Blogg

Sérstaða RB á heimsvísu í greiðslumiðlun

Sérstaða RB á heimsvísu í greiðslumiðlun
15.04.2014

Við Íslendingar gerum okkur ef til vill ekki grein fyrir því hversu góðrar og skilvirkrar greiðslumiðlunar við njótum.  Í nágrannalöndum okkar er algengt að það taki einn dag að færa fjármuni á milli bankastofnanna. Sem dæmi, ef ég geri millifærslu í netbanka Landsbankans yfir á reikning í Arion banka, þá gerist það á stundinni, um leið og ýtt er á ,,millifæra". Oft er talað um T og T+1 í þessu sambandi, þar sem T  stendur fyrir daginn sem beðið er um millifærslu (transaction date) og T+1 stendur þá fyrir daginn eftir, þegar millifærslan er komin í gegn á áfangastað. Í sumum tilfellum getur millifærsla í nágrannalöndum okkar tekið þrjá daga eða T+3, en hjá okkur gerist þetta samdægurs eða T.

Litla Ísland

Hvernig má það vera að litla Íslandi takist að framkvæma millifærslur á slíkum hraða og með þessari skilvirkni?

Reiknistofa bankanna (RB) leikur þar lykilhlutverk. Kjarnakerfi bankanna, sem RB hefur forritað og rekur, voru í upphafi hönnuð með það í huga að geta millifært og gert upp samdægurs og þeirri hönnun hefur verið haldið í þau rúmu 40 ár sem RB hefur starfað.

Upphaflega var Ávísana- og hlaupareikningskerfið, AH-kerfið eins og við köllum það,  forritað til að bregðast við svokölluðum ávísanakeðjum. „En áður nýttu menn sér 3-4 daga frest frá því ávísun var gefin út þar til hún kom til uppgjörs. Menn gátu sem sagt gefið út innistæðulausa ávísun, greitt með henni fyrir tiltekna vöru eða þjónustu en sett fjármagn inn á reikninginn áður en ávísunin náði á leiðarenda. Með þessu bjuggu menn sér til vaxtalaust fjármagn og sumir náðu verulegri veltu í þessum vafasömu viðskiptum. En sá tími leið undir lok með tilkomu Reiknistofunnar." [1]

Í dag heyra ávísanir nánast sögunni til og debetkort hafa tekið við en grunnurinn í kerfum RB er ennþá sá sami og þjónar debetkortum ekki síður en ávísunum. RB er einstök á heimsvísu og það helgast af smæð þjóðarinnar. Það gerir okkur kleift að einfalda mjög allt uppgjör á milli bankastofnanna og ná fram gríðarlega skilvirkri greiðslumiðlun.

Stóru löndin

Af hverju geta nágrannalöndin ekki gert það sama?  Hjá þeim er allt miklu stærra í sniðum og færslufjöldinn mun meiri sem veldur því að mun erfiðara er að ná því að gera upp samdægurs og hvað þá á stundinni.  Þar er einnig venja fyrir T+1 uppgjöri og enginn kippir sér upp við það.

Út á hvað gengur þetta uppgjör?

Uppgjörið er á ensku „clearing". Þegar fjármunir eru færðir á milli bankastofnana þarf að tryggja að bankinn þar sem peningur er tekinn út úr komi honum til skila til bankans sem leggja á inn hjá. Hver bankastofnun á innlánsreikning hjá Seðlabanka Íslands og uppgjörið er framkvæmt þannig að millifært er á milli þessara reikninga.

Skoða mynd 1

Þegar millifærsla er framkvæmd eða verslað með debetkorti eru fjöldamörg kerfi sem koma við sögu.  Sé dæmi tekið um millifærslu (tölurnar vísa í mynd 1) þá eru það Netbanki (1), Afgreiðslukerfi(1,2), AH-kerfið(4), Jöfnunarkerfið(3) eða Stórgreiðslukerfið(3).

Einfalt

Öll grunnkerfin keyra í „sömu" tölvunni á sama gagnagrunni og eru vel tengd saman.  Erlendis eru sambærileg kerfi keyrð hjá mörgum aðilum og eru þau annað hvort lauslega tengd saman eða alls ekki. Það er því töluvert snúið og mikið mál að gera upp  milli banka, sem þá þurfa að skiptast á upplýsingum um millifærslur með aðstoð uppgjörshúsa (clearing centre) en þau geta verið eitt eða fleiri í hverju landi.

Bankar og sparisjóðir á Íslandi báru gæfu til að taka saman höndum fyrir rúmum 40 árum og stofna RB.  Með RB var lagður  grunnur að skilvirkri og hagkvæmri greiðslumiðlun allt til dagsins í dag.  Með auknum samrekstri á grunnkerfum banka og sparisjóða hjá RB má jafnvel gera enn betur í sparnaði og hagkvæmni sem nýtist öllum Íslendingum.

 

[1] Valþór Hlöðversson, Frjáls Verslun, 48. árgangur, 1989, 2 tölublað, bls. 52.

Þór Svendsen Björnsson lausnaarkitekt hjá RB