Blogg

Fjármálamarkaðurinn fyrir og eftir ný lög um greiðsluþjónustu (copy)

Fjármálamarkaðurinn fyrir og eftir ný lög um greiðsluþjónustu (copy)

Friðrik Þór Snorrason

RB: Forstjóri

06.09.2017

Ný samevrópsk löggjöf um greiðsluþjónustu, PSD2, mun hafa mikil áhrif á fjármálafyrirtæki, verslanir og neytendur. Fjallað var um löggjöfina í öðrum pistli (sjá hér) en markmiðið með þessum pistli er að skoða hin praktísku áhrif sem löggjöfin mun hafa á markaðinn með tveimur dæmum.

Nýjar greiðslurásir

Í dag eru greiðslukort, debet- eða kreditkort, mest notuðu greiðslumiðlarnir í Evrópu og á Íslandi. Innleiðing þeirra hér á landi á níunda og tíunda áratug síðustu aldar var í raun bylting í greiðslumiðlun sem jók öryggi, skilvirkni og þægindi fyrir neytendur og fyrirtæki. Á liðnum árum hefur gætt nokkurar gagnrýni á notkun greiðslukorta fyrst og fremst vegna hás kostnaðar við notkun þeirra en ennfremur hafa smásalar gagnrýnt uppgjörstíma. Kostnaðurinn við notkun greiðslukorta er að hluta til tilkominn vegna þess að margir aðilar koma að hverri færslu. Í hvert sinn sem neytandinn borgar með greiðslukorti í verslun er send færslubeiðni í gegnum færsluhirði (t.d. Borgun, Kortaþjónustuna eða Valitor), sem er með samning við kortaskema (t.d. Visa eða MasterCard), sem hefur samband við bankann sem gaf út kortið til að fá staðfestingu á að heimild sé til staðar. Ef neytandinn á til næga fjármuni er færslan heimiluð og greiðsla send til færsluhirðisins, sem gerir svo upp við kaupmanninn.

Á undanförnum tveimur árum hafa ýmsar nýjar farsímagreiðslulausnir sprottið fram á sjónarsviðið á Íslandi. Hingað til hafa þær lausnir byggt á undirliggjandi kortakerfum og hafa í raun fyrst og fremst teygt hefðbundna virkni greiðslukorta yfir í farsíma til að framkvæma millifærslu á milli einstaklinga. Í tilteknum tilfellum hefur verið hægt að nota farsímann til að greiða kaupmanni beint, en það er einungis mögulegt ef viðkomandi kaupmaður er með þar tilgerðan viðbótarbúnað til að taka á móti færslunni.

Með tilkomu PSD2 löggjafarinnar munu ný tækifæri opnast fyrir smágreiðslumiðlun sem eru mjög frábrugðnar þeim greiðslurásum sem greiðslukortin styðjast við. Þannig gæti banki þróað sitt eigið greiðsluapp, sem væri beintengt innlánareikningi neytandans og hægt væri að nota til að greiða með í verslun á hefðbundnum posa. Þegar slík færsla væri send væri engin þörf á að senda færsluna í gegnum færsluhirði eða kortaskemun og því að ætti þessi greiðslurás að vera hagkvæmari. Í raun gæti verslunin sjálf verið greiðsluvirkjandinn og gefið út sitt eigið greiðsluapp. Viðskiptavinir verslunarinnar myndu þá ná í smáforritið hjá Apple eða Google og tengja það við innlánareikning hjá sínum banka. Að loknu einföldu skráningarferli gæti svo neytandinn notað app verslunarinnar til að greiða með. Ávinningur verslunarinnar væri bætt viðskiptasamband við neytandann og skilvirkt rauntímaaðgengi að greiðslunum. Ávinningur neytandans væri sá að hann þyrfti eingöngu símann til að greiða í verslun, nægði að vita símanúmer móttakandans til að senda greiðslur en til viðbótar hefði hann alltaf aðgengi að raunstöðu reikninga. Einnig er líklegt að greiðsluvirkjandi muni bjóði viðskiptavinum sínum að fá löggilda kassakvittun með hverri færslu, en það væri þjónusta sem mikill ávinningur væri af fyrir viðskiptavini. Það er jafnframt líklegt að neytendur muni hafa aðgengi að sértilboðum í símanum eftir því hvar þeir eru staddir.

Heildarmynd á fjármálin

Rýnum þá í hitt dæmið. Í dag eru flestir Íslendingar í viðskiptum við fleiri en eina fjármálastofnun. Til að fá heildarmynd á sín fjármál þarf einstaklingur, sem er t.a.m. í viðskiptum við tvo banka, að opna netbanka beggja banka til að fá upplýsingar um fjárhagsstöðu sína.

Eftir að PSD2 löggjöfin hefur verið innleidd mun líf neytandans einfaldast. Sprotafyrirtæki, sem hefur aflað sér réttinda sem upplýsingaþjónustuveitandi, gæti þá búið til nýjan netbanka eða app þar sem einstaklingar gætu safnað öllum sínum fjárhagsupplýsingum og fengið betri yfirsýn yfir fjárhagsstöðu sína og kostnað við fjármálaþjónustu.

Það er nokkuð ljóst að nýi netbanki sprotafyrirtækisins mun ekki einungis birta heildarmynd yfir fjármál einstaklingsins, heldur má gera ráð fyrir því að í nýja netbankanum bjóðist einstaklingnum einnig upp á ýmsa virðisaukandi þjónusta, svo sem fjárhagsspár, greiðslumat, áhugaverðar sparnaðarleiðir frá þriðja aðila, o.s.frv. Einstaklingurinn gæti síðan nýtt greiðslumatið til þess að afla sér láns frá lífeyrissjóði eða öðru fjármálafyrirtæki. Ef sprotafyrirtækið aflar sér einnig réttinda sem greiðsluvirkjandi þá mun einstaklingurinn einnig geta framkvæmt millifærslur í nýja netbankanum og hefði því sára litla ástæðu til að nota netbanka bankanna. Hættan fyrir hefðbundna banka er því að fjarlægð þeirra frá viðskiptavininum muni aukast og að nýr ótengdur aðili muni í raun stýra viðskiptasambandi þeirra við neytendur.

Í slíkri samkeppni gætu bankar einnig nýtt sér PSD2 og aflað sér réttinda sem upplýsingaþjónustuveitandi eða greiðsluvirkjandi. Banki sem hefur aflað samþykki einstaklings fyrir því að safna saman fjárhagsupplýsingum hans, gæti því einnig búið til þessa heildarsýn fyrir sína viðskiptavini og eflt þannig þjónustu og samskipti við viðskiptavini sem gæti jafnframt leitt til nýsköpunar og framþróunar hjá þeim. Góður netbanki eða fjárhagsapp skiptir því sköpum fyrir samkeppnishæfni banka til framtíðar. Nýir þátttakendur munu hins vegar geta markaðssett sig sem óháðan ráðgjafa og markað sér ákveðna sérstöðu frá hefðbundnum bönkum.

Í næsta pistli verður fjallað um hvaða fyrirtæki eru líkleg til að nota PSD2 tilskipunina sem stökkpall inn á fjármálamarkaðinn.