Blogg

Aukin skilvirkni í hugbúnaðargerð

Aukin skilvirkni í hugbúnaðargerð
05.01.2015

Hjá Reiknistofu bankanna starfa um 70 manns á hugbúnaðarsviði og því eru mörg scrum-teymi að störfum hverju sinni.  Tækniumhverfið er einnig ansi viðamikið hjá okkur þar sem við erum bæði að viðhalda eldri lausnum, útfæra nýjar lausnir og í stórum innleiðingarverkefnum á aðkeyptum lausnum.  Til að flækjustigið verði ekki of mikið í útfærslu, viðhaldi og rekstri á öllum þeim lausnum sem er verið að vinna með þá höfum við útbúið mikið af fyrirfram skilgreindum hönnunarlýsingum og sniðmátum (e. Design Patters and Templates) þvert á teymi og lausnir.

Markmiðið með slíkum lýsingum og sniðmátum er að auka skilvirkni í hugbúnaðargerð, samræma útfærslur lausna til að auka rekstraröryggi og til að tryggja að unnið sé eftir sameiginlegri tæknistefnu innan RB. Búið er að staðla og útfæra fyrirfram tengingar við gagnagrunna, rekstrareftirlitskerfi, aðgangskerfi, villumeðhöndlun, nafngiftir, uppbyggingu á einingum, stílsnið, útlit á veflausnum, skjölun, gangsetningu og margt fleira.

Stjórnskipulagið til að útfæra og viðhalda hönnunarlýsingum og sniðmátum á markvissan hátt er heilmikil pæling og höfum við prófað ýmsar útfærslur í gegnum árin.  Það hefur þó ávallt reynst best þegar grasrótin skipar sjálf í þær stöður sem á þarf að halda í svona skipulagi með því að leiðtogar, hver í sínu fagi, taka hlutverkin til sín með tíð og tíma og verða þar með sjálfsskipaðir í að bera ábyrgð á skjölun og að búa til vettvang (tæknihópa) sem hjálpast að við að finna upp þær útfærslur sem henta okkur best hverju sinni.  Kennsla er einnig hluti af starfi þessara tæknistjóra sem eru yfirleitt reynslumiklir starfsmenn sem aðrir forritarar leita hvort sem er til eftir slíkum upplýsingum og aðstoð.  Það er einnig mikilvægt að svona leiðbeiningar séu ekki í lausu lofti heldur eigi sér samanstað.  Í okkar tilfelli inniheldur því gæðahandbók RB heildar upplýsingaöryggisstefnu sem fyrirtækið hefur sett sér í formi almennra verklagsreglna og hönnunarlýsingar koma síðan þar undir sem nánari upplýsingar hvernig nákvæmlega hlutirnir eru útfærðir í tilteknu tækniumhverfi.

Hjá RB eru tæknistjórar innan hugbúnaðarsviðsins sem eru að útfæra og aðlaga leiðbeiningar og sniðmát fyrir:

  • Vefviðmót
  • Þjónustutorg
  • Stoðþjónustur og tengingar
  • Gagnagrunnar
  • Þróunarumhverfi  .Net
  • Þróunarumhverfi Stórtölvu
  • Þróunarumhverfi Java

Jafnframt eru tveir fagstjórar sem hafa umsjón með framþróun á Agile annars vegar og prófunum hins vegar.

Svona formlegar leiðbeiningar í hugbúnaðargerð hafa reynst mjög vel hjá okkur í RB.  Nýir starfsmenn eru t.d. fljótir að byrja að skila góðum afköstum og samræming er mjög mikil milli scrum-teyma í stórum verkefnum eins og sýndi sig í torgvæðingu grunnkerfa RB á árinu 2014.  Auðvitað er þetta alls ekki fullkomið og við komin mislangt eftir tækniumhverfum og erum líka með heilmikið af eldri lausnum í eldri högun.  Við erum hinsvegar með góðan grunn sem við byggjum allar nýjar lausnir á og erum með fyrirtækjamenningu sem gengur út á að hjálpa hvort öðru og samnýta sem mest af kóða og aðferðum á markvissan hátt sem er sjálfsagt mikilvægast af öllu þegar upp er staðið.

Fyrir áhugasama þá verð ég með nánari yfirferð á þessu efni í fyrirlestri á UTmessan 2015 í Hörpu 6. febrúar.

Ingþór Guðni Júlíusson forstöðumaður Hugbúnaðarþróunar hjá RB