Blogg

Stjórnendavandamál?

Stjórnendavandamál?
08.04.2014

Á síðustu árum og áratugum hefur mikið verið fjallað um frammistöðustjórnun. Helstu áherslurnar hafa verið um hvað stjórnendur þurfa að gera gagnvart starfsfólki til að ná fram góðri, eða bættri frammistöðu hjá starfsfólki.

Í þessari umræðu eru gjarnan nefnd nokkur lykilatriði sem stjórnendur þurfa að sjá til þess að séu í lagi.  Þetta eru atriði eins og að starfsmaður

  • kunni það sem til þarf til að gegna tilteknu starfi
  • viti til hvers er ætlast af honum
  • fái reglulega hvatningu
  • fái uppbyggilega endurgjöf
  • fái stuðning til að kljást við atriði sem hafa áhrif á starf hans en eru utan hans ábyrgðarsviðs

Þetta eru allt atriði sem mikilvægt er að stjórnendur sinni og axli ábyrgð, þó mælingar gefi oft til kynna að víða sé pottur brotinn hvað þessa þætti varðar.

Minna hefur hins vegar verið rætt um í þessu samhengi að stjórnandinn líti reglulega í spegilinn og skoði hvernig hann er að standa sig sem stjórnandi.

Er hugsanlegt að ef stjórnandi er ekki ánægður með frammistöðu eins eða fleiri starfsmanna að þá sé stjórnandinn kannski ekki að standa sig í sínu hlutverki gagnvart starfsfólkinu?

Vanstjórnun (e. under-managment), þ.e. að gefa fólki bara fullkomlega lausan tauminn og tala helst bara við það ef eitthvað er að, er ekkert betri en ofstjórnun (e. micro-management) þar sem stjórnandi andar stöðugt ofan í hálsmál starfsfólks og krefur það jafnvel um að bera allt undir sig sem það þarf að gera.

Lítur þú í spegilinn?

Stjórnendur þurfa að geta litið í spegilinn og verið sannfærðir um það að þeir hafi séð starfsfólki sínu fyrir góðri þjálfun, látið það vita til hvers er ætlast af því og veitt því reglulega hvatningu og uppbyggilega gagnrýni.

Það sem sumir stjórnendur vilja kalla starfsmannavandamál kunna að vera stjórnendavandamál, líkt og unglingavandamál eru gjarnan foreldravandamál.

Stjórnendur þurfa að sinna sínu hlutverki sem stjórnendur, ekki að verja öllum tíma sínum ofan í skurði að grafa heldur fara reglulega upp úr skurðinum og sjá hvort verið er að moka í rétta átt, fylgjast með hvort búnaður er í lagi, hvort starfsfólk starfi við góðar aðstæður, hvort einhver er ekki að skila sínu hlutverki, hvort einhver er að standa sig á framúrskarandi hátt, hvort starfsfólk upplifi hvatningu og svo framvegis.  Án þessarar yfirsýnar er erfitt fyrir stjórnanda að standa sig vel og vera góður í sínu hlutverki.

Ekki vera stjórnandi sem er bara með flott starfsheiti, stattu í lappirnar og taktu ábyrgð á hlutverkinu.

Það besta sem getur komið út úr því er þegar þú, kæri stjórnandi, finnur að starfsfólk þitt er að vaxa og dafna og ná árangri í starfi vegna stjórnunar þinnar en ekki þrátt fyrir stjórnun þína.

Herdís Pála Pálsdóttir framkvæmdastjóri Mannauðsmála og samskipta hjá RB.