Fréttir

Aukin samvinna fjármálafyrirtækja

Aukin samvinna fjármálafyrirtækja

Friðrik Þór Snorrason forstjóri RB

06.10.2017

Með tilkomu nýrra laga um greiðsluþjónustu (PSD2) standa hefðbundnir bankar frammi fyrir því að tekjur þeirra af greiðsluþjónustu geti minnkað á sama tíma og þeir eiga það í hættu að fjarlægast viðskiptavini sína með tilkomu nýrra þátttakenda á markaði. Þessir nýju þátttakendur munu geta stillt sér upp sem milliliður á milli banka og hinna endanlegu notenda bankaþjónustunnar. Ef bankar bregðast ekki við gætu þeir smám saman breyst í „geymsluhólf“ fyrir fjármuni sem skapa lítinn virðisauka fyrir viðskiptavini.

Yfir 88% af stjórnendum evrópskra banka telja að PSD2 muni hafa áhrif á rekstur þeirra. Því hafa fölmargir evrópskir bankar ýtt úr vör ýmsum nýsköpunarverkefnum til að undirbúa sig undir PSD2. Um er að ræða nýsköpun sem snertir flest svið bankastarfseminnar, t.d.:

• Aukin samvinna banka á markaði.
• Endurnýjun tæknilegra innviða.
• Þróun nýrra afurða, þjónustu og þjónustuferla.
• Þróa net samstarfsaðila til að skapa aukinn virðisauka fyrir viðskiptavini bankanna.
• Grundvallarbreytingar á hinum hefðbundnu viðskiptamódelum banka.

Í þessum pistli verður eingöngu fjallað um aukna samvinnu banka en í Norður Evrópu hafa á undanförnum árum sprottið fram fjölmörg samstarfsverkefni banka sem hafa það markmið að gera neytendum mögulegt að nýta farsíma til að senda fjármuni sín á milli og til að greiða fyrir vöru og þjónustu í verslunum. Flestar þessara lausna hafa það sameiginlegt að bankar hafa með einum eða öðrum hætti stofnað til samstarfs til að setja upp nýjar greiðslurásir fyrir farsíma sem nýta innlánareikninga neytenda í stað greiðslukorta. Samstarfið hefur einnig náð til þróunar á farsímaforritum, vörumerkjum og reglum sem gilda um réttindi og skyldur banka, neytenda og verslana í greiðsluferlinu sem nýta þessar greiðslurásir.

Swish í Svíþjóð

Í desember 2012 var farsímagreiðslufyrirtækið Swish stofnað af SEB, Danske Bank, Handelsbanken, Länsförsäkringar Bank, Nordea, Swedbank og Sparbankerna. Swish var til að byja með eingöngu notað fyrir greiðslur á milli einstaklinga en í dag nota ríflega 5 milljónir Svía appið til að greiða einnig fyrir vöru og þjónustu í verslunum og netverslunum. Til að virkja þessa greiðsluleið þurfa neytendur eingöngu að nota BankID (sænska útgáfan af Auðkenni) til að skrá sig inn í appið og að velja þann bankareikning sem á að vera tengdur appinu og farsímanúmerinu. Neytendur geta síðan millifært með símanúmerinu einu saman eða greitt í verslunum. Neytendur greiða ekkert fyrir notkun lausnarinnar en verslanir greiða um 1,5-2 SEK (ca 24-30kr) fyrir hverja færslu.

MobilePay í Danmörku

Árið 2012 hófu danskir bankar samstarf um þróun á sameiginlegri farsímagreiðslulausn sem byggði á innlánareikningum. Í árslok sama ár hætti Danske Bank þátttöku í samstarfinu og kynnti, í maí 2013, eigin farsímagreiðslulausn, MobilePay, sem nýtir greiðslurásir kortaskema til að miðla greiðslum. Ákvörðun Danske Bank að byggja sína eigin lausn á kortakerfinu og að markaðssetja hana undir merkjum MobilePay reyndist farsæl enda tókst þeim þannig að vera fyrstir á markað. MobilePay náð hratt mikilli útbreiðslu jafnt hjá viðskiptavinum Danske Bank sem og hjá viðskiptavinum annarra banka þar sem hægt var að tengja appið við greiðslukort frá hvaða banka sem var í Danmörku. Í dag er MobilePay með 3,6 milljónir notenda.

Þrátt fyrir útgáfuna á MobilePay þá héldu hinir dönsku bankarnir sínu striki og kynntu sína útgáfu af greiðslulausn í júní 2013. Um var að ræða tæknilega greiðslurás sem hver og einn banki gat tengt við sitt app. Þessi greiðslulausn náði aldrei flugi enda ruglaði það neytendur í ríminu að hún skyldi markaðssett undir mismunandi merkjum yfir 70 banka. Einnig gekk hægt og erfiðlega að samþætta lausnina inn í öpp bankanna.

Í ljósi þessa afleita árangurs stofnuðu samkeppnisaðilar Danske Bank, Swipp í ágúst 2014, sjálfstætt vörumerki og app sem neytendur gátu sótt í AppStore og Google Play. Swipp appið varð loks aðgengilegt í ágúst 2015, en þá var á brattann að sækja í samkeppninni við MobilePay sem var komið með yfirburðar stöðu á markaðnum með hátt í þriðja milljón notenda. Swipp gekk hins vegar ágætlega í markaðssókn sinni. Í október 2016 var Swipp komið með 1 milljón notenda og um 28 þúsund verslanir tóku við Swipp greiðslum sem voru álíka margar verslanir og MobilePay hafði náð í viðskipti á þremur árum.

Það sem keyrði vinsældir Swipp áfram var að lausnin var mun hagkvæmari greiðslumáti fyrir verslanir en MobilePay. Einnig tryggði Swipp verslunum rauntímaaðgengi að fjármunum og hægt var að greiða með farsímanum á hefðbundnum POSa. MobilePay kallaði hins vegar á að settur væri upp viðbótarbúnaður í verslunum svo kassarnir gætu tekið á móti greiðslum og það sem meira var þá byggði MobilePay á kortakerfinu þannig að verslunareigendur fengu ekki strax aðgengi að greiðslunum.

Í október 2016 ákváðu Danske Bank og Nordea að slíðra sverðin með samningi sem fól í sér að MobilePay yrði sett í sér fyrirtæki og að Nordea myndi flytja sína notendur frá Swipp til MobilePay. Í framhaldinu var samstarfinu um Swipp sjálfhætt, enda eru þessir tveir bankar með um 70% markaðshlutdeild á viðskiptabankamarkaði í Danmörku og hafa nú allir bankar í Danmörku flutt sig til MobilePay.

Ástæða þess að bankarnir í Danmörku ákváðu að sameinast um eina lausn var að þeir stóðu frammi fyrir því að geta barist sín á milli um danska neytendur næstu tvö árin eða að hefja samvinnu til að undirbúa sig undir aukna samkeppni við tæknirisana Apple, Google, Amazon, í kjölfar innleiðingu á PDS2 löggjöfinni. MobilePay varð einfaldlega fyrir valinu þar sem það var mun sterkara vörumerki en Swipp. Hins vegar þurfti MobilePay að skuldabinda sig samhliða breytingunni til þess að flytja MobilePay appið af greiðslurásum kortaskemanna yfir á nýjar og hagkvæmari greiðslurásir sem myndu byggja á innlánareikningum bankanna, þ.e.a.s. lausn sem væri í raun sambærileg Swipp lausninni.

Vipps í Noregi

Í framhaldi af samkomulagi danskra banka um að nota MobilePay, hófu norskir bankar að ræða saman um möguleikann á því að sameinast um eina farsímagreiðslulausn sem myndi byggja á innlánakerfum bankanna. Í febrúar 2017 var tilkynnt að þeir hyggðust sameinast um að nota lausn DnB bankans, Vipps, og að hún yrði sett í sér fyrirtæki og að bankarnir yrðu allir eignaraðilar að fyrirtækinu. Vipps var ein af mörgum norskum lausnum sem var í notkun fyrir þessa ákvörðun, en Vipps hafði náð mestri útbreiðslu af þeim lausnum sem voru í boði. Í samtali við norska blaðamenn sagði Rune Bjerke forstjóri DnB að megin ástæða fyrir samkomulaginu væru fyrirsjáanlegar breytingarnar sem PSD2 myndi hafa á greiðslumarkaðnum á næstu árum. Til að mæta alþjóðlegri samkeppni þyrftu norskir bankar að vinna saman að því að búa til innviði fyrir farsímagreiðslur sem neytendur treystu.

Samvinna banka yfir landamæri

Samvinna banka vegna breytinga sem munu fylgja PSD2 er ekki takmörkuð við Norðurlöndin. Þannig hafa hollenskir og belgískir bankar sameinað krafta sína og eru þessa dagana að þróa lausn, Payconiq, sem verður hægt að nota jöfnum höndum í báðum löndunum. Þetta er fyrsta dæmið um farsímagreiðslulausn, sem mér er kunnugt um, sem verður hægt að nota til að greiða í fleiri en einu landi.

Líklegt verður að telja að þróunin verði sambærileg í öðrum ríkjum innan EES og að smám saman verði til alþjóðleg farsímagreiðslulausn sem tryggir að hægt verði að senda peninga á milli einstaklinga og hægt verði að greiða með símanum fyrir vöru og þjónustu á POSa. Lykillinn að því er einhvers konar evrópskur samskráningargrunnur þar sem farsímanúmer er tengt við innlánareikning neytanda, sem tryggir að neytandi geti tekið á móti greiðslum frá þriðja aðila eða borgað fyrir vöru og þjónustu nærri því hvar sem er innan EES.

Íslenskur samkeppnisréttur sækir um margt fyrirmynd til samkeppnisreglna Evrópusambandsins. Meðal þess sem þó greinir á milli er að í samkeppnisrétti annarra landa er víða ekki að finna ákvæði um að samkeppnisaðilar, t.d. á Norðurlöndunum, þurfi ekki sækja um samþykki samkeppnisyfirvalda fyrir samstarfi á markaði, heldur er það sett á þeirra herðar að tryggja að samstarfið uppfylli skilyrði slíks samstarfs. Þannig er það t.a.m. á ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra að tryggja að ávinningur neytanda sé verulegur af slíku samstarfi og að samstarfið skaði ekki samkeppni. Íslensk samkeppnislög gera hins vegar ráð fyrir því að sótt sé fyrirfram um undanþágu fyrir samstarfi frá ákvæðum samkeppnislaga um samvinnu fyrirtækja og samtaka fyrirtækja. Slíkt ferli getur verið tímafrekt sem leiðir til þess að hugmyndir sem gætu skapað ávinning fyrir íslensk fyrirtæki og neytendur komast aldrei í umræðu, hvað þá þróun, og verða því aldrei að veruleika.