Fréttir

Metþátttaka á RB Classic mótinu

Metþátttaka á RB Classic mótinu
02.09.2015

RB (Reiknistofa bankanna) hélt í samstarfi við hjólreiðafélagið Tind; Ion Luxury Hótel og Kríu hjólaverslun götuhjólakeppni umhverfis Þingvallavatn síðasta sunnudag, 30. ágúst 2015. Ræst var við ION hótel og hjólað réttsælis umhverfis Þingvallavatn. Hægt var að velja á milli tveggja vegalengda, 127 km (2 hringir - A flokkur) og 65 km (1 hringur - B flokkur). Stærstur hluti leiðarinnar var hjólaður á malbiki en 10 km á möl.

Metþátttaka var í mótinu en alls voru 273 keppendur skráðir til leiks sem er helmingi meiri þátttaka en árið 2014. Vegleg peningaverðlaun voru í boði eða samtals 210.000 kr. sem og Specialized götuhjól að verðmæti 310.000 kr. auk annarra vinninga frá Ion Luxury Hótel og Gló.

Mikil barátta var í A flokki karla en eftir harðan lokasprett stóð Óskar Ómarsson uppi sem sigurvegari. Í öðru sæti var Hafsteinn Ægir Geirsson og Ingvar Ómarsson í þriðja sæti.

Árangur Sæmundar Guðjónssonar var eftirtektarverður en hann er einungis 16 ára gamall. Hann lenti í fjórða sæti í A flokki og var í harðri baráttu við hina þrjá á lokasprettinum. Klárlega framtíðarmaður þar á ferð.

Í A flokki kvenna var lengi vel mikil barátta en Björk Kristjánsdóttir hafði sigur úr býtum. Í öðru sæti var Ágústa Edda Björnsdóttir og Eva Jónasdóttir í því þriðja.

Í B flokki hjóluðu 198 keppendur í bæði karla og kvennaflokki. Anna Kristín Pétursdóttir vann í kvenna flokki og lenti Erla Sigurlaug Sigurðardóttir í öðru sæti og Jónína B Erlingsdóttir í þriðja sæti. Í karlaflokki varð Sigurður Gylfason fyrstur en Elli Cassatta varð annar og Thibault Guégan þriðji.

Öll nánari úrslit má finna á

urslit.com.

Hér má finna frétt Stöðvar 2 um keppnina sem birtist á sunnudagskvöldinu:

Frétt Stöðvar 2 um RB Classic 2015