Fréttir

SideKick heilsuæði í RB

SideKick heilsuæði í RB
16.11.2015

Fyrir rúmri viku síðan, föstudaginn 6. nóvember, tók RB í notkun app fyrir starfsfólk sitt sem hefur það markmið að efla heilsu og vellíðan starfsólks. Appið nefnist SideKick en það byggir á sterkum vísindagrunni og klínískri reynslu. Um er að ræða einfalda leikjavædda lausn sem gerir heilsueflingu skemmtilega og aðgengilega með það að markmiði að ná fram varanlegum lífstílsbreytingum.

Appið býður upp á mjög fjölbreytta möguleika tengt mataræði, hreyfingu, slökun og heilsu almennt. Starfsfólk safnar stigum eða svo kölluðum “Kicks” fyrir að framkvæma heilsueflandi hluti eins og að drekka vatn, borða ávexti, alls konar æfingar (t.d. armbeygjur, hnébeygjur, planka), taka stigann og slaka á með slökunaraðferðum. Óhætt er að segja að starfsfólk hafi tekið heilsueflinguna alvarlega þar sem sjá mátti fólk gera æfingar út um allt húsnæði RB auk þess sem ávaxta- og grænmetisneysla í mötuneytinu hefur aldrei verið meiri.

Vatnsbirgðir sem framfleyta barni í yfir 5 ár

Um leið og starfsfólk RB eflir heilsu sína þá safnar það hreinu vatni fyrir börn í neyð með þátttöku sinni, en Sidekick og RB styrkja UNICEF í hlutfalli við virkni þátttakenda . Í þessari viku eða frá 6. til 13. nóvember safnaði starfsfólk RB, 3.910 lítrum af hreinu vatni sem framfleytir barni í yfir 5 ár.

10 skammtar af bóluefni í vinning

Starfsfólk skiptist í lið sem kepptu sín á milli og varð lið að nafni New York sigurvegari og fékk það í gjöf 10 skammta af bóluefni gegn mænusótt. UNICEF mun sjá til þess að gjöfin berist til barna sem þurfa á henni að halda. Engin lyf eru til gegn mænusótt og eina leiðin til að koma í veg fyrir að veikin valdi lömun er bólusetning. Bólusetningarnar skipta því miklu máli.

Árangurinn

Hér má sjá SideKick heilsueflinguna í tölum fyrir vikuna 6. – 13. nóvember:

  • Vatnssöfnun fyrir börn í neyð í samstarfi við UNICEF, 3.910 lítrar
  • Skammtar af ávöxtum, 914
  • Skammtar af grænmeti, 376
  • Vatnsneysla starfsfólks, 3.544 lítrar
  • Dagar án gosdrykkja, 232
  • Dagar án nammi, 174
  • Slökun, 3.539 mínútur
  • Hreyfing, 870 mínútur
  • Hlutfall starfsfólks sem tók þátt, 64,5%

Á myndinni má sjá liðið New York, frá vinstri er Ingibjörg Daðadóttir, Lilja Guðrún Sæþórsdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir og Bendt Harðarson. Á myndina vantar Ágúst Hólm Haraldsson. Allt er þetta starfsfólk Þjónustumiðstöðvar RB.