Blogg

Sjálfumglaði hjólarinn

Sjálfumglaði hjólarinn
14.05.2014

Það er fátt meira óþolandi en feitlagni dúddinn á hjólinu sem þvælist fyrir þér í umferðinni, klæddur allt of þröngum spandexfatnaði, hjólandi eins og hann eigi heiminn. Með skítaglott á smettinu og rífandi kjaft út af engu og gefandi fingurinn hægri vinstri.  Getur hann ekki drullast til að hjóla á gangstéttinni þar sem hann á heima? Þessi dúddi er ég.

Hvers vegna læt ég svona? Af hverju þarf ég endilega að velja að hjóla út um allt í staðinn fyrir að aka bíl eins og eðlilegt fólk? Jú, ástæðurnar eru nokkrar.  Skoðum þær aðeins.

Ég þoli ekki bílaumferð - færri bílar, betri borg

Eftir að við fjölskyldan fluttum í Seljahverfið í Reykjavík, sem er mjög mannvænt hverfi, áttaði ég mig á því hvað „lítil umferð" er þýðingarmikil fyrir  vellíðan og frelsi í nærumhverfinu.  Að vera á svæði þar sem fjölskyldan getur farið um án þess að hafa verulegar áhyggjur af bílaumferð er ómetanlegt.  Ég trúi því staðfastlega að færri bílar þýði betri borg. Bílar taka pláss, eru hættulegir, kosta mikið og menga.  Með því að hjóla eins mikið og ég get í stað þess að nota bíl legg ég lóð á vogarskálarnar (furðulega lítil lóð miðað við hvað ég er þungur)  til að draga úr þessum áhrifum.

Mér líður svo vel - sjálfumglaði skíthællinn

Þegar ég hjóla líður mér vel.  Eftir að fór að nota hjólið í meira mæli sem samgöngutæki uppgötvaði ég að það fylgir því heilmikil vellíðan að hjóla. Umstangið sem fylgir hjólreiðunum verður óm eitt í samanburði við þessa ánægju.  Mín leið í vinnuna liggur um göngubrú yfir Miklubraut. Stundum staldra ég við á brúnni til að hlæja inní mér að fólkinu sem silast undir brúnna í bílaröðinni, óþolinmótt og pirrað.  Hahahaha!

Ég spara svo mikinn tíma - ótrúlegt en satt

Það er magnað að hugsa til þess að líklega spara ég tíma með því að fara hægar yfir.  Þegar allt er talið, það er að segja.  Á hefðbundnum morgni erum við fjölskyldan vanalega komin út úr húsi um átta leitið. Ég fylgi yngri dætrum mínum í leikskólann hjólandi.  Ég er svo yfirleitt mættur til vinnu rétt fyrir níu.  Þrjú kortér til klukkutími er ekki stuttur ferðatími í vinnuna gætu einhver hugsað.  Það verður þó að taka með í reikninginn að á þessum tíma hef ég náð að eiga gæðastund með dætrum mínum, skila þeim í leikskólann hressum og kátum og fá þokkalegt „workout".  Nokkuð vel nýttur „klukkari" myndi ég segja.  Í þokkabót slepp ég við að pirra mig í umferðaröngþveiti á Miklubraut og Suðurlandsbraut á leið minni í Katrínartúnið.

Ég spara svo mikinn pening - lygi í mínu tilfelli (ekki segja)

Samgöngur á reiðhjóli eru verulega mikið ódýrari en aðrar samgönguaðferðir, að göngu undanskilinni.  Þetta er óumdeilt.  Nægjusemi er reyndar breyta í þessu dæmi og ekki líklegt að sparnaðurinn í mínu tilfelli sé mjög mikill. Sérstaklega þar sem við rekum bíl ásamt því að kosta hjóladelluna mína (sem er hugsanlega langt gengin). Fólk sem lætur eitt hjól duga og sýnir hyggjuvit getur þó sparað stórar fjárhæðir (sjá til dæmis hér).

Ég elska hjól - er annað hægt?

Hjól eru undursamleg fyrirbæri. Skilvirkara farartæki er líklega ekki til. Tæknin er í grunnin einföld og hefur haldist svo til óbreytt frá því á „Lurkatímabilinu". „Aestetíkin" er sömuleiðis mögnuð.

Dætur mínar elska hjól - eins og pabbi sinn

Hér „kristalíserast" þetta með færri bíla og betri borg.  Að geta farið á milli staða með 2, 4 og 7 ára börnum sínum á hjóli án þess að hafa teljandi áhyggjur af umferð er tær snilld.  Flestir virkir morgnar hjá yngri dætrum mínum hefjast á stuttum og frískandi hjólatúr í leikskólann. Börnin elska að hjóla. Það veitir þeim yngri sigurtilfinningu að geta ferðast sjálfstætt fyrir eigin afli, og þeim eldri mikið frelsi og sjálfstæði.  Við munum hvað heimur okkar stækkaði þegar við vorum farin að geta ferðast á reiðhjóli í æsku.

Það eru ótal ástæður, stórar og smáar, til viðbótar fyrir því að ég vel hjólið sem fararskjóta og áhugamál.  Ég geri mér grein fyrir að þessi „bílskerti lífstíll" hentar alls ekki öllum og er háður allskonar þáttum sem við höfum mismikla stjórn á. Ég get þó ekki annað en mælt með að fólk hugsi málið vel og vegi og meti. Ég fullyrði að þau sem taka skrefið munu ekki sjá eftir því.

Bragi Freyr Gunnarsson tölvunarfræðingur í Hugbúnaðarþróun hjá RB