Fréttir

RB er fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

RB er fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum
23.03.2016

Þriðjudaginn 15. mars var RB veitt viðurkenning við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands fyrir að vera fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.  Viðurkenningin er veitt af Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands.  Samstarfsaðilar rannsóknarmiðstöðvarinnar eru Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq og Samtök atvinnulífsins.

Góðum stjórnarháttum er ætlað að nýtast sem verkfæri stjórna og stjórnenda til að mæta þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir og um leið að auðvelda þeim að rækja störf sín og þannig treysta hag hluthafa og annarra hagsmunaðila.  Góðir stjórnarhættir ákvarðast t.d. af samsetningu og skipulagi stjórnar, samskiptum hennar við framkvæmdastjórn og hluthafa og þeim aðferðum sem hún velur til að ná markmiðum sínum.  Með því að fylgja góðum stjórnarháttum er hægt að styrkja innviði fyrirtækja og efla almennt traust gagnvart viðskiptalífinu og samfélaginu.

Fyrirmyndar fyrirtæki í góðum stjórnarháttum þurfa að uppfylla fjölmörg skilyrði en Viðskiptaráð hefur unnið leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland. Fyrsta útgáfa leiðbeininganna kom út árið 2004 og hafa þær verið endurskoðaðar með reglubundnum hætti frá þeim tíma.

Sama dag var haldin glæsileg ráðstefna í hátíðarsal Háskólans undir heitinu „Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum“.  Fjölmargt þungavigtafólk úr atvinnulífinu steig á stokk og hélt erindi auk þess sem John C. Coffee virtur prófessor við Columbia Law School hélt erindi og tók þátt í pallborðsumræðum.  Friðrik Þór Snorrason forstjóri RB tók þátt í pallborðsumræðu með Höskuldi Ólafssyni bankastjóra Arion banka, Jóni Má Halldórssyni stjórnarformanni Mannvits og Ásthildi M. Otharsdóttur stjórnarformanni Marels.

„Við erum mjög stolt af þessari viðurkenningu en unnið hefur verið markvisst að því að efla góða stjórnarhætti í RB á undaförnum árum“ segir Friðrik Þór Snorrason forstjóri RB.  „Góðir stjórnhættir skipta miklu máli og eru gott stjórntæki til að minnka áhættu, auka öryggi og ákvarða og fylgja eftir stefnu fyrirtækisins. Ákvarðanataka yfirstjórnar fyrirtækisins verður betri og auknar líkur á að réttra hagsmuna sé gætt“.

Á myndinni má sjá Friðrik Þór Snorrason forstjóra RB taka við viðurkenningunni úr hendi Runólfs Smára Steinþórssonar dósents við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.