Blogg

Um jólagjafir vinnustaða

Um jólagjafir vinnustaða
11.11.2015

Þessa dagana hrúgast inn jólagjafahugmyndirnar til fyrirtækja landsins frá hinum ýmsu söluaðilum. Þá hefjast heilaumbrotin miklu hjá hinum útvöldu sem fá það „vinsæla“ hlutskipti að finna jólagjöfina í ár fyrir starfsfólkið. Þetta er klárlega fyrsti forboði jólanna og við færumst sífellt framar í dagatalinu með jólaundirbúninginn. Stundum verður þetta til þess að einhver á skrifstofunni fer að humma jólalög á þessum annars ótímabæra tíma ársins, sem er bara hressandi!

Nýlega skrapp ég í IKEA, þar ætla þeir sannarlega að grípa jólaandann fyrstir manna þar sem allt er orðið stjörnum prýtt og hátíðlegt strax um miðjan október. Svo til þess að fá fílinginn fyrir jólunum og koma sér í gjafahugmynda gírinn fyrir vinnustaðinn, þá er sennilega fátt betra en að skreppa í IKEA.

En þá að stóru spurningunni... hver er rétta jólagjöfin fyrir starfsfólk? Þetta er spurning sem ég tek árlega þátt í að finna svarið við og samtímis veit að það er ágætt að hafa á bakvið eyrað að það er nokkurn veginn alveg sama hvað verður fyrir valinu „you just can´t win them all“.

Þessi spurning er sennilega ein sú erfiðasta sem hægt er að svara. Sér í lagi ef gjöfin er „áþreifanleg“ í formi einhvers hlutar sem á bakvið liggur án efa gríðarleg umhugsun og vangaveltur um hvort sé rétta gjöfin, þá er nokkuð öruggt að ekki verði hægt að uppfylla væntingar allra.

Fyrir nokkru síðan bloggaði ég um væntingar fólks og finnst ágætt að stilla þessari spurningu í samhengi við væntingar starfsfólks til jólagjafar fyrirtækisins. Er það hlýhugurinn á bakvið gjöfina sem uppfyllir væntingar fólks svona almennt? Eða er það viðmiðið við fyrri jólagjafir og að ekki megi hreyfa við hefðinni eða því væntingarstigi sem hefur orðið til útfrá fyrri viðmiðum? Er hangikjöt og paté málið, eða kannski bara allt í lagi að gefa kerti og servíettur þetta árið? Hversu dýr þarf gjöfin að vera? Ef hver og einn yrði spurður, þá væru svörin skemmtilega fjölbreytt.

Eins vilja sumir gjarnan bera saman jólagjöfina frá sínum vinnustað við jólagjöfina frá öðrum vinnustað. Kannski mætti líkja því við það þegar börn hittast í jólaboðinu eftir aðfangadag og fara að segja hvert öðru frá gjöfinni frá mömmu og pabba með tilheyrandi samanburð og vangaveltum um það hvort að gjöfin hafi verið á pari við hinar gjafirnar. 

Eitt af gildum RB er öryggi, og undanfarin ár höfum við farið „öruggu“ leiðina og valið gjafir í formi peningagjafar til starfsmanna með tilheyrandi ánægju, enda hverjum og einum þá í sjálfvald sett að velja sér sína eigin jólagjöf frá fyrirtækinu, sem þó einhverjum kann að þykja ófrumlegt. Fram að því var það um árabil matargjöf í formi hangikjöts og þessháttar góðgætis.

Þegar ég hugsa til baka, þá man ég hreinlega ekki hvað ég gerði fyrir mína jólagjöf frá fyrirtækinu síðastliðin ár í formi peningagjafar, sem ég var þó sannarlega ánægð með og kom sér vel. Ætli það hafi ekki bara farið í jólaundirbúning.

Ósjaldan hef ég heyrt þegar jólagjafir fyrirtækja berast í tal, að eftirminnilegustu gjafirnar eru eitthvað sem fólk fékk að gjöf og fylgir fólki. Eitthvað sem minnir fólk á það hvað það var ánægt með þessa tilteknu gjöf og hvað hún sé „algjör snilld“. Að þessu sögðu, er mjög auðvelt að ímynda sér að næsti sessunautur þess sem dásamar gjöfina sína, hefur allt aðrar hugmyndir um sömu gjöf. „Ég á svona“, eða „hvað á ég að gera við þetta“... „nei hættu nú alveg, þetta er ekki minn litur eða smekkur“.

Nýlega heyrði ég einn samstarfsmann minn dásama það að hafa fengið með stuttu millibili flísteppi frá sínum fyrri vinnustað, hann var einfaldlega glaður með gjöfina óháð því hvert innihaldið var. Þó það hafi verið sama gjöfin tvisvar, þá var ekkert verra að eiga tvö teppi í hans huga heldur en eitt.

Þegar allt kemur til alls, er svarið kannski einfaldlega það að hver og einn einbeiti sér að hugsuninni á bakvið gjöfina þegar hún er dregin upp úr pakkanum.

Gleðjumst yfir stærri sem smærri gjöfum, jafnvel fögnum viðleitni fyrirtækisins ef gjöfin er á skjön við eigin smekk. Núllstillum væntingarnar og gleðjumst yfir óvissunni yfir því hvað komi upp úr pakkanum í ár. :)

Bettina Björg Hougaard sérfræðingur í mannauðsmálum hjá RB.