Blogg

Að fanga þekkingu

Að fanga þekkingu

Bettina Björg Hougaard Sérfræðingur í fræðslu- og mannauðsmálum

29.12.2017

Þekking er ein helsta auðlind fyrirtækja, óhætt að segja helsta auðlind fyrirtækja. Hún er jú flestum fyrirtækjum allt og án hennar er fyrirtæki svo að segja ekki neitt. En hvað er þekking og hvernig fangar maður hana?

Sumum kann að finnast það augljóst hvað þekking er. Hún er til staðar, greypt í fólkið og skrásett eftir því sem hægt er. Þekkingarkerfi komast ákveðið langt með skrásetningu og hægt er að fara ansi langa mílu þar, en síðan er það þessi sífellda þekkingaröflun sem býr í fólki og hleðst þekkingin upp í hinum ýmsu myndum sem getur reynst þrautin þyngri að fanga. Hún nýtist í krafti fólksins og er á meðan er.

Það er fyrirtækjum sannarlega áskorun að fanga þekkingarhafið sem býr í starfseminni og skilgreina þannig að auðlindin nýtist og gagnist sem best. Fólkið sjálft er jú aðeins til láns og ekki sjálfgefið hvaða þekking er til staðar á morgun. Þekkingaröflun og þróun hefur aldrei verið aðgengilegri og hraðari en nú. Dreifing og miðlun þekkingar, markviss skrásetning, kynningar, fundir, skýrslur, sjálfbær þekkingaröflun… allur veraldarvefurinn er ein stór leitarvél. En hvenær er búið að fanga þekkinguna sem sífellt byggist upp og nær maður að fanga hana einhvern tíma?

Starfandi í stöðugt breytilegu umhverfi tækninnar er svarið hikstalaust nei. Sagt er að rétt um 20 prósent þekkingaröflunar fari fram í formi hefðbundinnar kennslu og þjálfunar, er það ríflega áætlað. Hin 80 prósentin eru „hands on“ þekkingaröflun í daglegum verkefnum og samskiptum starfsumhverfisins og utan þess. Að deila og dreifa þekkingu getur því reynst stórt fjall að klífa.

Hjá Reiknistofu bankanna (RB) dynur á starfsfólki eitt mest krefjandi verkefni í sögu upplýsingatækni landsins í samstarfi við fjármálafyrirtækin. Því er það fyrirtækinu brýn nauðsyn að horfa til þess að leggja reglubundið mat á stöðu þekkingar innan fyrirtækisins, tengja við áhættustýringu og meta mögulegar rekstraráhættur sem kunna að skapast með tilkomu breytinga í tækniumhverfinu og þar með þekkingarauðlindinni. Endurmenntun, stöðug starfsþróun og miðlun þekkingar er þar órjúfanlegur og krefjandi þáttur. Það er þessi óbilandi trú á fólkið okkar, sérhæfingu þess og metnaðinn fyrir því að gera þetta risavaxna verkefni mögulegt þannig að sigla megi um svo gott sem lygnan sjó í gegnum ævintýralega umfangsmikið verkefni og vera viðbúin að takast á við þann brotsjó sem kann að hellast yfir skútuna ef eitthvað bjátar á. Þekking fólksins og aðlögunarhæfni í núverandi- og framtíðar umhverfi er forsenda þess að allt gangi vel, og er það að sýna sig og sanna.

Tæknibyltingin er hröð, nýjar kynslóðir (og gamlar) kynna hverja nýsköpunina á fætur annarri og best að hafa hlaupaskóna vel á sig reimaða. Svo við reimum skóna og vinnum áfram að því að hlaupa í takt og halda taktinum svo fyrirtækið vaxi og dafni sem best.