfólk með bakgrunn í tækni en einnig bakgrunn í bankaumhverfi. „Þá voru það gjarnan konur sem fengnar voru til starfa enda þekktu þær einna best framendann í bönkunum, en RB hefur frá upphafi þróað og rekið sameiginlegt grunnkerfi bankanna,“segir Herdís. „En á síðustu árum, á tímum mikilla breytinga hjá fyrirtækinu þá höfum við lagt okkur fram við að passa hlutfallið og erum meðvituð um það þó það sé ekki alltaf auðvelt í þeim bransa sem við erum. Sér í lagi er það áskorun að hækka hlutfall kvenna í tæknirekstri þar sem afar fáar konur sinna rekstrarþáttum kerfanna. Við myndum gjarnan vilja sjá aukna þátttöku kvenna þar en að sjálfsögðu líka við forritun.

Jafnrétti mikilvægasta samfélagsmálið

Þrátt fyrir að stjórnendur RB leggi áherslu á hlut kvenna er ekki þar með sagt að konum sé lyft hærra en körlum. „Nei, við höfum jafnrétti og sveigjanleika að leiðarljósi. Við höfum til dæmis verið að vinna að útskiptingu grunnkerfa hjá Landsbankanum og Íslandsbanka undanfarið. Verkefnið er eitt stærsta upplýsingatækniverkefni sem farið hefur verið í á Íslandi. Það hafa komið miklir álagstoppar og lengjast þá gjarnan vinnudagar starfsfólks. Við komum þá til móts við fjölskyldufók með því móti að öll fjölskyldan getur komið í mat, án þess að það kosti starfsfólk
aukalega,“ segir Herdís. Það eru þá ýmist konurnar eða mennirnir sem koma , einir eða með börnin, til að hitta makann sem er fastur í vinnunni.“

Jafnréttismál eru ekki eingöngu ofarlega á baugi hjá stjórnendum RB því nýverið var lögð könnun fyrir starfsfólk, vegna vinnu við s amfélagsstefnu fyrirtækisins, þar sem meðal annars var spurt út í það hvað því þætti mikilvægasta samfélagsmálið. Þar sögðu flestir að jafnréttismál væru mikilvægasta samfélagsmálið. „Af því tilefni fletti ég upp í niðurstöðum kannana sem við leggjum árlega fyrir og varða alls kyns þætti í starfseminni. Starfsfólk var beðið um að meta hvort það nyti jafnra tækifæra á vinnustaðnum óháð kyni og skoraði RB 4,38 á kvarðanum 1 til 5. Það er afskaplega gleðilegt að starfsfólk telji sig njóta jafnréttis á sama tíma og það telur jafnréttismál mikilvægasta samfélagsmálið. Það hlýtur að merkja að við erum á réttri  leið.“

Kynjamunur í raungreinum minnkar

Reiknistofa bankanna ætlar sér ekki eingöngu langt í jafnrétti á vinnustaðnum heldur hefur fyrirtækið háleit markmið til framtíðar við jöfnun kynjanna í tölvu- og tæknistörfum.

RB var stofnaðili að Forriturum framtíðarinnar, samfélagsverkefni sem miðar að því að efla forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins. „Við trúum því að með stuðningi við verkefnið muni konum í tæknigeiranum fjölga til lengri tíma litið. Til þess þarf að byrja að kenna forritun strax í grunnskólum og við erum stolt af því að leggja okkar af mörkum.“

Þrátt fyrir að verkefnið hafi ekki staðið yfir ýkja lengi hafa engu að síður komið fram vísbendingar um góðan árangur. „Við heyrum innan úr skólunum að bæði er orðið auðveldara að kenna forritun en einnig að með því að hefja kennsluna fyrr sjáist merki þess að kynjamunur í raungreinum fari minnkandi. Tíminn mun leiða betur í ljós hver áhrifin verða envið vonum að verkefnið sé að hafa jákvæð áhrif.

Þetta segir Herdís sérstaklega gleðilegt því ör tækniþróun geri það að verkum að sífellt sé mikilvægara að skilja forritun, hvort sem ætlunin sé að vinna við hana eða ekki. „Og við erum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að gera unga fólkinu þetta kleift, óháð kyni.“

RB hefur einnig tekið þátt í Stelpur og Tækni sem skipulagt er af Háskólanum í Reykjavík og er einnig einn af velunnurum FKA. „Þetta snýst um viðhorf og að byggja upp snertifleti þannig að fyrirtæki geti haft jákvæð áhrif í gegnum ólík verkefni. Þannig að við erum ekki bara að hugsa um
jöfnun kynjahlutfalla í tækni innandyra hjá okkur heldur reynum að leggja okkar að mörkum þar sem við getum haft áhrif.“


MYND/EYÞÓR

FKA Fbl.pdf