Blogg

Aparnir og fjármálakerfi morgundagsins!

Aparnir og fjármálakerfi morgundagsins!

Friðrik Þór Snorrason

Forstjóri RB

26.09.2017

Ör framþróun í tækni og markvissar aðgerðir stjórnvalda víðsvegar í Evrópu til að opna fjármálamarkaði munu leiða til mikillar grósku og nýsköpunar í fjármálaþjónustu á komandi árum. Þessar breytingar munu gerbylta hvernig viðskiptavinir nota fjármálaþjónustu, hvernig hún er veitt og hvaða aðilar koma til með að geta veitt slíka þjónustu.

Þjónustustig til neytenda og fyrirtækja mun jafnframt hækka á sama tíma og nýjar og fjölbreyttari fjármálaafurðir verða í boði. Einnig munu nýir þátttakendur, sem nýta nýstárleg viðskiptamódel til að keppa við hin hefðbundnu fjármálafyrirtæki, hasla sér völl á fjármálamarkaði. Af þeim sökum eru bankar víðsvegar um heim að endurskoða viðskiptamódel sín og sumir hverjir byrjaðir að taka sín fyrstu skref í að móta ný stafræn viðskiptamódel með það að markmiði að efla samkeppnishæfni sína til framtíðar.

Ný tekjumódel í greiðslum

Með tilkomu nýrra tæknilausna og nýrra laga um greiðsluþjónustu (e. PSD2), sem innleidd verða innan Evrópusambandsins í byrjun næsta árs, mun þátttakendum í greiðsluþjónustu fjölga. Þóknunartekjur af viðskiptabankastarfsemi sem byggjast að mestu leyti á ýmiss konar greiðsluþjónustu munu eiga undir högg að sækja vegna aukinnar samkeppni á markaði. Þessar tekjur standa í dag undir 20-25% af tekjum viðskiptabankastarfsemi evrópskra banka, en hreinar þóknunartekjur af viðskiptabankastarfsemi stóru íslensku bankanna voru tæpir 12 milljarðar króna árið 2016.

Hinir nýju þátttakendur á markaði munu líklega byggja tekjumódelin sín á allt öðrum tekjugrunni en bankar og kortafyrirtæki gera í dag. Í stað þess að treysta á kortatekjur af færslugjöldum, árgjöldum, kortalánum og yfirdráttarvöxtum munu hinir nýju þátttakendur byggja viðskiptamódel sín á vinnslu og notkun gagna. Þessir nýju aðilar munu afmá mörkin á milli fjölmiðla, auglýsinga, vörukaupa og greiðslna og skapa á þann hátt virði fyrir sjálfan sig í alls óskyldum rekstri. Fyrirséð er að samkeppnisumhverfi á fjármálamarkaði verði margslungnara og hafi áhrif á markaðsstöðu hefðbundinna banka.Til að skýra þau nýju tekjumódel sem eru að verða til í greiðsluþjónustu er einfaldast að taka dæmi:

Nýju greiðsluþjónustulögin opna á að nýir þátttakendur í greiðsluþjónustu megi, með samþykki viðskiptavina bankanna, bæði safna saman upplýsingum af innlánareikningum þeirra og framkvæma greiðslur beint frá þeim. Nýir þjónustuaðilar geta þróað farsímaöpp sem búa til samræmda heildarsýn á fjármál notenda með því að tengjast innlánareikningum í öllum þeim bönkum sem viðkomandi er í viðskiptum við. Einnig munu notendur geta framkvæmt greiðslur með farsímaappinu í verslunum með beinni millifærslu af sínum innlánareikningi beint inn á innlánareikning verslunar. Appið mun einnig geyma löggilda kassakvittun sem auðveldar notendum skil á varningi og eykur öryggi neytendaábyrgðar t.d. af raftækjum. Ávinningur neytenda verður því mikill við breytingar á lögum um greiðsluþjónustu.

Í stað færslugjalda sem tíðkast í greiðslukortaviðskiptum er líklegt að nýir þjónustuveitendurnir byggi tekjumódel sín á vinnslu greiðslu- og neyslugagna. Um er að ræða mjög verðmæt gögn sem verða aðgengileg í farsímagreiðsluöppunum. Þannig mætti sjá fyrir sér að notendaskilmálar greiðsluapps myndu heimila birtingu auglýsinga í hvert sinn sem reikningsyfirlit eða kassakvittun er skoðuð. Auk auglýsingatekna gæti greiðsluþjónustuveitandinn tekið söluþóknun ef auglýsingar t.d. tryggingarfyrirtækis, sem birtast í farsímaappinu hjá viðskiptavinum sem þurfa að endurnýja tryggingar, leiðir til sölu á nýjum tryggingum. Einnig mætti sjá fyrir sér að nýir þátttakendur gætu skapað sér tekjur af ráðgjöf til viðskiptavina og sölu ýmissa greininga til markaðsaðila og svona mætti lengi telja.

Eins og ég hef áður fjallað um telja sérfræðingar að nýir þátttakendur í greiðsluþjónustu muni gera það að verkum að þóknunartekjur af viðskiptabankastarfsemi muni lækka um 40-80% á næstu árum. Einnig gæti opnun markaðarins haft áhrif til lækkunar á vaxtatekjum bankanna, því að hinir nýju þátttakendur gætu boðið upp á nýjar óhefðbundnar leiðir til að ávaxta fjármuni og afla lánsfjármagns. Hafa verður þó í huga að tækifærin sem bankar standa frammi fyrir vegna stafrænivæðingar á fjármálaþjónustu eru fjölmörg og ef haldið er rétt á spilunum geta þau tryggt vöxt og rekstur bankanna til framtíðar.

Apar munu knýja áfram tannhjól fjármálamarkaðarins

Með tilkomu internetsins hafa fjölmörg fyrirtæki náð undraverðum árangri og vexti með því að þróa viðskiptamódel sem byggja á opnum API (e. Application Programming Interface) sem á slæmri íslensku eru kallaðir „opnir apar“. Þessi þriggja stafa skammstöfun fælir sennilega margan lesanda frá því að halda áfram lestri pistilsins. Þeir sem reyna hins vegar ekki að skilja og nýta „opna apa“ í rekstri fjármálafyrirtækja eiga á hættu að verða undir í samkeppni á markaði. Breytingarnar sem eru framundan á fjármálamarkaði eru það miklar.

API, sem á íslensku nefnast forritaskil, er hægt að útskýra tæknilega sem nokkurs konar samning á milli forrita, sem felur í sér að forrit sendir tiltekin stöðluð skilaboð á annað forrit þá verður það síðara að skila til baka tilteknum gögnum eða þjónustu, t.d. GPS hniti og staðsetningu á landakorti. API er í raun tannhjólin sem knýja áfram öll smáforritin sem eru í farsímum almennings.

Viðskiptalega séð einfalda opin API samvinnu á milli ótengdra aðila og opna þannig á nýjar leiðir til nýsköpunar á lausnum og mótunar nýrra opinna viðskiptamódela. eBay var eitt fyrsta internetfyrirtækið til að þróa nýtt viðskiptamódel sem byggði á opnum API. Með því að bjóða opin og stöðluð forritaskil, gat eBay búið til vistkerfi af söluaðilum sem tengdu sínar eigin sölusíður við markaðstorg eBay. Einnig varð til net af samstarfsaðilum sem þróuðu ýmsar virðisaukandi þjónustur ofan á grunnlausnir eBay. Á þennan hátt margfaldaði eBay í raun þróunargetu félagsins og stækkaði sölunet sitt án þess að kostnaður félagsins margfaldaðist. Samhliða þessu urðu þjónustugæði og þjónustuframboð félagsins meiri og tekjur félagsins nífölduðust á árunum 2000 til 2005. Í dag má rekja 60% af tekjum eBay til API þjónustu félagsins. Opin stöðluð forritaskil, API, hafa átt stóran þátt í vexti Facebook, Google, Amazon og Apple. Í dag er í raun til API hagkerfi af sérhæfðum „öpum“ sem hægt er að raða saman og skapa heildstæða þjónustu líkt og fyrirtæki á borð við AirBnB hafa gert og náð undraverðum árangri án mikillar upphafsfjárfestingar.

Nýju greiðsluþjónustulögin, PSD2, og persónuverndarreglugerðin ýta undir notkun opinna forritaskila, API, á fjármálamarkaði sem mun leiða til víðtækra breytinga á evrópska fjármálamarkaðinum á næstu 5-10 árum. Fjölmörg evrópsk sprotafyrirtæki eru að nýta sér þessa opnun á markaði og eru að þróa opin viðskiptamódel í fjármálaþjónustu. Sum þessara fyrirtækja hafa valið að sérhæfa sig á mjög afmörkuðu sviði fjármálaþjónustu en áforma að bjóða viðskiptavinum sínum alhliða þjónustuframboð í gegnum opin API netsamstarfsaðila. Monzo og Starling bank í Bretlandi eru dæmi um banka sem fylgja þessari hugmyndafræði. Þeir bjóða eingöngu upp á farsímabankaþjónustu og takmarka sína eigin vöruþróun við einstakt notendaviðmót, innlánareikning og greiðslukort, en treysta á sérvalda samstarfsaðila til bjóða sínum viðskiptavinum upp á nokkuð heildstætt þjónustuframboð.Einnig hafa ný fjártæknifyrirtæki sprottið upp sem bjóða upp á nokkuð heildstæða fjármálaþjónustu í gegnum heildsöluviðskipti. Um er að ræða fyrirtæki líkt og Solarisbank í Þýskalandi og Clearbank í Bretlandi sem hafa aflað sér réttinda sem viðskiptabankar og þróað öflug og heildstæð kjarnabankakerfi með nútímalegu API tengilagi. Markmið þessara fjártæknifyrirtækja er bjóða nýjum þátttakendum á fjármálamarkaði vissa grunnþjónustu þar sem þau sinna ýmsum eftirlitskyldum þáttum sem fylgja því að hafa viðskiptabankaleyfi og bjóða þeim jafnframt ýmsar tæknilausnir. Þannig geta nýir þátttakendur, fjártæknifyrirtæki eða netverslanir, þróað nýjar fjármálaafurðir og selt til sinna markhópa.

Notkun opinna API er hins vegar ekki takmörkuð við sprotafyrirtæki. Fjölmargar bankastofnanir hafa byrjað að endurskoða sín viðskiptamódel með tilliti til notkunar á opnum API og þróunar á neti af samstarfsaðilum. Markmið þeirra er að ýta undir nýsköpun og efla þjónustuframboðið; styrkja tryggð og tengsl við viðskiptavini; og lækka kostnað við þjónustu. Þótt að slík opnun þýði óhjákvæmilega að bankar gefi eftir eignarhald á tilteknum þáttum í virðiskeðju fjármálaþjónustu þá veita API lausnir og samstarfsnetið þeim aðgengi að nýjum mörkuðum og stærri tekjulindum en þeir hefðu annars haft aðgang að. Bankar standa í raun frammi fyrir stefnumótandi vali um hvaða hlutverki þeir ætli að gegna í virðiskeðju fjármálaþjónustu framtíðarinnar og þurfa að skoða sérstaklega hvernig staðið verður að framleiðslu og dreifingu afurða sem þeir ætla að bjóða sínum viðskiptavinum . Dæmi um hefðbundnar fjármálastofnanir sem eru að taka markviss skref í átt til opnunar eru bankarnir Sandanter og ING.


Í næsta pistli verður fjallað um aukna samvinnu fjármálstofnanna í Norður-Evrópu.

Fyrri pistla um ný lög um greiðsluþjónustu má finna hér.

[1] Why fintech banks will rule the world, Philippe Geils, 2015; The bank of the future will be a makertplace, Monzo, 04.02.2016 [2] Seizing the Opportunities Unlocked by the EU’s Revised Payment Services Directive, Accenture Payment Services, 2016 og PSD2: More a „Future of Banking“ than a Payment Directive – Part 2, Sopra Banking Software[3] https://www.programmableweb.com/news/depth-tour-ebay-api/2013/03/25[5] Why fintech banks will rule the world, Philippe Geils, 2015; The bank of the future will be a makertplace, Monzo, 04.02.2016