Blogg

Persónuleg samskipti

Persónuleg samskipti
08.04.2015

Í síðustu viku sendi átta ára sonur minn mér sms klukkan sjö um morgun úr næsta herbergi og bað mig um að finna föt á sig.  Við vitum að nánast heil kynslóð er hætt að tala saman í síma og flest samskipti fara fram í rafrænu formi.  Það sem ég velti fyrir mér er á hvaða hátt hefur þetta áhrif á okkur dags daglega bæði í okkar persónulega lífi og vinnutengt.  Erum við almennt orðin feimnari við að hringja í fólk og hitta það eða þykir það orðið of persónulegt að hringja beint í gsm síma hjá viðskiptavinum okkar og tengiliðum ?   Sjálf hef ég reynt að leggja upp úr því að þekkja mína tengiliði persónulega og reyni heldur að hringja beint í þá og hitta í kaffi til að ræða málin.

Tölvupóstur er mjög mikilvægt tól og stór þáttur á hverjum degi hjá skrifstofufólki. Það er mikilvægt er að kunna að senda tölvupóst, þá er ég ekki að tala um að fara inn í outlook og senda heldur að muna að viðtakandi getur túlkað tölvupóstinn á allt annan hátt .  Vandvirkni í tölvupóstum er stór þáttur í góðri þjónustu en gott að reyna forðast þá ef um erfið mál er að ræða og taka heldur upp símann eða kíkja á stuttan fund.

Fyrrum yfirmaður minn sagði mér einu sinni að vandamál styrkja sambönd, ég skildi þetta ekki alveg í fyrstu og fór að hugsa hvort ég gæti tengt þetta við eitthvað í mínu persónuleg lífi en eftir að hafa unnið í nokkur ár í þjónustu hef ég séð að þetta var vel orðað hjá honum.  Þegar ég hugsa til baka þá hef ég oft kynnst þeim viðskiptavinum best  þar sem einhver vandamál hafa komið upp.  Oft á tíðum verður það til þess að  þú hringir og hittir þá oftar á meðan unnið er úr málunum sem getur leitt til lengra og betra viðskiptasambands í framtíðinni.  Þegar þú þekkir viðskiptavininn meira en í gegnum tölvupóst þá verða samskiptin auðveldari og eðlilegri.  Ef við yfirfærum þetta yfir í okkar persónulega líf þá er líka heilmikið til í þessu, flest vandamál eru betur leyst með því að tala saman og hittast heldur en að senda sms eða Facebook-skilaboð.

Viðskiptasambönd eru ekki mjög ólík persónulegum samböndum, öll erum við manneskjur og bakvið öll störf er venjulegt fólk alveg sama hvort þú ert forstjóri eða almennur starfsmaður.  Viðskiptavinir okkar vakna á morgnana alveg eins og við og vona að börnin þeirra fari í fötin sín án þess að verði eitthvað vesen, reyna að gleyma ekki gulum, rauðum eða bláum dögum í skólanum og pæla í því hvort hefði verið betra að taka aðra leið í vinnuna þegar allt er stopp á Kringlumýrabrautinni.  Allir hafa sín vandamál stór og smá og erum við öll ólík, en á meðan við setjum okkur í spor þeirra í smá stund og munum að við erum öll mannleg þá breytast samskiptin til muna.  Við þurfum ekki að fara í vörn þótt mistök séu gerð og viðskiptavinir treysta okkur frekar ef við viðurkennum þau og búum til traust með góðri þjónustu og eftirfylgni.

Ég vona að við höldum áfram að hittast og talast við þrátt fyrir að við eigum allar græjur í dag til að hafa samskipti einungis í rafrænu formi, það er bara sumt sem ekki er hægt að ná í gegnum rafræn skilaboð eða með góðum prófíl á Facebook eða LinkedIn.  Pössum okkur að verða ekki feimin og höldum áfram að hringja og taka kaffi, persónuleiki og nærvera nýtur sín ekki nema fólk hittist.

Ragnhildur Guðmundsdóttir viðskiptastjóri hjá RB