Fréttir

Nýtt skipulag hjá RB

Nýtt skipulag hjá RB
27.09.2016

Nýtt skipulag innleitt til að fylgja eftir stefnubreytingu.

Nýtt skipulag mun taka gildi 1. október næstkomandi hjá RB og er það í kjölfar endurskoðaðrar stefnu félagsins, segir Friðrik Þór Snorrason, forstjóri RB.

„Helstu markmiðin með nýju skipulagi er að setja aukna áherslu á þarfir viðskiptavina sem og að efla þróun og nýsköpun. Ábyrgð á tekjum og afkomu verður dreifðari og áhersla á aukna hagkvæmni og öryggi reksturs tryggt með öflugum stoðsviðum.  Einnig er í nýju skipulagið horft til þess að RB er þessa dagana að innleiða ný kjarnakerfi fyrir innlánastarfssemi og greiðslur, en kerfin verða megin burðarlag viðskiptabankastarfssemi á Íslandi.  Nýtt skipulag er liður í undirbúning félagsins á því á að kerfin verði tekin í notkun í byrjun næsta árs. “

Nýtt skipulag samanstendur af þremur lausnasviðum Sérlausnum, Kjarnalausnum og Rekstrarlausnum, sem bera ábyrgð á tekjum og afkomu félagsins, og þremur stoðsviðum Tæknistjórn, Fjármála- og verkefnastjórn og Mannauðs- og markaðsstjórn.

Um leið og breytt skipuriti tekur gildi verða breytingar á framkvæmdastjórn fyrirtækisins.  Guðjón Steingrímsson framkvæmdastjóri Hugbúnaðarsviðs lætur af störfum og fer á eftirlaun.  Tveir nýir framkvæmdastjórar taka til starfa en það eru þeir Aðalgeir Þorgrímsson sem áður sinnti starfi forstöðumanns Vörustýringar en verður nú framkvæmdastjóri Sérlausna og Jón Helgi Einarsson sem áður var forstöðumaður Verkefnastýringar verður nú framkvæmdastjóri Kjarnalausna.

Auk þeirra tveggja er framkvæmdastjórn RB skipuð Friðriki Þór Snorrasyni forstjóra, Ingibjörgu Arnarsdóttur framkvæmdastjóra Fjármála- og verkefnastjórnar, Herdísi Pálu Pálsdóttur framkvæmdastjóra Mannauðs- og markaðsstjórnar, Þorsteini Björnssyni framkvæmdastjóra Tæknistjórnar og Magnúsi Böðvari Eyþórssyni framkvæmdastjóra Rekstrarlausna.

Um nýja framkvæmdastjóra RB

Aðalgeir Þorgrímsson

Framkvæmdastjóri Sérlausna


Aðalgeir tekur við starfi framkvæmdastjóra Sérlausna 1. október 2016. Hann hefur undanfarið starfað sem forstöðumaður Vörustýringar hjá RB.

Á árunum 2005-2010 sinnti Aðalgeir ýmsum stjórnunarstörfum innan hugbúnaðargeirans, fyrst hjá Creditinfo Group í Tékklandi þar sem hann byggði upp og leiddi alþjóðlegt þróunarteymi og síðar hjá Teris (fyrrum Tölvumiðstöð Sparisjóðanna) á Íslandi þar sem hann var ábyrgur fyrir innri þróun. Áður starfaði Aðalgeir við hugbúnaðarþróun hjá Creditinfo Group og Landmati.

Aðalgeir er með MBA gráðu, með áherslu á stefnumótun, frá Rotterdam School of Management í Hollandi og B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Jón Helgi Einarsson

Framkvæmdastjóri Kjarnalausna

Jón Helgi tekur við starfi framkvæmdastjóra Kjarnalausna 1. október 2016. Hann hefur undanfarin tvö ár verið forstöðumaður Verkefnastýringar og ráðgjafar hjá RB.  Áður starfaði hann hjá Advania hf. og forverum þess m.a. sem forstöðumaður hjá Advania, framkvæmdastjóri HugarAx hf., forstöðumaður hjá Ax hugbúnaðarhúsi hf. og framkvæmdastjóri Kerfis hf. Þar áður starfaði Jón Helgi við hugbúnaðarverkefni hjá Kögun hf. í Bandaríkjunum og á Íslandi.

Jón Helgi er með MS gráðu í verkfræði frá Purdue University í Bandaríkjunum og er rafmagnsverkfræðingur frá Háskóla Íslands.

Um RB

RB er traust og öflugt þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni sem hefur þróað hinar ýmsu fjármálalausnir, þar á meðal öll megin greiðslukerfi landsins. Helstu viðskiptavinir RB eru fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög. Framtíðarsýn RB er að auka gæði og hagkvæmni fjármálaþjónustu á Íslandi. RB nær því með þróun framsækinna og öruggra lausna og þjónustu sem eru bæði vel samþættar og samnýttar af markaðnum.