Blogg

Hverjar eru þínar væntingar?

Hverjar eru þínar væntingar?
15.09.2014

Dags daglega mynda ég mér allskonar væntingar, án þess raunverulega að gera mér jafnvel grein fyrir því sjálf. Ég vakna í rútínu dagsins, bind vonir við að börnin vakni „réttu megin" og þjóti fram úr morgunhress, fer síðan í vinnuna með ýmsar væntingar í kollinum. Væntingar vinnudagsins geta ýmist verið að ráða fram úr krefjandi verkefnum sem ég veit að liggja á borðinu þegar ég mæti, eða bara að kaffibollinn verði jafngóður í dag og í gær hjá kaffiþjóninum á Kaffistofunni Höfðatorgi. Hann gefur mér gjarnan speki dagsins í farteskið. Ég er eiginlega farin að binda væntingar við að það almennt fylgi bollanum. Eðli okkar er svolítið þannig, að innan sem utan vinnustaðarins erum við sífellt að móta okkar eigin væntingar.

Hugtakið „væntingar" er um þessar mundir í brennidepli áhugafólks um mannauðsmál, þegar kemur að því að skilgreina og kafa ofan í skilning stjórnenda jafnt sem starfsmanna á því hvaða væntingar eru gerðar til hvers starfs sem og hvaða væntingar hver starfsmaður hefur til sín, starfsins og vinnustaðarins.

Um einmitt þetta málefni, sat ég nýlega áhugaverðan fyrirlestur í boði Rick Badgley hjá TOMS shoes. Rick leggur mikið upp úr því að vita sem allra mest um væntingar sinna samstarfsmanna og leggur mikið á sig við að afhjúpa og þróa hæfileika þeirra útfrá þeirra væntingum. Þannig telur hann að megi ná því besta fram í hverjum og einum sem í sumum tilvikum getur leitt til betrumbóta á störfum eða jafnvel að ryðja braut samstarfsmanna yfir á nýjan starfsvettvang. Forsenda hverrar ráðningar er sú að starfið sem verið er að ráða í, uppfylli væntingar og framtíðarsýn (til skemmri og lengri tíma) tilvonandi starfsmanns og að starfsmaðurinn sömuleiðis uppfylli þær væntingar sem stjórnandi gerir til starfsins. Sé það ljóst, eru góðar líkur á að starfsmaðurinn upplifi sín afköst í samræmi við óskir fyrirtækisins og öfugt.

En væntingar eru síbreytilegar. Starfsumhverfi tekur breytingum jafnt sem starfsáhugi fólks og það er langt frá því að vera sjálfgefið að stjórnendur viti ávallt hvaða væntingar starfsmenn hafa til starfsins sem þeir gegna hverju sinni og eigin starfsþróunar. Sé það ekki reglulega kortlagt og rætt, þá geta verið góðar líkur á því að væntingar starfsmanna og stjórnenda fari á mis og þar með takmarkast möguleikar á sem mestri afkastagetu og starfsánægju.

Það ætti því að vera hagur allra og hollt að spyrja sig reglulega hvort starfið uppfylli eigin væntingar og ef ekki, þá ræða hvað þurfi til. Ef við þekkjum og skiljum væntingar hvers annars, þá höfum við það forskot að geta unnið að því að mæta væntingum hvers annars sem best.

Hverjar eru þínar væntingar?

Bettina Björg Hougaard verkefnastjóri í Mannauðsmálum og samskiptum hjá RB