Fréttir

14 grunnskólar styrktir um 12 milljónir

14 grunnskólar styrktir um 12 milljónir
04.10.2016

Forritarar framtíðarinnar efla tækni- og forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum

Úthlutað hefur verið styrkjum úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar fyrir árið 2016. Sjóðnum bárust um 30 umsóknir í þessari úthlutun, flestar frá grunnskólum. Sjóðnum var kosin ný stjórn á aðalfundi sem fram fór fyrir helgi.

Virði styrkjanna er samtals tæplega tólf milljónir króna, en þeir eru í formi tölvubúnaðar og þjálfunar kennara til forritunarkennslu fyrir nemendur. Að þessu sinni fengu fjórtán grunnskólar úthlutað: Vatnsendaskóli, Álfhólsskóli, Grunnskóli Vesturbyggðar, Tálknafjarðarskóli, Auðarskóli, Klébergs­skóli, Oddeyrarskóli, Glerárskóli, Víðistaða­skóli, Hvaleyrarskóli, Blönduskóli, Grunnskóli Borgarfjarðar, Heiðarskóli og Ingunnarskóli.

Í skýrslu evrópska skólanetsins (European Schoolnet)[1] frá því í október 2014 kemur fram að forritun er í auknu mæli að verða lykilfærni sem allir krakkar ættu að tileinka sér á einn eða annan hátt. Auk þess er færnin mikilvæg á vinnumarkaði í hinum ýmsu greinum. Forritun er þar skilgreind sem rökhugsun sem er orðin ein af lykilfærni tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Í skýrslunni kemur einnig fram að kennarar hafi almennt ekki verið nægilega vel undirbúnir fyrir að forritun sé sett á námskrá.

Í þessari úthlutun munu á annað hundrað kennarar fá þjálfun til að kenna forritun og verða 100 tölvur afhentar. Þjálfun kennara skiptir miklu máli því þar styður sjóðurinn einna best við innviðina í skólunum þar sem hún ýtir undir áhuga á forritunar- og tæknimenntun innan skólanna auk þess að auka og byggja upp þekkingu. Þörf fyrir góðar tölvur er mikil í skólakerfinu en ekki er óalgengt að skólar landsins notist við 8 ára og jafnvel þaðan af eldri vélar í kennslu, vélar sem segja má að séu orðnar úreldar.

Þess ber að geta að skólarnir sem fá styrk skuldbinda sig til þess að setja forritun á námsskrá í að minnsta kosti tvö ár. Þessi skuldbinding tryggir að jafnt stúlkur og drengir fái kennslu í forritun sem vonandi skilar sér til lengri tíma í fjölgun kvenna í tæknigeiranum.

Í skýrslu[2] sem unnin var af starfshópi á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambandi íslenskra sveitar­félaga og Samtaka iðnaðarins kemur fram að Ísland stendur frammi fyrir skorti á tæknimenntuðu fólki en sam­kvæmt henni útskrifast um 500 manns á ári af raungreina- og tæknisviðum Háskóla landsins á meðan þörfin er um 1.000 manns.

Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar var að hluta til stofnaður til þess að mæta þessari þörf en hann hóf starfsemi sína í byrjun árs 2014. Megin hlutverk sjóðsins að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Skólar og sveitarfélög geta sótt um styrki úr sjóðnum til að efla tæknikennslu og notkun á tækni í skóla­starfi og fá til þess þjálfun og tækjabúnað, allt eftir þörfum hvers og eins. Þetta er í þriðja sinn sem úthlutað er úr sjóðnum. Árið 2014 var úthlutað styrkjum að verðmæti átta milljónir króna og árið 2015 ellefu milljónir. Samtals hefur því sjóðurinn úthlutað virði rúmlega 30 milljóna króna í styrki til skóla árin 2014, 2015 og 2016.

Ný stjórn

Á aðalfundi Forritara framtíðarinnar, sem fram fór fimmtudaginn 29. september síðastliðinn, var sjóðnum jafnframt kjörin ný stjórn. Í stjórninni sitja áfram Guðmundur Tómas Axelsson, markaðs- og samskiptastjóri Reiknistofu bankanna (RB), Ragnhildur Geirsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Lands­bankans og Sigfríður Sigurðardóttir, skrifstofustjóri CCP. Inn í stjórnina koma ný Bjarki Snær Bragason, forstöðu­maður upplýsingatækni hjá Össuri og Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ský, og koma í stað Katrín Dóru Þorsteinsdóttur, forstöðumanns hugverkaiðnaðar og mannauðs hjá Samtökum iðnaðarins og Sigríðar Olgeirsdóttur, framkvæmdastjóra rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka.

Guðmundur Tómas Axelsson, stjórnarmaður í Forriturum framtíðarinnar:

„Við erum mjög ánægð með þær viðtökur sem sjóðurinn hefur fengið og þann fjölda umsókna sem hafa borist. Við erum stolt af því að hafa náð að úthluta styrkjum að verðmæti 30 milljóna síðan sjóðurinn tók til starfa. Við höfum fengið til samstarfs við okkur góða hollvini, bæði einkafyrirtæki sem og Mennta- og menningarmálaráðu­neytið sem sýnir okkur hvernig atvinnulífið og hið opinbera geta unnið saman á farsælan hátt. Starf sjóðsins skiptir skólana greinilega miklu máli. Styrkirnir hafa komið af stað snjóboltaáhrifum og finnum við aukinn áhuga á forritunarkennslu í skólum ár frá ári.Að mínu mati munu þær þjóðir hafa forskot sem standa sig best í tækni. Forritun eða innsýn í forritun nýtist öllum í framtíðinni ekki ólíkt því að hafa til dæmis lært ensku, landafræði og þar fram eftir götum.“

Kristín B. Jónsdóttir, kennari í Oddeyrarskóla á Akureyri:

„Heilmikil breyting hefur orðið í upplýsingatækni í Oddeyrarskóla frá síðasta skólaári. Styrkurinn frá Forriturum framtíðarinnar hefur gert okkur kleift að læra forritun og hvernig á að kenna börnum forritun. Með auknum tölvubúnaði höfum við getað gefið forritun aukið vægi. Í dag fá allir nemendur frá 1. til 8. bekk kennslu í forritun. Mikil ánægja er meðal nemenda með þetta fyrirkomulag og áhuginn er mikill.“

[1] http://www.eun.org/c/document_library/get_file?uuid=521cb928-6ec4-4a86-b522-9d8fd5cf60ce&groupId=43887

[2] GERT skýrslan 2012: http://www.si.is/media/menntamal-og-fraedsla/GERT-Skyrsla-2012-nytt.pdf