Fréttir

Allt um RB Classic 2015

Allt um RB Classic 2015
27.08.2015

RB (Reiknistofa bankanna) mun í samstarfi við hjólreiðafélagið Tind; Ion Luxury Hótel og Kríu hjólaverslun standa fyrir götuhjólakeppni umhverfis Þingvallavatn sunnudaginn 30. ágúst 2015.  Ræst verður við ION hótel og hjólað réttsælis umhverfis Þingvallavatn. Leiðin liggur um ægifagra náttúru Þingvalla og nágrennis.

RB (Reiknistofa bankanna) mun í samstarfi við hjólreiðafélagið Tind; Ion Luxury Hótel og Kríu hjólaverslun standa fyrir götuhjólakeppni umhverfis Þingvallavatn sunnudaginn 30. ágúst 2015.  Ræst verður við ION hótel og hjólað réttsælis umhverfis Þingvallavatn. Leiðin liggur um ægifagra náttúru Þingvalla og nágrennis.

Hægt er að velja á milli tveggja vegalengda, 127 km (2 hringir - A flokkur) og 65 km (1 hringur - B flokkur). Keppt verður í bæði karla og kvennaflokki.  Keppnin hentar götuhjólum best, enda að mestu leiti á malbiki. Það felur þó í sér ákveðna áskorun að um 10 km kafli er á möl og gerir það keppnina þeim mun áhugaverðari. Malarkaflinn er þó fullfær götuhjólum enda nýlega heflaður.

Skráningar eru tæplega 300 og er þetta orðið eitt stærsta götuhjólamót landsins en þetta er í annað sinn sem keppnin er haldin.  Allir bestu hjólreiðamenn og konur landsins munu taka þátt í A flokki og hjóla 127 km en keppnin er bikarmót í bikarmótaröð HRÍ.  Stærsti hluti skráninga er þó í B flokki en þar hjólar fjöldinn allur af áhugafólki sér til skemmtunar í bland við keppnisskapið.

Vegleg peningaverðlaun eru í boði fyrir þá sem fara lengri vegalengdina eða 127 km.  Heildarvirði peningaverðlauna eru um 210.000 krónur og eru 50.000 kr. í boði fyrir fyrsta sætið.  Auk þess verða veitt glæsileg útdráttarverðlaun og má þar nefna Specialized Roubaix götuhjól að verðmæti 310.000 kr. Í boði Kríu hjólaverslunar, inneignir hjá ION Luxury Hótel sem og gjafabréf frá Gló og Grillmarkaðnum.  Besta myndin í Instagram leik keppninnar verður valin og fær sá heppni flottan Lumia 640XL Windows síma.  Arnold Björnsson einn besti hjólaljósmyndari landsins mun velja sigurmyndina.

Dagskrá:

  • 8:00 Þjónustumiðstöð ION opnar
  • 8:30 Friðrik Þór Snorrason forstjóri RB segir nokkur orð
  • 8:35 Keppnisstjóri, Bragi Freyr Gunnarsson, segir nokkur orð
  • 9:00 A flokkur KK ræstur
  • 9:05 A flokkur KVK ræstur
  • 9:10 B flokkur ræstur
  • 14:00 Verðlaunaafhending
  • 14:30 Útdráttarverðlaun
  • 15:00 Dagskrá lokið

Keppnisgögn verða afhend milli klukkan 14:00 og 18:00 föstudaginn 28. ágúst í Kríu hjólaverslun Grandagarði 7, 101 Reykjavík.

 

„Með RB Classic vill RB leggja sitt af mörkum við að styðja við bakið á og efla hjólaíþróttina enn frekar, en mikil vakning hefur orðið í þeim efnum á Íslandi undanfarin ár og meðbyrinn mikill. Þetta er eitt af fjölmörgum verkefnum þar sem RB leggur góðu málefni lið og er hluti af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækisins" segir Friðrik Þór Snorrason forstjóri RB.

„Eitt af megin markmiðum hjólreiðafélagsins Tinds er að efla keppnishjólreiðar á Íslandi. Til að slíkt markmið náist þarf að halda stærri keppnir sem er ómögulegt án stuðnings öflugra bakhjarla. Við erum því ótrúlega ánægð með þann stuðning sem RB, ION hótel og Kría sýna hjólaíþróttinni með veglegri aðkomu sinni að RB Classic" segir Lilja Birgirsdóttir, formaður Tinds.

Nánar um RB Classic 2015:

Vefsíða RB Classic

Facebook síða RB Classic