Blogg

Er forritun jafn mikilvæg fyrir krakkana okkar og íslenska eða stærðfræði?

Er forritun jafn mikilvæg fyrir krakkana okkar og íslenska eða stærðfræði?
22.05.2014

Þegar stórt er spurt er fátt um svör enda ekkert eitt rétt svar til við þessari spurningu og skoðanirnar á þessu örugglega jafn margar og einstaklingarnir sem þær hafa.  Í aðalnámskrá grunnskóla má finna þessi fög auk ensku, dönsku, íþrótta, listgreina, náttúrugreina, samfélagsgreina o.fl. Allt góð, gild og mikilvæg fög og ekkert út á þau að setja.  Upplýsinga- og tæknimenntun má líka finna á námskránni en fær töluvert minni sess en fyrrnefnd fög í henni.

Ég er svosem enginn sérfræðingur í mennta- eða námsskrármálum og ætla alls ekki að gefa mig út fyrir að vera slíkur.  Byggt á minni tilfinningu og störfum sem stjórnarmaður í Forriturum framtíðarinnar þá er ég hins vegar á þeirri skoðun að tölvukennsla í grunn- og framhaldsskólum landsins sé almennt ekki ásættanleg.  Ég veit líka að skólarnir og kennarar hafa mikinn áhuga á gera vel í þessum efnum.  Margir skólar hafa til dæmis sýnt mikið frumkvæði og sett forritun á sína skólanámskrá og staðið sig gífurlega vel við að innleiða og tileinka sér nýjar aðferðir við tæknikennslu.

Hvar liggur vandamálið eða lausnin?

Mér finnst alltaf leiðinlegt að tala um vandamál en eins og einhver sagði þá eru ekki til nein vandamál heldur einungis lausnir. Lausnin liggur að mínu mati að stærstum hluta í umgjörðinni og þá einna helst í stefnumörkun stjórnvalda og atvinnulífs. Svara þarf og taka skýra afstöðu til spurninga eins og „Er menntun á Íslandi í takt við tækniþróun?", „Er menntakerfið að anna eftirspurn atvinnulífsins hvað varðar tæknimenntað fólk?" og „Hvert verður samkeppnisforskort þjóða til lengri tíma litið?".  Að mínu mati eru þetta lykilspurningar fyrir menntakerfið okkar og að mörgu leiti þjóðfélagið í heild og nauðsynlegt að svara þeim sem allra fyrst.  Því fyrr sem við tökum skýra afstöðu, gerum aðgerðaráætlun og framkvæmum þeim mun betur stödd verðum við til lengri tíma.

Er menntun á Íslandi í takt við tækniþróun?

Þessari spurningu myndi ég svara með einu stóru „Nei-i".  Að vissu leiti má segja að hún sé í takt við tækniþróun að því leiti að nemendur nýta sér þau tól og tæki sem í boði eru hverju sinni við nám sitt s.s. forrit, fartölvur, spjaldtölvur o.fl.  Krakkarnir eru oftast mjög góð í að nota tækin og tæknina en gera minna að því að vinna og skapa út frá tækninni.  Kafa aðeins undir húddið og vita hvernig þetta virkar allt saman.  Ekki eru margir kostir í boði hvað varðar forritun í grunn- og framhaldsskólum.  Tækjakostur skólanna er ekki góður og dæmi um að skólar séu með rúmlega 7 ára gamlar tölvur í notkun við kennslu.

Er menntakerfið að anna eftirspurn atvinnulífsins hvað varðar tæknimenntað fólk?

Upplýsingatæknigeirinn vex hratt og má segja að fáar atvinnugreinar geti í dag þrifist án tækni.  Ísland stendur frammi fyrir skorti á tæknimenntuðu fólki í landinu en samkvæmt skýrslu starfshóps á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtaka iðnaðarins   útskrifast um 500 manns á ári af raungreina- og tæknisviðum Háskóla landsins á meðan þörfin er um 1.000 manns. Þannig að segja má að háskólar landsins anni um það bil 50% eftirspurnar atvinnulífsins.  Á næstu árum er því þörf fyrir að minnsta kosti 100% aukningu á þessu sviði til þess að brúa bilið.

Hvert verður samkeppnisforskort þjóða til lengri tíma litið?

Að mínu mati munu þær þjóðir hafa forskot sem standa sig best í tækni.  Til þess að ná því þarf að undirbúa jarðveginn vel og sá á réttu staðina.  Smæð Íslands veitir okkur ákveðið forskot hvað þetta varðar.  Það er auðveldara að innleiða forritun í lítið skólakerfi eins og á Íslandi heldur en í stór kerfi þar sem nemendur skipta jafnvel milljónum.  Þarna er tækifæri sem við eigum klárlega að nýta okkur.  Ímyndið ykkur ef krakkarnir okkar myndu læra forritun rétt eins og þau læra stærðfræði eða ensku. Ímyndið ykkur alla þá þekkingu og færni sem myndi skila sér í háskólana og atvinnulífið, hvaða áhrif þetta hefði á nýsköpun og nýja atvinnustarfssemi.  Eins og við vitum þá eru fáir hlutir til í dag þar sem upplýsingatækni kemur ekkert við sögu, jafnvel bóndi mjólkar með „róbót".

Hvað getum við gert?

Gífurlega mikið er hægt að gera en ekki er hægt að setja alla ábyrgðina á stjórnvöld ein og sér.  MIKLU MIKLU meira þarf til.  Atvinnulífið gegnir þar lykilhlutverki.  Að sjálfsögðu þurfa stjórnvöld að hafa sitt á hreinu bæði hvaða varðar stefnu, aðgerðir og fjármagn.  Sama má segja um atvinnulífið. Fyrirtæki og stofnanir á vegum atvinnulífsins geta tekið höndum saman og lagt skólum til fjárframlög, tækjabúnað, þekkingu og ráðgjöf.  Atvinnulífið ber ekki minni ábyrgð á að menntun sé í takt við tækniþróun og eftirspurn atvinnulífsins en stjórnvöld.  Þetta er í rauninni eitt stórt samfélagsverkefni þar sem allir verða að leggja hönd á plóginn.  Ég veit, klisjukennd setning, en engu að síður sönn.

Ýmsar leiðir eru færar og hefur þegar verið stofnaður sjóður sem heitir Forritarar framtíðarinnar sem hefur það markmið að efla tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins.  Ég nýt þeirra forréttinda að hafa komið að stofnun sjóðsins og sitja í stjórn hans.  Þarna koma saman alls konar fyrirtæki úr atvinnulífinu (www.forritarar.is) og leggja sitt af mörkum til eflingar tæknimenntunar.  Grunn- og framhaldsskólar sem og sveitarfélög geta sótt um styrk úr sjóðnum og hefur þegar verið úthlutað einu sinni úr sjóðnum til fjögurra skóla fyrir á fjórðu milljón króna.  Mennta- og menningarmálaráðuneytið er einnig komið inn sem bakhjarl og er það gott dæmi um það hvernig einkaframtakið og hið opinbera geta unnið saman.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að forritun er ekki eina tæknimenntunin sem skiptir máli og margt annað sem skiptir miklu máli.  Má þar nefna fræðsla fyrir börnin okkar um öryggi á netinu og hvernig á að umgangast netið.  Forritun eða innsýn í forritun nýtist engu að síður öllum í framtíðinni ekki ólíkt því t.d. að hafa lært ensku.  Forritun er heldur ekki fyrir alla en það er stærðfræði ekki heldur.

Guðmundur Tómas Axelsson markaðsstjóri RB