Blogg

Að miðla þekkingu - DB2 Got Talent 2016

Að miðla þekkingu - DB2 Got Talent 2016

Tómas Helgi Jóhannsson - Gagnagrunnsstjóri hjá RB

22.04.2016

Fyrir fáeinum vikum síðan tók ég þátt í fyrirlestra-keppni á netinu sem bar yfirskriftina “DB2 Got Talent 2016” og fólst í því að keppendur fengu 7 mínútur til að koma frá sér afmörkuðu efni sem það hefur öðlast reynslu af og dýpri þekkingu á í tengslum við vinnu þeirra á DB2 gagnagrunninum, hvort sem um er að ræða DB2 á Linux Unix Windows (LUW) umhverfinu eða á stórtölvu (Mainframe z/OS). 

Þessi keppni var haldin fjóra föstudaga frá lok febrúar fram í lok mars og úrslit kynnt 1. apríl síðastliðinn.

Dómarar gáfu einkunn eftir því hvernig keppandi náði að koma efni fyrirlestrarins til skila. Seinni einkunnagjöfin var í formi like á Youtube þ.s. fyrirlestrarnir voru aðgengilegir eftir hvern föstudag.

Eftir að hafa fengið næsthæstu einkunn dómara og verið lengst af hæstur á Youtube varð þriðja sætið staðreynd.

Að miðla þekkingu

Fyrirlestur minn fjallaði um það hvernig hægt er að skilgreina töflu og strúktúr hennar til þess að afmarka gögn í ákveðna hluta (e. table partitioning) með það fyrir augum að auka afköst fyrirspurna á töfluna og hvað þurfi að taka tillit til í því samandi með það að markmiði að lækka “resource” þörf fyrirspurna og minnka kostnað sem af þeim hlýst.

Yfirlýst markmið keppninnar er að fá fólk (gagnagrunnstjóra eða forritara ) með þekkingu á DB2 til að stíga fram og miðla þekkingu sinni til annara og auðga þannig DB2 samfélagið.

Fyrirtækið DBI Software heldur þessa keppni og heldur að auki úti vikulegum vef-fyrirlestrum (e. webinars) á föstudögum sem gengur undir heitinu  “DB2 Night ShowTM þar sem ákveðið efni er rætt. Hægt er að hlusta á upptökur af eldri fyrirlestrum af sömu síðu.

Ein af dýrmætustu auðlindum hugbúnaðar-fyrirtækja er þekking og reynsla starfsfólksins. Hver einstaklingur hefur sína þekkingu og reynslu á afmörkuðu sviði hugbúnaðargerðar og til að sú þekkng og reynsla haldist innan fyrirtækisins og auðgi starfsemi þess er nauðsynlegt að starfsfólk miðli þekkingu sinni á einhverju formi til samstarfsfólks síns. Hjá RB er hægt að nota margskonar vettvang til miðlunar svo sem innri vef, tækni-teymi, innri námskeið og föstudags-fyrirlestra. Hef ég haldið nokkur SQL námskeið og aðrar kynningar tengdar gagnagrunnum innan RB.

Mörg fyrirtæki líkt og fyrirtækið sem heldur keppnina ganga skrefinu lengra og miðlar tækni-þekkingu ókeypis til samfélagsins sem það er í raun daglega að þjónusta og hefur tekjur sínar af.

Að sækja sér þekkingu

Til er aragrúi af tækni-samfélögum sem einbeita sér að tilteknum hugbúnaði og hugbúnaðargerð og eru þau öll með einhverja vefsíðu sem býður uppá fjölbreytt aðgengi að lausnum á tilteknu vandamáli eða leið til að senda inn fyrirspurnir um tiltekin vandmál sem eru krufin til mergjar og lausn fundin oft með skjótum svörum kollega í tæknisamfélaginu. Dæmi um slík samfélög eru IDUG (International DB2 User Group) og IOUG (Independent Oracle User Group ) sem hvoru tveggja eru gagnagrunnssamfélög óháð framleiðanda. Eins eru samtök á borð við ACM (Association of Computer Machinery ) þar sem hægt er að sækja sér þekkingu á öllum sviðum hugbúnaðar- og tölvugeirans. Ég hef verið aðili að öllum þessum samfélögum til fjölda ára og aukið þekkingu mína umtalsvert og miðlað henni til samstarfsfélaga og annarra í gegnum þessi samfélög m.a. sem fyrirlesari á ráðstefnum.

Fólk sem vill auka þekkingu sína ætti að finna e-ð við sitt hæfi og áhuga á netinu í einhverjum að þeim samfélögum sem þar eru og ætti að verja einhverjum tíma annaðhvort í vinnunni (ef tækifæri gefst) eða utan hennar til endurmenntunar og er af nógu að taka.

Aukin og víðsýnni tækniþekking starfsfólks skilar sér alltaf í betri lausnum á þeim vandamálum sem það glímir við í sínu daglega starfi.